Er kostnaður Íslands í samningaferli við ESB einhver eða borgar ESB fyrir ferlið?
Spyrjandi
Haukur Logi Jóhannsson
Svar
Með meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu frá júlí 2009 fylgir kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins fyrir ESB-umsóknarferlið. Er þá átt við þann kostnað sem fellur til vegna þeirrar ákvörðunar Alþingis að sækja um aðild að ESB, hefja samningaviðræður og ljúka þeim. Í áætluninni er gert ráð fyrir að beinn kostnaður geti numið alls 990 milljónum króna á tímabilinu 2009–2012. Þar af er beinn kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna ferða, ráðgjafar, starfsmanna og annarra þátta áætlaður 300 milljónir, annarra ráðuneyta 100 milljónir og loks er gert ráð fyrir þýðingarkostnaði uppá 590 milljónir. Það er mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins sé mjög gróf og með víðum skekkjumörkum. Að mati skrifstofunnar þyrfti mjög mikinn fjárhagsaga til að kostnaðarmatið gæti staðist. Í skýrslu til Alþingis í maí 2011 metur utanríkisráðherra það svo að ekki sé útlit fyrir annað en að kostnaður við umsóknarferlið verði innan áætlunar.| Ár | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | Samtals |
| Kostnaður hjá utanríkisráðuneyti | 0 | 200 | 100 | 0 | 300 |
| Kostnaður hjá öðrum ráðuneytum | 0 | 50 | 50 | 0 | 100 |
| Þýðingarkostnaður | 50 | 180 | 180 | 180 | 590 |

Evrópusambandið kemur ekki beint að kostnaði Íslands við umsóknarferlið sjálft. Sambandið veitir þó ríkjum sem hafa sótt um aðild að sambandinu stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (Instrument for Pre-Accession Assistance). Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir að takast á við umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til þess kemur, en þó þannig að styrkt verkefni nýtist að mestu hvort sem af aðild verður eða ekki. Sjá nánar í svari við spurningunni Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert? Landsáætlun IPA gerir ráð fyrir að 28 milljónum evra verði varið í styrki til Íslands fyrir árin 2011–2013 eða 4,6 milljörðum íslenskra króna á genginu í lok ágúst 2011. Samkvæmt reglum um IPA eru styrkir sem snúa að fjárfestingum bundnir að minnsta kosti 15% mótframlagi og beinir styrkir kalla á minnst 10% mótframlag frá umsóknarríki. Ef áætluð styrkupphæð gengur eftir yrði mótframlag íslenska ríkissins þannig minnst einhversstaðar á milli 460 og 690 milljónir króna (10-15%). Kostnaður íslenska ríkisins vegna mótframlaga stendur utan áðurnefndrar kostnaðaráætlunar utanríkisráðuneytisins vegna umsóknarferlisins.
Heimildir og mynd:- Álit meirihluta utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórn að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Fylgiskjal IV: kostnaðarmat, bls. 44. Fylgiskjal V: Minnisblað, bls. 46
- Skýrsla Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafaþingi 2010-2011, bls: 30
- Tillaga til þingsályktunar um eftirlit Ríkisendurskoðunar við kostnaði með umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu
- Fyrri mynd sótt 24.8.2011 af heimasíðu Hurriet Daily News
- Seinni mynd sótt 24.8.2011 af heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.8.2011
Flokkun:
Efnisorð
aðildarviðræður kostnaður kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytið fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins ferðakostnaður starfsmannakostnaður þýðingarkostnaður sérfræðikostnaður IPA styrkir
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Er kostnaður Íslands í samningaferli við ESB einhver eða borgar ESB fyrir ferlið?“. Evrópuvefurinn 25.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60463. (Skoðað 21.12.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef


