Spurning

Hver er stefna ESB í sjávarútvegsmálum?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB (e. Common Fisheries Policy), eins og hún er starfrækt í dag, gekk í gildi árið 1983. Stefnan er víðtæk en undir hana fellur meðal annars sameiginleg stjórnun fiskveiða og verndun fiskistofna, sameiginlegt markaðsskipulag, uppbyggingarstefna og samningar við þriðju ríki. Stefnan hefur verið gagnrýnd hvað varðar ofveiði, brottkast, kvótahopp, slakt eftirlit og ófullnægjandi viðurlög við brotum. Sambandið hefur unnið að því að bæta úr þessum þáttum en það hefur tekist misvel.

***

Samvinna Evrópusambandsríkja í sjávarútvegsmálum á rætur sínar að rekja til þess að í Rómarsáttmálanum voru afurðir fiskveiða skilgreindar sem landbúnaðarvörur og féllu þar með undir landbúnaðarstefnu Efnahagsbandalagsins. Samstarfið á sviði sjávarútvegsmála fór hægt af stað en þróaðist á nokkrum áratugum í sameiginlega sjávarútvegsstefnu, óháða landbúnaðarstefnunni. Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB, í því formi sem hún er starfrækt í dag, gekk í gildi árið 1983 og hefur verið endurskoðuð á tíu ára fresti síðan þá. Sú þróun er rakin nánar í svari við spurningunni Hvernig hefur sjávarútvegsstefna ESB þróast í tímans rás?


Maria Damanaki, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

Markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar hafa frá upphafi verið þau sömu og sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar (39. grein sáttmálans um starfshætti ESB, SSE), það er að:
  • auka framleiðni í sjávarútvegi,
  • tryggja sjómönnum sanngjörn lífskjör,
  • stuðla að jafnvægi á mörkuðum,
  • tryggja stöðugt framboð á vörum og
  • tryggja neytendum sanngjarnt verð.
Í kjölfar endurskoðunar sjávarútvegsstefnunnar árið 2002 voru tekin upp viðbótarmarkmið um sjálfbærni í sjávarútvegi, bæði efnahagsleg, umhverfisleg og félagsleg, sem og verndun fiskistofna og lífríkis sjávar (sjá grunnreglugerð um sjávarútvegsmál (nr. 2371/2002)).

Sameiginlega sjávarútvegsstefnan byggist í meginatriðum á fjórum grundvallarþáttum:
  • fiskveiðistjórnun og verndun fiskistofna,
  • sameiginlegu markaðsskipulagi með frjálsum markaði fyrir fiskafurðir,
  • sameiginlegri uppbyggingarstefnu með hjálp sjávarútvegssjóðs Evrópu (e. European Fisheries Fund, EFF) og
  • samningum við þriðju ríki.
Í stefnunni felast einnig aðgerðir sem lúta að umhverfisáhrifum af fiskveiðum, flotastjórnun, aðgengi að hafsvæðum og höfnum, eftirliti og reglufylgni og fiskeldi.

Undirstaða sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar er meginreglan um jafnan aðgang. Samkvæmt henni hafa öll aðildarríki ESB rétt til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 sjómílna. Aðgangurinn er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér umtalsverðar takmarkanir á reglunni um jafnan aðgang þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildir þeirra eru bundnar við.

Ákvarðanir um hámarksafla byggjast á tillögum framkvæmdastjórnar ESB og eru unnar í víðtæku samráði við vísindamenn frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (e. International Council for the Exploration of the Sea, ICES) og hafrannsóknastofnunum aðildarríkjanna sem og nefnd sem skipuð er hagsmunaaðilum í sjávarútvegi aðildarríkjanna. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráð ESB skiptir leyfilegum hámarksafla milli aðildarríkjanna á grundvelli meginreglunnar um hlutfallslega stöðugar veiðar en aðildarríkin hafa sjálf umsjón með skiptingu aflaheimilda sinna milli innlendra útgerða, í samræmi við eigin löggjöf.


Aðildarríkin og Evrópusambandið deila valdheimildum á sviði sjávarútvegs, að frátalinni verndun lífrænna auðlinda hafsins þar sem sambandið fer með óskiptar valdheimildir. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 fékk Evrópuþingið í fyrsta sinn aðkomu að setningu afleiddrar löggjafar á sviði sjávarútvegsmála, sem nú heyra undir svonefnda almenna lagasetningarmeðferð. Ákvarðanir um árlegan hámarksafla og úthlutun veiðiheimilda eru þó eftir sem áður teknar af landbúnaðar- og sjávarútvegsráðinu, án aðkomu Evrópuþingsins, og þurfa aukinn meirihluta atkvæða í ráðinu til að hljóta samþykki.

Helsta gagnrýnin á sjávarútvegsstefnu ESB hefur í gegnum tíðina snúið að ofveiði, brottkasti, slöku eftirliti, kvótahoppi og ófullnægjandi viðurlögum við brotum. Unnið hefur verið að því að bæta úr þessum þáttum við hverja endurskoðun stefnunnar en það hefur tekist misvel.

Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2009 voru skilgreindir fimm kerfislægir annmarkar sjávarútvegsstefnunnar: of mikil sóknargeta skipaflota aðildarríkjanna, ónákvæm markmið, skammsýni, of lítil ábyrgð á herðum sjávarútvegsiðnaðarins og skortur á pólitískum vilja til að tryggja reglufylgni. Þessir þættir liggja til grundvallar þriðju endurskoðun stefnunnar sem stendur yfir um þessar mundir en stefnt er að því að ljúka henni fyrir árslok 2012. Fjallað er nánar um endurskoðunina í svari við spurningunni Um hvað snýst endurskoðunin á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir?

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.9.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson og Þórhildur Hagalín. „Hver er stefna ESB í sjávarútvegsmálum?“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63118. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundar

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá EvrópuvefnumÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela