Spurning

Hvaða afleiðingar yrðu af því að draga umsóknina að ESB til baka, þurfum við þá að borga ESB útlagðan kostnað?

Spyrjandi

Jökull Torfason

Svar

Evrópusambandið kemur ekki beint að kostnaði Íslands við umsóknarferlið sjálft. Sambandið veitir umsóknarríkjum þó stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (e. Instrument for Pre-Accession Assistance). Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til hennar kemur. Styrkir samkvæmt áætluninni eru að mestu veittir til umbóta sem nýtast þótt ekki komi til aðildar og að sögn utanríkisráðherra á það við um öll verkefnin sem Íslendingar hafa sótt um IPA-stuðning fyrir. Sjá nánar í svari við spurningunni Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert?

Landsáætlun IPA gerir ráð fyrir að 28 milljónum evra verði varið í styrki til Íslands fyrir árin 2011 til 2013, eða 4,6 milljörðum íslenskra króna á genginu í lok ágúst 2011. Lög Evrópusambandsins kveða ekki á um að umsóknarríki endurgreiði IPA-styrki ef það dregur umsókn sína til baka og það hafa umsóknarríki aldrei þurft að gera, eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst. Hið sama á við um kostnað ESB af viðræðunum sjálfum.


Lög Evrópusambandsins kveða ekki á um að umsóknarríki endurgreiði svonefnda IPA-styrki ef þau draga umsókn sína til baka. Myndin sýnir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhenda Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu í Stokkhólmi 23. júlí 2009.

Ólíklegt er að það hefði langvarandi neikvæðar afleiðingar á samskipti Íslands og Evrópusambandsins að draga aðildarumsóknina til baka, ef marka má reynslu Möltu og Sviss. Malta frysti aðildarumsókn sína í tvö ár frá 1996 til 1998 en Sviss hætti við sína umsókn árið 1994 eftir að hafa hafnað EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Malta hóf samningaviðræður við ESB á ný árið 1998 og varð aðili að sambandinu árið 2004 en Sviss á í nánum samskiptum við ESB á grundvelli fjölda tvíhliða samninga.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:
Hvaða mögulegar afleiðingar gæti það haft fyrir Ísland ef umsókn til Evrópusambandsins yrði dregin til baka. Yrðum við að borga þann kostnað sem ESB hefur nú þegar lagt til vegna umsóknarinnar og hafa einhver lönd hingað til gert slíkt?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.8.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvaða afleiðingar yrðu af því að draga umsóknina að ESB til baka, þurfum við þá að borga ESB útlagðan kostnað?“. Evrópuvefurinn 30.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60445. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela