Spurning

Mundi ESB-aðild breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska fiskveiðilögsögu? Hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu að vera aðili að ESB?

Spyrjandi

Andri Thorstensen

Svar

Svarið við fyrri spurningunni er já. Aðild að Evrópusambandinu mundi breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýir fiskistofnar tækju að ganga inn í íslenska lögsögu. Það á jafnt við ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska lögsögu úr lögsögu aðildarríkis Evrópusambandsins, úr lögsögu ríkis utan Evrópusambandsins (oft nefnt þriðja ríki í þessu samhengi) eða frá alþjóðlegu hafsvæði. Sem aðili að Evrópusambandinu hefði það ekki verið á færi íslenskra stjórnvalda að úthluta íslenskum fiskiskipum kvóta úr makrílstofninum. Það hefði komið í hlut Evrópusambandsins eftir meginreglunni um hlutfallslega stöðugar veiðar.

***

Hér á landi eru það íslensk stjórnvöld sem hafa ákvörðunarvald um leyfilegan heildarafla í íslenskri lögsögu og á öðrum miðum sem Ísland hefur ráðstöfunarrétt yfir. Fiskveiðistjórnunarkerfið er mótað í löggjöf frá Alþingi en síðan útfært nánar af stjórnvöldum. Þegar nýr fiskistofn, til að mynda makríll, fer að ganga í miklum mæli inn í íslenska efnahagslögsögu kemur það því í hlut íslenskra stjórnvalda að ákveða hversu miklum afla er úthlutað úr stofninum og til hverra. Þetta á reyndar ekki við ef Ísland hefur skuldbundið sig að þjóðarrétti til annars, það er gert samning við önnur ríki sem kveður á um annað. Undanfarin ár hefur makríl verið úthlutað til íslenskra fiskveiðiskipa eftir reglum settum af stjórnvöldum, nú síðast með reglugerð nr. 329/2012 um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2012.

Aðildarríki Evrópusambandsins hafa hins vegar framselt vald sitt á þessu sviði til sameiginlegra stofnana sambandsins. Evrópusambandið hefur sjálfstæða stefnu í fiskveiðimálum og er meginreglan sú að sambandið eitt hafi vald til að setja lagareglur um verndun fiskiauðlinda. Í því felst meðal annars vald til að ákveða skiptingu kvóta milli aðildarríkja. Af þessu leiðir að aðildarríkin sjálf hafa ekki vald til að ákveða skiptingu kvóta milli landa en er hins vegar látið eftir að skipta landskvóta viðkomandi ríkis milli útgerða og/eða fiskiskipa í því ríki. Vald Evrópusambandsins nær í aðalatriðum til allra hafsvæða sem heyra undir lögsögu aðildarríkjanna, það er landhelginnar, efnahagslögsögunnar og landgrunnsins.


Makríll unninn hjá síldarvinnslunni Medium.

Það er meginregla innan Evrópusambandsins að fiskveiðar skuli byggja á hlutfallslega stöðugum veiðum en í því felst að landskvóta til aðildarríkja er úthlutað á grundvelli sögulegrar veiðireynslu. Hlutdeild hvers og eins aðildarríkis í sameiginlegum fiskveiðiheimildum á að vera stöðug. Þá er það einnig meginregla í Evrópusambandinu að fiskveiðiskip aðildarríkja eiga að hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum á öllum hafsvæðum sambandsins. Frá meginreglunni er sú undantekning að aðildarríkjum er heimilt að takmarka veiðar á hafsvæðum allt að 12 sjómílum frá grunnlínu og binda veiðarnar við fiskiskip sem venjubundið hafa veitt á þeim hafsvæðum og gera út frá höfnum aðliggjandi stranda. Aðildarríkin hafa þannig jafnan rétt til veiða innan hafsvæða Evrópusambandsins án tillits til þess innan hvaða lögsögu svæðin kunna að falla, að því gefnu að þau hafi yfir að ráða tilskildum aflakvóta.

Af meginreglunni um hlutfallslega stöðugar veiðar leiðir að ef fiskistofn fer að ganga úr efnahagslögsögu eins aðildarríkis inn í efnahagslögsögu annars aðildarríkis þá á landskvóti fyrra ríkisins að haldast óbreyttur þrátt fyrir breytingar á göngu fiskistofnsins. Ef hins vegar fiskistofn fer að ganga inn í efnahagslögsögu aðildarríkis frá þriðja ríki eða alþjóðlegu hafsvæði þá gildir sú regla að Evrópusambandið skal ákveða aðferð við úthlutun nýrra fiskveiðiheimilda að teknu tilliti til hagsmuna sérhvers aðildarríkis.


Makríll.
Makríldeilan snýst í stuttu máli um það að makríll fór að ganga inn í íslenska efnahagslögsögu í auknum mæli í fæðisleit á seinni hluta síðasta áratugar. Sem dæmi má nefna að nánast þrisvar sinnum meira af makríl var á íslenska hafsvæðinu á árinu 2010 en á árinu 2009. Áður höfðu íslensk fiskiskip aðallega veitt makríl sem meðafla með öðrum fisktegundum en hófu að veiða hann í mun meira mæli þegar hann fór að ganga inn í íslensku efnahagslögsöguna. Noregur og ríki í Evrópusambandinu, aðallega Bretland og Írland, höfðu lengi stundað veiðar á makríl í norðausturhluta Atlantshafs. Þessi ríki hafa því hagsmuni af því að kvóti þeirra til makrílveiðanna skerðist sem minnst og að veiðarnar séu sjálfbærar.

Frá því að Íslendingar og Færeyingar hófu veiðar á makríl að ráði, í norðausturhluta Atlantshafs, hafa samningaviðræður átt sér stað milli Íslendinga, Færeyinga, Noregs og Evrópusambandsins um skiptingu makrílkvótans á þessu hafsvæði. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa samningar ekki tekist. Íslensk stjórnvöld hafa því gefið út einhliða makrílkvóta innan íslensku lögsögunnar. Einhliða makrílkvóti Íslendinga í ár er 145.227 tonn, sem nemur um 16% af samanlögðum kvótum Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hefur vald til að vera í fyrirsvari fyrir aðildarríkin og gera þjóðréttarsamninga við ríki utan sambandsins um fiskveiðar, hvort sem er um rétt aðildarríkjanna til fiskveiða í lögsögu þriðju ríkja eða rétt þriðju ríkja til veiða í lögsögu Evrópusambandsins. Það er af þeim sökum sem Írland og Bretland eru ekki beinir aðilar að makríldeilunni við Íslendinga heldur Evrópusambandið, þrátt fyrir að það séu Bretar og Írar sem helst hafa stundað markílveiðar í Atlantshafi og hafa hagsmuni af veiðunum.

Spurningunni um hvort það hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu hefur ekki verið svarað hér enda liggur ekki fyrir nein lausn í deilunni sem hægt væri að byggja slíkar vangaveltur á. Hins vegar hefur verið fjallað um hver staðan er og hvernig hún hefði verið ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu. Ljóst er að sem aðili að Evrópusambandinu hefði það ekki verið á færi íslenskra stjórnvalda að úthluta kvóta úr makrílstofninum. Það hefði komið í hlut Evrópusambandsins eftir þeim meginreglum sem reifaðar voru hér að framan.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.5.2012

Tilvísun

Hildur Ýr Viðarsdóttir. „Mundi ESB-aðild breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska fiskveiðilögsögu? Hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu að vera aðili að ESB?“. Evrópuvefurinn 18.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60555. (Skoðað 9.11.2024).

Höfundur

Hildur Ýr Viðarsdóttirlögfræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela