Svar
Ekki er ljóst á þessari stundu hvort og þá hvernig Ísland fellur inn í stefnu Evrópusambandsins gagnvart ystu svæðum þess og hvaða styrkir, aðlaganir eða sérlausnir myndu þá standa til boða. Það veltur á samningaviðræðum Íslands við ESB. Þar á meðal eru hugsanlegir styrkir til að lækka ferðakostnað milli Íslands og Evrópu. Engin fordæmi eru þó fyrir þess háttar styrkjum til ystu svæða sambandsins.
***
Í Rómarsáttmálunum (299. gr.) eru sérákvæði um eyjar og svæði sem tilheyra ESB en eru langt frá meginlandi Evrópu. Þetta eru Gvadelúpeyjar, Franska Gvæjana, Martiník, Réunion, Sankti Bartolómeusar-eyjar og Sankti Martins-eyjar sem tilheyra Frakklandi, Azoreyjar og Madeira sem tilheyra Portúgal, og loks Kanaríeyjar sem heyra undir Spán. Fjarlægð þessara svæða frá meginlandi Evrópu er allt frá 1.080 km (Madeira) til 7.600 km (Réunion). Fimm svæði af sjö eru yfir fimm þúsund kílómetra frá meginlandi Evrópu.
Í sérákvæðunum er sérstaklega tekið mið af atvinnuskilyrðum og efnahagslegri og félagslegri stöðu þessara svæða. Þau eru talin standa höllum fæti sökum smæðar sinnar, fjarlægðar frá meginlandi Evrópu, einangrunar, erfiðra staðhátta og veðurfars, og fábreyttrar framleiðslu. Þau standa þannig efnahagslega verr að vígi en aðildarríki ESB en verg landsframleiðsla á hvern íbúa var allt frá 49% af meðaltali ESB ríkja í Franska Gvæjana til 92% á Kanaríeyjum árið 2009. Þá er atvinnuleysi töluvert hærra á meirihluta eyjanna en meðal ríkja ESB. Sem dæmi er atvinnuleysi 25% á Gvadelúpeyjum og Réunion, 22% á Martiník og 21% í Franska Gvæjana.
Í ákvæðunum felast sértækar ráðstafanir hvað varðar tollamál og viðskipti, skattamál, frísvæði, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu, skilyrði fyrir framboði á hráefnum og nauðsynlegum neysluvörum, ríkisaðstoð og skilyrði fyrir aðgangi að uppbyggingarsjóðum og þverlægum áætlunum ESB. Þessi svæði eru flokkuð sem ystu svæði sambandsins (Outermost Regions, ORs) og er stefnan gagnvart þeim hluti af þremur aðskildum stefnusviðum sambandsins: Svæðisstefnu (Regional Policy), Samheldnistefnu (Cohesion Policy) og Landbúnaðarstefnu (Common Agricultural Policy, CAP).
Ystu svæði Evrópusambandsins, hér merkt með stjörnu.
Stuðningur Evrópusambandsins gagnvart ystu svæðum þess felst meðal annars í úthlutunum úr Evrópska svæðisþróunarsjóðnum (European Regional Development Fund), Evrópska Félagsmálasjóðnum (European Social Fund) og Evrópska landbúnaðarsjóðnum fyrir dreifbýlisþróun (í gegnum Sameiginlegu landbúnaðarstefnuna, CAP). Þessu til viðbótar er til sjóður sem styrkir sérstaklega fjarlæg og einangruð svæði (Programme of Options Specifically Relating to Remoteness and Insularity) sem hefur yfir 628,5 milljónum evra að ráða eða 10,4 milljörðum íslenskra króna á genginu í byrjun júlí 2011. Þá hljóta ystu svæðin einnig styrki úr Evrópska fiskveiðisjóðnum sem nemur 1,67 milljörðum íslenskra króna (101,4 milljónum evra). Alls fá ystu svæði ESB um 1.304 milljarða íslenskra króna í styrki á tímabilinu 2007-2013 (7,84 milljarða evra).
Hvað varðar stuðning við flutnings- og ferðakostnað til og frá ystu svæðum sambandsins verður 36% af stuðningi úr Evrópska svæðisþróunarsjóðnum varið í umbætur á aðgengi til og frá þessum svæða á árunum 2007-2013. Þannig hefur framkvæmdastjórn ESB tekið upp stuðningskerfi fyrir vöruflutninga til og frá frönsku yfirráðasvæðunum sem og styrki til flugferða innan Frönsku Gvæjönu og Madeira fyrir einstaklinga sem búa á einangruðum svæðum innan þessara eyja. Svipaðir styrkir höfðu áður verið veittir til Gvadelúpeyja, Martiník og Réunion. Hins vegar er okkur ekki kunnugt um styrki vegna ferðalaga milli ystu svæða og Evrópu sjálfrar enda mundu þess konar ferðir yfirleitt vera innan viðkomandi ríkja og þannig á verksviði þeirra frekar en ESB.
Efnahagsleg og félagsleg staða Íslands er töluvert betri en fyrrnefndra ystu svæða Evrópusambandsins. Ísland var í áttunda sæti árið 2009 í vergri landsframleiðslu meðal ESB-ríkja. Fjarlægð landsins frá meginlandi Evrópu er um 1.800 km (miðpunktur Íslands – miðpunktur Danmerkur) sem er lengra en fjarlægð Kanaríeyja og Madeira frá meginlandi Evrópu (Portúgal) en margfalt styttra en fjarlægð annarra ystu svæða sambandsins. Á hinn bóginn á Ísland ýmislegt sameiginlegt með ystu svæðum ESB hvað varðar þætti eins og einangrun, erfiða staðhætti og veðurfar. Einnig eru framleiðslu- og þó einkum útflutningsvörur fáar, fyrst og fremst fiskafurðir og ál.
Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis metur það svo í áliti sínu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu að rík ástæða sé til að kannað verði til hlítar hvort sérákvæði Rómarsáttmálans um ystu svæði geti átt við um Ísland. Telur meirihlutinn að Ísland geti átt ýmislegt sameiginlegt með ystu svæðum sambandsins þótt hafa verði í huga að félags- og efnahagsleg staða Íslands er ólík þeim svæðum sem ákvæðið á við um. Í þessu sambandi er aðallega verið að ræða um sérlausnir á sviði landbúnaðar.
Heimildir og mynd:
Upphafleg spurning var svona:
Geta Íslendingar gert sér vonir um að fá styrki frá ESB eða íslenska ríkinu til að lækka ferðakostnað milli Íslands og Evrópu sökum fjarlægðar og einangrunar landsins?