Spurning

Hver er munurinn á EFTA og ESB?

Spyrjandi

Jozef Galazka f. 1995, Örn Bjartmars Ólafsson f. 1995

Svar

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) voru stofnuð með Stokkhólmssamningnum árið 1960. Stofnríki voru sjö: Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð. Ísland varð aðili að samtökunum árið 1970 en nú eru aðildarríkin aðeins fjögur talsins, Liechtenstein, Noregur og Sviss auk Íslands. Í skilningi almenna samkomulagsins um tollamál og viðskipti (GATT-samkomulagsins) frá 1947 er EFTA svokallað fríverslunarsvæði (e. free-trade area). Það merkir að tollar og aðrar verslunarhindranir eru afnumdar í viðskiptum milli aðildarríkjanna með þær vörur sem upprunnar eru í ríkjunum sjálfum. Hvert ríki ákveður hins vegar sjálft hvernig það hagar tollum og öðrum viðskiptareglum í skiptum við ríki utan svæðisins.


Frá ráðherrafundi EFTA sem haldinn var í Reykjavík í júní 2010.
Aðild að EFTA tók lengi vel aðeins til viðskiptakjara í verslun með iðnaðarvörur og að takmörkuðu leyti til viðskipta með landbúnaðar- og sjávarafurðir en fríverslun með fisk var þó samþykkt árið 1989. Í júlí 2001 lauk endurskoðun Stokkhólmssamningsins með undirritun Vaduz-samningsins svokallaða. Með honum voru meðal annars innleidd ákvæði um frjálsa för launþega milli aðildarríkjanna í áföngum, frelsi til fjárfestinga, þjónustuviðskipti, afnám viðskiptahindrana, opinber innkaup og hugverkavernd.

Þá hefur EFTA gert yfir 20 fríverslunarsamninga við ríki eins og Kanada, Ísrael og Úkraínu. Öll samvinna EFTA-ríkjanna byggist á hefðbundnu milliríkjasamstarfi en það þýðir að samþykki allra aðildarríkja þarf til að ákvörðun taki gildi. Æðsta stofnun samtakanna er EFTA-ráðið en það er skipað þeim ráðherrum sem fara með utanríkisviðskipti í aðildarríkjunum og hefur hvert aðildarríki eitt atkvæði í ráðinu.

Evrópubandalögin, sem síðar urðu að Evrópusambandinu, voru stofnuð með Parísar-sáttmálanum frá 1951 og Rómarsáttmálunum frá 1957. Stofnríki þeirra voru Beneluxlöndin, Frakkland, Ítalía og Þýskaland. Evrópusambandið er tollabandalag (e. customs union) í skilningi GATT-samkomulagsins, en slíkt bandalag gengur lengra en fríverslunarsvæði. Þessum tveimur tegundum bandalaga er sameiginlegt að tollfrelsi ríkir í viðskiptum milli aðildarríkjanna en í tollabandalagi á það við um allar vörur, ekki aðeins þær sem eiga uppruna sinn innan sambandsins eins og í fríverslun. Þar að auki gilda í tollabandalögum samræmdar tollreglur í viðskiptum við ríki utan bandalagsins.

Hér við bætist að Evrópusambandið er annað og meira en bara tollabandalag. Strax í Rómarsáttmálanum var kveðið á um nána samvinnu á fjölmörgum sviðum, meðal annars um sameiginlega landbúnaðarstefnu, sjávarútvegsstefnu og sameiginlegan innri markað með frjálsu flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks (fjórfrelsið). Þessi stefna hefur síðan verið áréttuð og styrkt með síðari samningum. Með seinni tíma þróun hefur þar að auki verið tekin upp sameiginleg stefna í utanríkis- og öryggismálum, dóms- og innanríkismálum sem og efnahags- og myntbandalag í flestum löndum sambandsins. Þá tilheyra sambandinu valdamiklar stofnanir sem standa vörð um framkvæmd samningsins og hafa yfirþjóðlegt vald á nokkrum sviðum gagnvart aðildarríkjunum. Þar að auki hafa aðildarríkin gagngert framselt vald til hinna yfirþjóðlegu stofnana sambandsins og falið þeim að taka ákvarðanir um setningu afleiddrar löggjafar, sem gengur framar landslögum, á mörgum sviðum.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994 var stofnað til fríverslunarsvæðis milli EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein (EFTA/EES ríkin) annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Með samningnum er lagt bann við tollum og magntakmörkunum í viðskiptum með þær vörur sem samningurinn tekur til og tilgreint að fjáröflunargjöld ýmiss konar megi ekki leggjast af meiri þunga á innfluttar vörur en innlendar. EES-samningurinn felur hins vegar ekki í sér að teknir séu upp samræmdir tollar eða viðskiptastefna gagnvart þriðju ríkjum og tollafgreiðsla hefur ekki verið felld niður milli aðildarríkjanna eins og innan ESB. EES-samningurinn kveður á um verulega lagasamræmingu aðildarríkjanna og útlistar stofnanir sem eiga að tryggja rétta framkvæmd samningsins EFTA megin frá. Hann veitir EFTA-ríkjunum fullan aðgang að innri markaðnum, kveður á um jafna samkeppnisaðstöðu atvinnufyrirtækja í aðildarríkjunum og veitir EFTA-ríkjunum þar að auki aðgang að margvíslegu vísinda- og menningarstarfi á vegum ESB.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 1.7.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hver er munurinn á EFTA og ESB?“. Evrópuvefurinn 1.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=59481. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela