Spurning

Hvað gerir framkvæmdastjórn ESB?

Spyrjandi

Kári Walter, f. 1992

Svar

Hlutverk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commission) eru skilgreind í 17. grein sáttmálans um Evrópusambandið. Í fyrsta lagi er hún handhafi framkvæmdavalds. Ekki síst á sviði samkeppnismála geta ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar haft víðtæk áhrif en hún getur meðal annars komið í veg fyrir samruna fyrirtækja og lagt sektir á fyrirtæki sem misnota ráðandi markaðsstöðu sína, auk þess sem hún hefur eftirlit með ríkisaðstoðarkerfum aðildarríkjanna.

Í öðru lagi er framkvæmdastjórnin verndari sáttmála ESB. Hún hefur eftirlit með beitingu sáttmálanna og laga sem stofnanir ESB hafa sett á grundvelli þeirra. Telji hún að aðildarríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálunum getur hún farið með málið fyrir dómstól Evrópusambandsins.



José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Í þriðja lagi hefur framkvæmdastjórnin frumkvæðisrétt við samningu löggjafar. Það þýðir að lög og reglur ESB má einungis samþykkja að tillögu framkvæmdastjórnarinnar nema kveðið sé á um annað í sáttmálunum. Er framkvæmdastjórnin því oft kölluð „mótorinn í hinu evrópska samrunaferli“.

Í fjórða lagi er framkvæmdastjórnin fulltrúi ESB gagnvart ríkjum utan þess. Hún stýrir til að mynda viðræðum um tolla- og viðskiptasamninga við þriðju ríki og alþjóðlegar stofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), innan ramma þeirra tilskipana sem ráðið beinir til hennar. Þetta á þó ekki við um sameiginlegu stefnuna í utanríkis- og öryggismálum (SSUÖ; Common Foreign and Security Policy, CFSP) þar sem ráðherraráðið gegnir þessu hlutverki. Meðal annarra mikilvægra hlutverka framkvæmdastjórnarinnar má nefna framkvæmd fjárlaga og stýringu samstarfsáætlana svo sem Menntaáætlunar ESB og 7. Rannsóknaáætlunar ESB.

Framkvæmdastjórn ESB hefur í tímans rás verið ein umdeildasta stofnun sambandsins. Í henni sitja menn sem eru sérvaldir til þeirra starfa og er ætlað að horfa á málin frá sjónarmiði sambandsins sem heildar. Á síðasta áratug 20. aldar kom upp umræða um svokallaðan lýðræðishalla sambandsins og var því þá meðal annars haldið fram að sjónarmið aðildarríkjanna væru of oft látin víkja fyrir sjónarmiðum heildarinnar, meðal annars í starfi framkvæmdastjórnarinnar. Leiðtogaráð sambandsins (European Council) styrktist þá í sessi, fyrst óformlega á grundvelli eigin frumkvæðis en að lokum var staða þess kristölluð með sérstöku ákvæði um það í Lissabon-sáttmálanum sem átti sér langan aðdraganda en tók að lokum gildi árið 2009.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.6.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvað gerir framkvæmdastjórn ESB?“. Evrópuvefurinn 22.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=25169. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela