Spurning

Innri markaðurinn

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Innri markaður (e. internal market, single market) Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) grundvallast á reglunum um fjórfrelsið eða hið fjórþætta frelsi (e. the four freedoms), sem er hugtak sem vísar til frjáls flæðis vöru, launþega, þjónustu og fjármagns.

Stofnun innri markaðarins átti sér langan aðdraganda þótt ákvæðin um fjórfrelsið hafi verið til staðar þegar í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu (EBE; European Economic Community, ECE), forvera Evrópusambandsins, sem var undirritaður árið 1957. Innri markaðurinn varð þó ekki að veruleika fyrr en röskum þremur áratugum síðar þar sem hægt þokaðist í samræmingu löggjafar aðildarríkjanna, með setningu afleiddra gerða (reglugerða og tilskipana), sem nauðsynlegar voru til að fjórfrelsið yrði raunverulegt. Tímaáætlun um stofnun innri markaðarins var sett fram í svonefndum einingarlögum Evrópu (Single European Act), sem voru undirrituð árið 1986. Þar var kveðið á um að gera innri markaðinn starfshæfan fyrir 1. janúar 1993.

Samhliða áformum um fullkomnun innri markaðarins höfðu hugmyndir um aðkomu EFTA-ríkjanna að markaðnum verið í mótun. Formlegar samningaviðræður um stofnun Evrópska efnahagssvæðisins hófust í júní árið 1990 og var EES-samningurinn undirritaður 2. maí 1992. Samningurinn er að miklu leyti samhljóða ákvæðum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu um innri markaðinn en þau er nú að finna í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE).

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.4.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Innri markaðurinn“. Evrópuvefurinn 13.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62369. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela