Spurning

Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert?

Spyrjandi

Stefnir Húni Kristjánsson

Svar

Evrópusambandið veitir ríkjum sem hafa sótt um aðild að sambandinu stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (Instrument for Pre-Accession Assistance). Stuðningur stendur til boða bæði þeim ríkjum sem hafa formlega fengið stöðu umsóknarríkis og eins þeim sem eru skilgreind sem möguleg umsóknarríki (e. potential candidate country). Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir að takast á við umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til þess kemur. IPA-áætlunin skiptist í fimm meginþætti:

  1. Aðstoð við uppbyggingu stofnana
  2. Stuðning við samstarf umsóknarríkja, mögulegra umsóknarríkja og aðildarríkja ESB
  3. Stuðning við byggðaþróun
  4. Stuðning við mannauðsþróun
  5. Stuðning við dreifbýlisþróun

Heildarupphæð styrkja fyrir tímabilið 2007-2013 eru 11,5 milljarðar evra eða um 1.900 milljarðar íslenskra króna miðað við gengi í lok júní 2011.

Hvað Ísland varðar ákvað ráðherraráð Evrópusambandsins 14. júlí 2010 að Ísland ætti kost á stuðningi úr sjóðum IPA. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um IPA-áætlunina segir að gert hafi verið ráð fyrir að stuðningurinn til Íslands gæti skipst í tvennt. Annars vegar væri um að ræða landsáætlun IPA en í henni felst samsafn nokkurra verkefna sem íslensk stjórnvöld velja. Hins vegar stæði Íslandi til boða að sækja um styrki til svokallaðra fjölþegaáætlana (e. multi-beneficiary programs) en þar er Íslandi ekki úthlutað fyrirfram ákveðnum upphæðum.

Landsáætlun IPA miðast við fyrirfram ákveðna upphæð (28 milljónir evra fyrir árin 2011–2013) sem ætluð er til að styðja sérstaklega við Ísland. Mögulegt framlag til Íslands er 0,24% af heildarfjárveitingu IPA á árunum 2007–2013. Tvö meginmarkmið hafa verið skilgreind í aðstoð við Ísland. Annars vegar er styrking stjórnsýslunnar til að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefði í för með sér, ef Ísland gengi í ESB. Hins vegar er undirbúningur vegna hugsanlegrar þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum ESB sem Íslandi stæði til boða ef það gengi í sambandið. Það ætti einna helst við um svokallaða uppbyggingarsjóði ESB sem styðja við atvinnu- og byggðaþróun og eflingu mannauðs og vinnumarkaðar. Þá er einnig lögð áhersla á verkefni sem miða að því að mæta EES-skuldbindingum, sjá tillögu að stuðningi við Matís hér á eftir.

Undirbúningi verkefna sem til greina kæmi að styrkt yrðu á fyrstu landsáætlun IPA 2011 lauk formlega 3. júní síðastliðinn þegar íslensk stjórnvöld sendu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu sína. Að sögn utanríkisráðherra voru öll verkefnin valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að Evrópusambandinu. Ákvörðun verður tekin í nóvember næstkomandi á vettvangi stjórnar IPA þar sem öll aðildarríki sambandsins eiga sæti.

Í þessari tillögu Íslands að IPA-landsáætlun 2011 eru lögð fram alls sjö verkefni:

  1. Hagstofa Íslands: Endurbætur á gerð þjóðhagsreikninga.
  2. Matís: Framfylgni reglugerða um matvælaöryggi sem hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi sem hluti af skuldbindingum í EES.
  3. Náttúrufræðistofnun: Kortlagning vistkerfa og fuglalífs á Íslandi.
  4. Þýðingamiðstöð: Þýðing á regluverki Evrópusambandsins yfir á íslensku.
  5. Skrifstofa landstengiliðar: Samræming og miðlun styrkja og uppbygging þekkingar á stuðningi ESB á sviði byggðamála og atvinnuuppbyggingar.
  6. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins: Efling á starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun.
  7. Háskólafélag Suðurlands: Verkefnið Katla Jarðvangur sem felur meðal annars í sér þróunaráætlun fyrir svæðið kringum Eyjafjallajökul og uppbyggingu á þekkingarsetri um svæðið.

