Spurning

Af hverju setur Evrópusambandið sérstakar reglur um öryggi leikfanga?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Reglur Evrópusambandsins um öryggi leikfanga eiga að tryggja öryggi og heilsu neytenda. Oftast eru það börn sem leika sér með leikföng og þau þurfa sérstaka vernd. Ekki er þó víst að öryggi sé betur tryggt með sameiginlegri evrópskri löggjöf en með reglum á forræði hvers aðildarríkis um sig. Megintilgangurinn með sameiginlegum reglum um öryggi leikfanga er að ryðja úr vegi tálmum fyrir frjálsu vöruflæði milli aðildarríkja sambandsins. Ósamræmi í reglum aðildarríkjanna, einkum ólíkar kröfur til öryggis og eftirlits með öryggi, gat skapað viðskiptahindranir og skekkt samkeppnisaðstöðu. Þannig stóð það sameiginlegum markaði aðildarríkjanna fyrir þrifum. – Svipuð sjónarmið liggja raunar til grundvallar reglum ESB um ýmis önnur mál.

***

Árið 1990 tók gildi fyrsta tilskipun Evrópusambandsins um öryggi leikfanga (nr. 88/378), en hún var ein fyrsta nýaðferðartilskipunin, sem notaðar voru til að hraða samræmingu og fækka tæknilegum viðskiptahindrunum í aðdraganda þess að innri markaðurinn komst á fót. Fram að því hafði ósamræmi í reglum aðildarríkjanna, einkum ólíkar kröfur til öryggis og eftirlits með öryggi, skapað viðskiptahindranir og ójafna samkeppnisaðstöðu. Þetta stóð sameiginlegum markaði aðildarríkjanna fyrir þrifum. Ísland fékk aðild að innri markaðinum með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Í því fólst að tilskipunin um öryggi leikfanga, ásamt fjölda annarra, var tekin upp í íslenskan rétt með reglugerð nr. 408/1994.

Vegna örrar tækniþróunar á leikfangamarkaði og nýrra upplýsinga um skaðleg áhrif ýmissa efna, var talið nauðsynlegt að taka löggjöfina um öryggi leikfanga til gagngerrar endurskoðunar. Nýja tilskipunin um öryggi leikfanga (nr. 2009/48) var samþykkt í júlí 2009 og tók gildi þann 20. júlí 2011; samtímis féll eldri tilskipunin úr gildi. Samkvæmt þingmálaskrá Alþingis (2011-2012) verður lagt fram frumvarp til laga um öryggi leikfanga á komandi vorþingi og ákvæði nýju tilskipunarinnar þar með innleidd í íslensk lög.

Í tilskipuninni um öryggi leikfanga er ekki listi um leikföng sem eru bönnuð eða leyfð, heldur skilgreinir hún almennar reglur um að leikföng skuli ekki stofna heilsu og öryggi notenda í voða. Í tilskipuninni er einnig að finna sértækar grunnkröfur, meðal annars um efnislega og efnafræðilega eiginleika leikfanga og um eldfimi og hreinlæti. Öll leikföng þurfa að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar til að mega vera til sölu á Evrópska efnahagssvæðinu. Til að koma því á með sem auðveldustum hætti að leikföng séu í samræmi við öryggiskröfur var farin sú leið að samhæfa evrópska staðla, einkum um hönnun og gerð leikfanga. Reglurnar gilda um öll leikföng, óháð því hvort þau eru framleidd innan eða utan EES, en 86% innfluttra leikfanga í ESB koma frá Kína (sjá tölfræðiupplýsingar um evrópska leikfangamarkaðinn).

Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar leikfanga bera sameiginlega ábyrgð á því að vörur sem uppfylla ekki almennar öryggiskröfur og -staðla séu ekki settar á markað í EES. Þannig ber framleiðendum að lýsa því yfir að vörur þeirra séu í samræmi við gerðar kröfur og mega þá auðkenna þær með stöfunum CE (f. Conformité Européenne, e. European Conformity), sjá mynd hér á eftir. Öll leikföng sem eru markaðssett í EES verða að vera CE-merkt. Innflytjendur þurfa að sannreyna að framleiðendur hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að grundvöllur sé fyrir CE-merkingunni og dreifingaraðilar verða að sýna aðgát við að bera kennsl á og fjarlægja vörur sem eru ekki öruggar.

CE-merkið er ekki ábending til neytenda um að vara sé sérstaklega vönduð eða örugg. Merkið táknar eingöngu að framleiðandi ábyrgist að varan uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Á Íslandi er markaðseftirlit með leikföngum í höndum Neytendastofu og felst það meðal annars í því að afla á skipulegan hátt upplýsinga um vörur á markaði og taka við kvörtunum og ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Neytendastofu er heimilt að skoða vörur hjá seljanda og krefjast upplýsinga um ábyrgðaraðila, svo og að taka sýnishorn vöru til rannsóknar. Enn fremur getur hún krafið ábyrgðaraðila um vottorð, yfirlýsingu um samræmi við reglur og staðla, prófunarskýrslu, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna öryggi vöru.

Viðbrögðin við nýju tilskipuninni um öryggi leikfanga hafa verið misjöfn. Annars vegar hefur verið gagnrýnt í ýmsum fjölmiðlum að Evrópusambandið gangi of langt og banni börnum alfarið að blása í blöðrur og partýflautur (sjá fréttir á dailymail.co.uk, telegraph.co.uk og á mbl.is). Um þessar sögusagnir er fjallað nánar í svari við spurningunni Er það rétt að Evrópusambandið banni börnum að leika sér með segulstál, leikfangavaraliti, partýflautur og blöðrur? Hins vegar hefur Samband evrópskra neytendasamtaka (BEUC, The European Consumers’ Organisation, fr. Bureau Européen des Unions de Consommateurs) og Samstarfsvettvangur neytendasamtaka um staðlastarf (ANEC, The European Consumer Voice in Standardisation, fr. Association Normalisation Europeenne pour les Consommateurs) lýst því sameiginlega yfir að þeim þyki ekki nógu langt gengið, til dæmis varðandi bann á notkun ákveðinna efna og efnasambanda sem og ofnæmisvaldandi ilmefna (sjá fréttatilkynningu).

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela