Spurning

Hvernig hefur Evrópusambandið breyst frá stofnun?

Spyrjandi

Grímur Óli Grímsson f. 1993, Móeiður Ása Valssdóttir f. 1994

Svar

Frá 1952 voru sex þjóðríki í bandalögunum sem leiddu síðar til Efnahagsbandalags Evrópu og Evrópusambandsins: Frakkland, Vestur-Þýskaland, Ítalía, Belgía, Holland og Lúxemborg, en Bretland, Danmörk og Írland bættust í hópinn árið 1973, Grikkland árið 1981, og Spánn og Portúgal árið 1986. Síðan Evrópusambandið (ESB) var formlega stofnað árið 1993 hafa 15 ríki bæst í hópinn, það er Austurríki, Finnland og Svíþjóð árið 1995, Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland árið 2004 og loks Búlgaría og Rúmenía árið 2007. Aðildarríkin eru því 27 talsins þegar þetta er skrifað í júní 2011. Þá hafa fimm ríki formlega fengið stöðu umsóknarríkis (e. candidate status): Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Króatía og Tyrkland. Albanía, Bosnía og Hersegóvína og Serbía hafa stöðu mögulegs umsóknarríkis (e. potential candidate status).

Evrópusamruninn hefur frá upphafi þróast á grundvelli sáttmála sambandsins (The Treaties of the European Union). Alls hafa níu sáttmálar verið gerðir frá árinu 1952 og hefur hver og einn þeirra lagt grunninn að breytingum og framþróun í starfi og eðli sambandsins.



Yfirlit yfir þróun sáttmála og skipulags ESB. Smellið til að stækka myndina

Í upphafi takmarkaðist samstarfið við sameiginlegan markað fyrir viðskipti með kol og stál samkvæmt Parísarsáttmálanum sem lagði grunninn að stofnun Kola- og stálbandalagsins (European Coal and Steel Community, ECSC). Markmiðið var að koma í veg fyrir hernað og draga úr spennu á milli aðildarríkja bandalagsins eftir seinni heimsstyrjöldina, enda kemur stál mjög við sögu í hernaði eins og kunnugt er og kola- og stálnámur höfðu oft verið bitbein í deilum aðildarríkjanna.

Næst komu Rómarsáttmálarnir sem tóku gildi árið 1958 og lögðu grunninn að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu (EBE; European Economic Community, EEC) og Kjarnorkubandalags Evrópu (European Atomic Energy Community, EURATOM). Helsta breytingin með Rómarsáttmálunum var sú að efnahagssamstarf aðildarríkjanna var aukið og átti ekki lengur einungis við um viðskipti með kol og stál.

Árið 1967 var Brussel-sáttmálinn eða Samrunasáttmálinn (Merger Treaty) samþykktur en markmið hans var að færa bandalögin þrjú, EBE, EURATOM og Kola- og stálbandalagið, undir eina sameiginlega framkvæmdastjórn og eitt sameiginlegt ráðherraráð (eins og það hét þá).

Árið 1986 var sáttmálinn um Einingarlög Evrópu samþykktur (Single European Act) en hann hafði það markmið að leggja grunninn að innri markaði sambandsins, sem felur í sér frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli ríkja EBE og síðar EB og ESB. Samningurinn stuðlaði einnig að endurbótum á stofnunum sambandsins, til að búa þær undir aðild Spánar og Portúgals, og lagði grunninn að skilvirkari og lýðræðislegri ákvarðanatöku, sem fól í sér aukið vægi Evrópuþingsins.

Maastricht-sáttmálinn gekk í gildi árið 1993 en markmið hans var að undirbúa stofnun Efnahags- og myntbandalagsins (Economic and Monetary Union, EMU) og innleiðingu nýs gjaldmiðils, evrunnar. Evrópusambandið (ESB; European Union, EU) var formlega stofnað með Maastricht-sáttmálanum, sem eins konar þak í svonefndu stoðaskipulagi (e. pillars) sem sáttmálinn fól í sér. Efnahagsbandalagi Evrópu var breytt í Evrópubandalagið (EB; European Community, EC) og myndaði það kjarnann í fyrstu stoð ESB, ásamt EURATOM og Kola- og stálbandalaginu. Þá var kynnt til leiks aukið pólitískt samstarf er varðaði sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum (SSUÖ; Common Foreign and Security Policy, CFSP) annars vegar (önnur stoð) og í dóms- og innanríkismálum (Justice and Home Affairs, JHA) hins vegar (þriðja stoð). Til að taka ákvarðanir í málum sem féllu undir aðra eða þriðju stoð þurfti einróma samþykki aðildarríkjanna en í málum fyrstu stoðar gátu ríkin ekki endilega beitt neiturnarvaldi. Með Maastricht-sáttmálanum var einnig komið á sameiginlegri ákvarðanatöku (e. joint decision-making) ráðherraráðsins og Evrópuþingsins, sem gaf þinginu enn frekara vægi.

Amsterdam-sáttmálinn var samþykktur árið 1999 en meginmarkmið hans var að endurbæta stofnanir sambandsins til að búa þær undir inngöngu nýrra aðildarríkja. Ákvarðanataka varð gegnsærri og sameiginleg ákvarðanataka ráðherraráðsins og Evrópuþingsins var aukin frekar. Þá var Schengen-samstarfið svokallaða leitt í lög Evrópusambandsins en markmið þess er að auðvelda ferðir fólks á milli ríkja samstarfsins með því að afnema vegabréfaskoðun á innri landamærum þess. Samhliða er eftirlit á sameiginlegum ytri landamærum svæðisins styrkt.

Nice-sáttmálinn var samþykktur árið 2003 en meginmarkmið hans voru frekari endurbætur á stofnunum sambandsins til þess að það gæti starfað á skilvirkan hátt eftir stækkunarlotu ársins 2004 þegar 10 ný ríki gengu í sambandið.

Lissabon-sáttmálinn var samþykktur árið 2009. Meginmarkmið hans voru að gera ESB lýðræðislegra og skilvirkara og búa það betur í stakk til að takast á við hnattræn vandamál á samhentan hátt. Helstu breytingar fólust í því að Evrópuþingið fékk enn aukin völd, stofnað var varanlegt embætti forseta leiðtogaráðsins, sérstök utanríkisþjónusta ESB og embætti utanríkismálastjóra sambandsins. Stoðaskipulag sambandsins var þar að auki formlega afnumið og nafninu Evrópubandalagið alfarið skipt út fyrir Evrópusambandið.

Af þessu má sjá að Evrópusamstarf hefur tekið miklum breytingum frá stofnun Kola- og stálbandalagsins árið 1952. Breytingar felast bæði í auknum fjölda aðildarríkja og í mikilli víkkun verksviðs í samstarfinu, bæði með öflugri og samræmdari innri markaði, myntsamstarfi og stórauknu samstarfi í innanríkis, utanríkis- og öryggismálum.

Lesendum er bent á að skoða Tímaás Evrópuvefsins og Handbók hans til frekari glöggvunar og yfirlits.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.6.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvernig hefur Evrópusambandið breyst frá stofnun?“. Evrópuvefurinn 28.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=52653. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela