Hvað er NAFTA og hver er munurinn á uppbyggingu þess og ESB?
Spyrjandi
Gunnar Nelson
Svar
Skammstöfunin NAFTA stendur fyrir North American Free Trade Agreement eða Fríverslunarsamning Norður-Ameríku. Bandaríkin, Kanada og Mexíkó eru aðilar að samningnum sem tryggir fríverslun milli landanna.- ryðja úr vegi viðskiptahindrunum og stuðla að frjálsri för þjónustu og vöru yfir landamæri aðildaríkjanna;
- ýta undir skilyrði fyrir sanngjarnri samkeppni á fríverslunarsvæðinu;
- auka verulega fjárfestingartækifæri í aðildarríkjunum;
- tryggja fullnægjandi og skilvirka réttarvernd hugverkaréttinda í hverju aðildarríki;
- skapa skilvirk málsmeðferðarúrræði í tengslum við framkvæmd samningsins með sameiginlegri yfirstjórn og úrlausn ágreiningsefna og
- koma upp vettvangi fyrir aukið þríhliða, svæðisbundið og fjölþjóðlegt samstarf til að útvíkka og auka þann ávinning sem samningurinn veitir
Framkvæmdaráð NAFTA hefur umsjón með framkvæmd samningsins að öðru leyti og tekur einnig þátt í að leysa úr ágreiningi og deilumálum. NAFTA tók gildi 1. janúar 1994 en hafði verið í undirbúningi nokkur ár á undan. Alls nær samningurinn til um 445 milljón íbúa í löndunum þremur. Munurinn á uppbyggingu NAFTA annars vegar og ESB hins vegar er í stuttu máli sá að uppbygging NAFTA er mun einfaldari og yfirbyggingin er minni. Markmið samningsins eru ekki nærri því eins víðtæk og markmið Evrópusambandsins. NAFTA miðast fyrst og fremst að því að tryggja frjálsa verslun með vöru og þjónustu og tryggja að hindrunum fyrir henni sé rutt úr vegi en markmið Evrópusambandsins eru að stuðla að náinni samvinnu á miklu fleiri sviðum og ef til vill að pólitískum samruna aðildarríkjanna. Þetta sést vel á því hve umfangsmikið stjórnkerfi Evrópusambandsins er og hve áhrif þess á innri málefni aðildarríkjanna eru mikil, til dæmis í löggjöf og dómsmálum. Reglugerðir sambandsins eru sjálfkrafa rétthærri en lög aðildarríkja, þar með talið stjórnarskrár ríkjanna, og aðildarríkin verða að aðlaga landsrétt sinn að tilskipunum frá sambandinu, að viðlagðri skaðabótaábyrgð viðkomandi ríkis ef innleiðing reglnanna er ekki fullnægjandi. Á vegum Evrópusambandsins er starfrækt þing og ráðherraráð sem fara í sameiningu með löggjafarvald. Dómar Evrópudómstólsins eru bindandi. Slíkt framsal valds á sér ekki stað með NAFTA sem er meira í ætt við hefðbundinn alþjóðasáttmála um fríverslun þar sem lögð er áhersla á að aðildarríkin leysi þau mál sem upp kunna að koma sín á milli eða með því að setja málin í hendur hópa sérfræðinga. Þannig mælir NAFTA ekki fyrir um að sett séu á fót varanlegar alþjóðlegar stofnanir á borð við þing eða dómstóla heldur snýst samningurinn fyrst og síðast um að tryggja frjálsa verslun milli landanna þriggja. Nánari upplýsingar um NAFTA eru á þessari heimasíðu.
Mynd:
- School of Advanced Study. Sótt 2.10.2009.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 2.10.2009
Efnisorð
NAFTA ESB fríverslun Evrópa Norður-Ameríka Bandaríkin Kanada Mexíkó viðskiptahindranir frjáls för fjárfesting hugverkaréttur Alþjóðabankinn framkvæmdaráð Evrópuþingið ráherraráð Evrópudómstóll alþjóðasáttmálar
Tilvísun
Árni Helgason. „Hvað er NAFTA og hver er munurinn á uppbyggingu þess og ESB?“. Evrópuvefurinn 2.10.2009. http://evropuvefur.is/svar.php?id=51593. (Skoðað 9.12.2024).
Höfundur
Árni Helgasonlögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