Spurning
Nýaðferðartilskipanir
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Svonefndar nýaðferðartilskipanir (e. New Approach Directives) skilgreina almennar og samræmdar grunnkröfur til öryggis og eiginleika sem tilteknir vöruflokkar þurfa að uppfylla ef heimila á markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Vöruflokkar sem heyra undir nýaðferðartilskipanir eru til dæmis leikföng, vélar, raftæki, persónuhlífar og notendabúnaður fjarskiptakerfa og síma. Slíkar vörur þurfa að vera CE-merktar því til staðfestingar að þær uppfylli þær öryggiskröfur og –staðla sem nýaðferðartilskipanirnar kveða á um. Nánar er fjallað um CE-merkingar í svari við spurningunni Hvað táknar CE-merking á vörum, er það sérstakur evrópskur gæðastimpill? Árið 1985 samþykkti framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins (forvera ESB) hina svokölluðu „nýju aðferð“ (e. New Approach) sem nýaðferðartilskipanirnar byggja á. Tilgangurinn var að hraða samræmingu og fækka tæknilegum viðskiptahindrunum milli aðildarríkjanna í aðdraganda þess að innri markaðinum var komið á fót. Fram að því hafði ósamræmi í reglum aðildarríkjanna, einkum ólíkar kröfur til öryggis og eftirlits með öryggi á varningi, skapað viðskiptahindranir og ójafna samkeppnisaðstöðu. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fengu EFTA/EES-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein aðild að innri markaði Evrópubandalagsins árið 1994. Samningurinn kveður meðal annars á um frjálsa vöruflutninga og því hafa nýaðferðartilskipanir ESB verið innleiddar sem reglugerðir, eða með öðrum lagalega bindandi hætti, í þeim EFTA-ríkjum sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu. Listi yfir vöruflokka sem heyra undir ákveðna nýaðferðartilskipun og samsvarandi íslenska löggjöf, til innleiðingar tilskipuninni, er að finna á heimasíðu staðlaráðs Íslands. Samræming krafna til framleiðslu á vörum hefur verið mikilvægur þáttur í uppbyggingu innri markaðarins. Nýaðferðatilskipanirnar gegna þar stóru hlutverki; vörur framleiddar samkvæmt þeim í einu landi teljast uppfylla kröfur á öllu EES-svæðinu. Hægt er að finna allar nýaðferðartilskipanir og viðeigandi staðla á heimasíðunni www.newapproach.org.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur29.6.2012
Flokkun:
Efnisorð
Nýaðferðartilskipun framkvæmdastjórn Evrópubandalagið innri markaður öryggi samræming vöruflokkar CE-merking Evrópska efnahassvæðið EFTA/EES-ríki
Tilvísun
Evrópuvefur. „Nýaðferðartilskipanir“. Evrópuvefurinn 29.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62869. (Skoðað 12.10.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela