Spurning

Almenn lagasetningarmeðferð

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Flestar lagagerðir Evrópusambandsins (reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir) eru samþykktar með almennri lagasetningarmeðferð (e. ordinary legislative procedure). Hún felst í því að Evrópuþingið og ráðið hafa samráð um mótun nýrrar gerðar og að samþykkt hennar krefjist samþykkis beggja stofnana (289. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, SSE). Stofnanirnar hafa því sama vægi í lagasetningarferlinu.

Framkvæmdastjórnin hefur frumkvæðisrétt að nýrri lagasetningu sem þýðir að hún ber ábyrgð á að móta og leggja fram tillögur að nýjum gerðum fyrir Evrópuþingið og ráðið. Frumvörp framkvæmdastjórnarinnar fara einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum fyrir Evrópuþingið og ráðið, eftir því hvort þau samþykkja frumvarpið við fyrstu, aðra eða þriðju umræðu. Eftir að framkvæmdastjórnin hefur lagt tillögu að gerð fyrir Evrópuþingið og ráðið er málsmeðferðin með eftirfarandi hætti (294. gr. SSE):

Fyrsta umræða:

 • Evrópuþingið ákveður afstöðu sína, með stuðningi meirihluta allra þingmanna, eftir fyrstu umræðu og tilkynnir hana ráðinu.
 • Ef ráðið fellst á afstöðu Evrópuþingsins er gerðin samþykkt með því orðalagi sem samrýmist afstöðu Evrópuþingsins.
 • Ef ráðið fellst hins vegar ekki á afstöðu Evrópuþingsins, þarf það að taka afstöðu eftir fyrstu umræðu, tilkynna hana Evrópuþinginu og upplýsa það um ástæður þeirrar afstöðu sem það samþykkti.

Önnur umræða:

 • Evrópuþingið hefur þrjá mánuði frá tilkynningu ráðsins til að fallast á afstöðu þess og er viðkomandi gerð þá talin samþykkt með því orðalagi sem samrýmist afstöðu ráðsins.
 • Gerðin telst einnig samþykkt ef Evrópuþingið bregst ekki við og þrír mánuðir líða frá því að það fékk tilkynningu frá ráðinu.
 • Ef Evrópuþingið fellst hins vegar ekki á afstöðu ráðsins og hafnar henni með stuðningi meirihluta allra þingmanna, þá telst gerðin ekki samþykkt.
 • Evrópuþingið getur einnig gert breytingartillögur við afstöðu ráðsins, með stuðningi meirihluta allra þingmanna, og sendir þingið þá ráðinu og framkvæmdastjórninni breyttan texta.
 • Ráðið hefur þá þrjá mánuði til að bregðast við breytingum Evrópuþingsins, og getur með auknum meirihluta:
  • Fallist á allar breytingar Evrópuþingsins og telst viðkomandi gerð þá samþykkt.
  • Hafnað breytingum Evrópuþingsins og skal forseti ráðsins þá, í samráði við forseta Evrópuþingsins, kalla svonefnda sáttanefnd saman til fundar innan sex vikna.

Sáttanefndin samanstendur af aðilum sem eiga sæti í ráðinu, eða fulltrúum þeirra, og jafnmörgum fulltrúum Evrópuþingsins. Hún hefur það hlutverk að ná samkomulagi um sameiginlegan texta, með auknum meirihluta þeirra sem sæti eiga í ráðinu, eða fulltrúa þeirra, og meirihluta þeirra sem eru fulltrúar Evrópuþingsins, innan sex vikna frá því að hún var kvödd saman. Framkvæmdastjórnin tekur einnig þátt í málsmeðferð sáttanefndarinnar sem málamiðlari. Ef sáttanefndin samþykkir ekki sameiginlegan texta innan þessara tímamarka er fyrirhuguð gerð ekki talin samþykkt. Ef sáttanefndin samþykkir sameiginlegan texta innan þessa frests hefst þriðja umræða.

Þriðja umræða:

 • Evrópuþingið hefur sex vikur frá samþykki sáttanefndarinnar til að taka ákvörðun með meirihluta greiddra atkvæða þingmanna um hvort samþykkja eigi viðkomandi gerð í samræmi við sameiginlegan texta sáttanefndarinnar.
 • Ráðið hefur einnig sex vikur frá samþykki sáttanefndarinnar til að samþykkja gerðina í samræmi við sameiginlegan texta hennar og er ákvörðun tekin innan ráðsins með auknum meirihluta.
 • Ef Evrópuþingið og ráðið samþykkja sameiginlegan texta sáttanefndarinnar telst gerðin samþykkt eftir þriðju umræðu.
 • Ef Evrópuþingið eða ráðið samþykkja ekki sameiginlega texta sáttanefndarinnar telst fyrirhuguð gerð ekki samþykkt.

Almennri lagasetningarmeðferð er beitt við setningu afleiddrar löggjafar á flestöllum málasviðum Evrópusambandsins. Landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, málefni innri markaðarins, dóms- og innanríkismál, mennta- og menningarmál og félags- og atvinnumál, svo eitthvað sé nefnt, heyra öll undir almenna lagasetningarmeðferð. Þegar ekki er notuð almenn lagasetningarmeðferð er beitt sérstakri lagasetningarmeðferð.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela