Evrópuvefurinn

Dunhaga 5

107 Reykjavík


Netfang: evropuvefur[hjá]hi.is

Sími: 525 4765


Ritstjóri: Þórhildur Hagalín, Evrópufræðingur (thorhh[hjá]hi.is).
Framkvæmdastjóri: Jón Gunnar Þorsteinsson, bókmenntafræðingur (jongth[hjá]hi.is).


Forseti Alþingis opnaði Evrópuvef Háskólans og Alþingis fimmtudaginn 23. júní 2011 á Háskólatorgi. Stofnað var til vefsins með þjónustusamningi milli Alþingis og Vísindavefsins og hann starfar í nánum tengslum við Vísindavefinn. Fjármagn til Evrópuvefsins kom frá Alþingi fram til ársloka 2013. Evrópuvefurinn er þess vegna ekki lengur starfræktur og þær upplýsingar sem hér koma fram eru aðeins til marks um hvernig starfseminni var háttað.

Tilgangur Evrópuvefsins er að veita hlutlægar, málefnalegar og trúverðugar upplýsingar, meðal annars um:

  1. Aðdraganda og sögu Evrópusambandsins og undanfara þess.
  2. Löggjöf og réttarframkvæmd í ESB.
  3. Skipulag og stjórnsýslu ESB.
  4. Stefnu og áætlanir ESB.
  5. Aðildarríki ESB og afstöðu þeirra til einstakra málaflokka.
  6. Aðildarumsókn Íslands, sbr. þingsályktun Alþingis frá 16. júlí 2009, og hugsanleg áhrif af aðild Íslands að ESB ef af henni verður.

Uppbygging Evrópuvefsins og framsetning efnis verður með svipuðu sniði og á Vísindavefnum og styðst við reynslu sem þar hefur fengist. Meðal annars er tekið mið af eftirfarandi atriðum:

  1. Að veita málefnalegar og trúverðugar upplýsingar sem koma frá fróðum aðilum og lýsa sem flestum sjónarmiðum.
  2. Að greina skýrt á milli staðreynda annars vegar og hins vegar mismunandi viðhorfa sem eru umdeild.
  3. Að efni vefsins verði sem varanlegast, óháð aðstæðum þegar það er skrifað.
  4. Að vefurinn sé virkur og lifandi og birti sem næst eitt svar á hverjum virkum degi.
  5. Að svör séu vönduð, einföld og skýr almenningi og án rökvillna. Sérhæfð fræðiorð eru útskýrð, yfirleitt í sérstakri skrá, og samsvarandi orð á ensku sýnd þannig að lesandi geti aflað sér meiri upplýsinga á því máli.
  6. Að framsetning efnis sé nútímaleg, með myndefni og veftenglum eftir því sem við á, ásamt heimildaskrám eftir atvikum. Höfundar sem svara spurningum geta notað myndskeið til skýringar ef efnið kallar á það.
  7. Að hvert svar sé sjálfstæður texti með eðlilegum tilvísunum í annað efni á vefsetrinu eða á netinu, og einnig í prentað mál þegar svo ber undir.

Starfsmenn Evrópuvefsins semja svör eftir atvikum, afla svara frá öðrum höfundum, lesa efni vefsins yfir fyrir birtingu, tryggja samræmi í frágangi svara, sjá um birtingu athugasemda frá lesendum, og svo framvegis. Starfsmenn lagfæra málfar, stíl og framsetningu í svörum. Ef þörf er á eru svör ritrýnd. Þá eru fengnir sérfróðir einstaklingar til yfirlestrar eins og tíðkast í fræðastörfum. Starfsmenn vefsins geta sjálfir útbúið spurningar þegar svo ber undir.

Spurningar skulu bornar fram undir fullu nafni, þannig að unnt sé að staðfesta hver spyrjandi er. Hins vegar má sleppa nafni spyrjanda við birtingu óski hann þess. Höfundar svara kom ævinlega fram undir fullu nafni.

Lesandi sem telur svari áfátt getur bent ritstjórn á það og er svar þá lagfært ef höfundur fellst á það. Lesandi getur enn fremur skrifað eða hlutast til um að skrifa annað sjálfstætt svar við sömu spurningu. Ef það fullnægir kröfum um fagleg efnistök er það birt á sama hátt og settir viðeigandi tenglar milli svaranna.

Athugasemdir sem leyfðar eru við svör þurfa að vera undir fullu nafni og sendar ritstjórn, sem lagfærir þær fyrir birtingu með samræmi og heildarsvip vefsins í huga. Rökleysur og málflutningur sem beinist að manni (lat: „ad hominem“) í stað málefnis eru ekki birtar.

Ritstjóri Evrópuvefsins er Þórhildur Hagalín MA í Evrópufræðum. Hún tók við af Þorsteini Vilhjálmssyni prófessor emeritus í vísindasögu og eðlisfræði, ritstjóra Vísindavefsins 2000-2010, þann 1. janúar 2012. Hjá Evrópuvefnum hafa eftirtaldir aðilar starfað sem verkefnastjórar: Vilborg Ása Guðjónsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson, MA í alþjóðasamskiptum, Brynhildur Ingimarsdóttir, MA í alþjóðasamskiptum og Lena Mjöll Markusdóttir laganemi. Í ritstjórn hafa setið Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, Margrét Einarsdóttir, lektor í Evrópurétt, Bjarnveig Eiríksdóttir lögfræðingur, Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og Sverrir Jakobsson sagnfræðingur. Framkvæmdastjóri Evrópuvefsins er Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins. Vefstjóri Evrópuvefsins er Guðmundur Daði Haraldsson.




Vinsamlegast sendið okkur tölvupóst um hvaðeina sem þið viljið segja um Evrópuvefinn, einkum það sem betur má fara.