Samkvæmt reglum um IPA eru styrkir sem snúa að fjárfestingum bundnir að minnsta kosti 15% mótframlagi og beinir styrkir kalla á minnst 10% mótframlag frá umsóknarríki. Önnur verkefni lúta ekki reglum um lágmarksmótframlag en þar ráða áherslur stjórnvalda viðkomandi umsóknarríkis mestu um hvort greitt er mótframlag.

Íslandi stendur einnig til boða að taka þátt í svokölluðum fjölþegaáætlunum. TAIEX-aðstoð (Technical Assistance and Information Exchange) tilheyrir fjölþegaáætlunum en Íslendingar hafa haft aðgang að henni síðan sumarið 2010. Í TAIEX aðstoðinni felast ekki beinir fjárhagslegir styrkir heldur aðstoð í formi mannauðs. TAIEX-aðstoð er veitt verkefnum sem tengjast löggjöf ESB, þar með talin EES-tengd verkefni. Hér er einna helst um að ræða heimsóknir erlendra sérfræðinga til Íslands, ferð til einhvers aðildarríkis eða á ráðstefnu.

Varðandi aðlögun að regluverki ESB leggur sambandið áherslu á að aðildarríki séu þegar við aðild tilbúin að taka á sig þær skuldbindingar sem samið hefur verið um í aðildarviðræðunum og uppfylla þær. Þannig getur ESB til dæmis sett viðmið um það að samningaviðræður hefjist um tiltekna kafla eða að þeim sé lokað. Ísland mun þurfa að uppfylla skilyrði ESB um aðlögun, hvort sem landið þiggur styrki úr sjóðum IPA eða ekki. Stuðningurinn getur hins vegar gert það að verkum að Ísland eigi auðveldara með að fullnægja viðkomandi skilyrðum.

Svarið við síðari hlutum spurningarinnar felst óbeint í því sem hér hefur verið sagt. Íslendingar sækja um styrki til ákveðinna verkefna. Ef þeir verða veittir ber að sjálfsögðu að verja þeim til að vinna þessi sömu verkefni. Í því felst meðal annars aðlögun á viðkomandi sviðum en að öðru leyti fela styrkirnir ekki í sér neinar sérstakar skuldbindingar.

Frá því að IPA-áætlunin var kynnt til sögunnar hér á landi eftir að Ísland sótti um ESB-aðild árið 2009, hafa verið skiptar skoðanir um hvort Ísland ætti að þiggja styrki úr sjóðum hennar. Andstæðingar þess halda því fram að með styrkjunum sé verið að aðlaga stjórnsýslu Íslands um of að regluverki ESB með tilliti til þess að þjóðin hafi ekki enn kveðið upp sinn dóm um aðild að sambandinu. Þá vilja andstæðingar einnig meina að ESB sé með styrkjunum að kaupa stuðning Íslendinga við aðild. Stuðningsmenn halda því hins vegar fram að styrkirnir muni efla þær stofnanir sem þá hljóta og styrkja stjórnsýsluna, og þar með bæta stöðu Íslands í samningaviðræðunum. Þá muni þeir bæta þekkingu íslenskra stofnana á möguleikum og þátttöku í stuðningskerfum Evrópusambandsins. Ávinningurinn af þessu muni skila sér hvort sem Ísland gengur að lokum í sambandið eða ekki.

Heimildir og mynd:

Upphaflega spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Í hverju felst IPA-stuðningsáætlunin, þar sem við erum búin að sækja um IPA-styrki þurfum við þá ekki að fylgja eftir lögum Council Regulation (EC) No 1085/2006 sem kveða á um aðlögun að regluverki ESB, ef svo er hvernig myndi sú aðlögun eiga sér stað?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.6.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert?“. Evrópuvefurinn 29.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60080. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela