Spurning

Eru mörg Evrópulönd á móti því að Ísland fái aðild að ESB?

Spyrjandi

Sindri Freyr Pétursson

Svar

Erfitt er að vita fyrir víst hvort einhver einstök Evrópulönd hafi verið eða séu opinberlega mótfallin aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Móttökur aðildarríkja ESB við umsókn Íslands voru almennt jákvæðar þrátt fyrir deilur Íslands við tiltekin aðildarríki um makrílveiðar og Icesave-reikningana. Þó er vitað að Noregur hafði vissar áhyggjur af aðildarumsókn Íslands á þeim forsendum að möguleg innganga Íslands í ESB mundi raska núverandi fyrirkomulagi EES-samningsins.

***

Almennt voru móttökur aðildarríkja ESB við umsókn Íslands jákvæðar ef marka má álit framkvæmdastjórnar ESB og einróma samþykki leiðtogaráðs Evrópusambandsins en þar eiga sæti þjóðhöfðingjar eða leiðtogar ríkisstjórna ESB-ríkjanna. Enn fremur lýstu þingmenn Evrópuþingsins yfir stuðningi við þá ákvörðun að hefja aðildarviðræður við Ísland. Lögð var sérstök áhersla á að Ísland væri rótgróið lýðræðisríki sem hefði um áratugaskeið tekið virkan þátt í Evrópusamvinnunni í gegnum aðild sína að EFTA, EES og Schengen. Evrópuþingmenn hvöttu jafnframt til aðildarsamnings sem myndi þjóna hagsmunum beggja og lýstu yfir skilningi á sérstöðu Íslands. Ísland fékk stöðu umsóknarríkis á skömmum tíma, einu ári eftir að umsókn var lögð fram.


Össur Skarphéðinsson fyrrum utanríkisráðherra ásamt Carli Bildt í Stokkhólmi árið 2009 þegar aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var afhent með formlegum hætti.

Þótt opinberar móttökur aðildarríkjanna hafi verið jákvæðar vörpuðu erfiðar deilur Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fyrir hönd tiltekinna aðildarríkja ESB um skiptingu makrílstofnsins, vissum skugga á aðildarferlið. Þótt um aðskilin mál hafi verið að ræða er ljóst að makríldeilan hafði áhrif á afstöðu einstakra aðildarríkja til aðildarviðræðna Íslands og ESB og að til deilunnar megi rekja þær tafir sem urðu á viðræðum um sjávarútvegsmálin. Ísland átti sömuleiðis, snemma í aðildarferlinu, í harðri milliríkjadeilu við bæði Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana. Talsmenn aðildarumsóknarinnar lögðu áherslu á að þetta væru tvíhliða deilur viðkomandi ríkja við Ísland og með öllu ótengdar aðildarviðræðunum. Erfitt er þó að ætla annað en að málið hafi haft einhver neikvæð áhrif á aðildarferlið. Icesave-deilan var til lykta leidd fyrir EFTA-dómstólnum og var niðurstaðan Íslandi í vil. Nánar er fjallað um makríldeiluna og um tengsl Icesave-deilunnar og ESB í svörum við spurningunum Mundi ESB-aðild breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska fiskveiðilögsögu? Hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu að vera aðili að ESB? og Tengist Icesave ESB á einhvern hátt?

Ofantaldar útistöður Íslands við tiltekin aðildarríki leiddu ekki til þess að eitthvert ríkjanna beitti sér gegn aðildarumsókninni, sem auðveldlega hefði verið hægt, til dæmis með beitingu neitunarvalds í leiðtogaráðinu þegar ákvörðunin um að hefja aðildarviðræður við Ísland var tekin. Mögulega kom ekki til þess þar sem sérstaklega er tilgreint í 49. grein sáttmálans um Evrópusambandið að sérhvert evrópskt ríki, sem virðir grundvallargildin sem vísað er til í 2. gr., eigi rétt á að verða aðili að Evrópusambandinu.

Að lokum er vert að nefna að í skýrslunni Utenfor og innenfor: Norges avtaler med EU um samband Noregs og Evrópusambandsins kemur fram að Noregur hafði vissar áhyggjur af aðildarumsókn Íslands á þeim forsendum að möguleg innganga Íslands í ESB mundi raska núverandi fyrirkomulagi EES-samningsins. Samningurinn er einn veigamesti þátturinn í utanríkisstefnu Noregs og hefur haft meiri áhrif á innanríkismál en nokkur annar alþjóðlegur samningur sem Noregur á aðild að. Hins vegar ber ekki á öðru en að Noregur beri fulla virðingu fyrir ákvörðunum íslenskra stjórnvalda í þessum málum en sjálfur hefur Noregur fjórum sinnum sótt um aðild að Evrópusambandinu. Nánar má lesa um aðildarumsóknir Noregs í svari við spurningunni Fengu Norðmenn fullan aðildarsamning í bæði skiptin sem þeir sóttu um og höfnuðu aðild að ESB?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.3.2014

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Eru mörg Evrópulönd á móti því að Ísland fái aðild að ESB?“. Evrópuvefurinn 28.3.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63688. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela