Spurning

Framkvæmdastjórn ESB

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e. European Commission) hefur frá upphafi verið ein helsta stofnun ESB. Stofnunin er sjálfstæð og á ekki að vera undir áhrifum aðildarríkja sambandsins (3. töluliður 17. gr. sáttmálans um Evrópusambandið (SESB) og 1. mgr. 245. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE)). Framkvæmdastjórnin gætir sameiginlegra hagsmuna sambandsins, á frumkvæði að nýrri löggjöf, stýrir daglegri framkvæmd á stefnum sambandsins og ráðstöfun á fjármunum og hefur eftirlit með beitingu sáttmála sambandsins og afleiddum reglum. Um hlutverk framkvæmdastjórnarinnar er fjallað nánar í svari við spurningunni Hvað gerir framkvæmdastjórn ESB?. Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnarinnar eru í Brussel en hún er einnig með skrifstofur í Lúxemborg sem og sendiskrifstofur víðs vegar um heiminn. Allt í allt starfa um 33 þúsund einstaklingar á vegum framkvæmdastjórnarinnar (2012).

Í framkvæmdastjórninni eiga sæti 28 framkvæmdastjórar, einn frá hverju aðildarríki, og fer einn þeirra með hlutverk forseta framkvæmdastjórnarinnar. Hann ber ábyrgð á því að úthluta embættum til framkvæmdastjóranna eftir málefnasviðum og getur fært þá til eða gert þá kröfu að þeir segi af sér. Forsetinn ákveður stefnu framkvæmdastjórnarinnar og hefur úrslitaatkvæði falli atkvæði jöfn þegar lagafrumvörp eru samþykkt á vikulegum fundum framkvæmdastjórnarinnar. Forsetinn er einnig fulltrúi ESB erlendis, ásamt forseta leiðtogaráðs ESB og utanríkis- og öryggismálastjóra ESB. Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar er José Manuel Barroso, fyrrum forsætisráðherra Portúgal. Hann var fyrst skipaður í október 2004 og tímabil hans síðan framlengt árið 2009 til ársins 2014. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er tilnefndur af leiðtogaráðinu og er tilnefningin síðan staðfest eða henni hafnað í kosningu á Evrópuþinginu.

Hvert aðildarríki tilnefnir einn framkvæmdastjóra í samráði við forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem úthlutar þeim embættum á tilteknum málefnasviðum. Leiðtogaráðið kýs síðan um tillögu forsetans um uppstillingu framkvæmdastjórnarinnar og þarf hún aukinn meirihluta atkvæða í ráðinu til samþykkis. Ef tillagan er samþykkt fara framkvæmdastjórarnir næst fyrir Evrópuþingið sem spyr þá ýmissa spurninga og kýs um hæfi framkvæmdastjórnarinnar í heild. Ef einhver framkvæmdastjóranna þykir ekki hæfur verður forsetinn að óska eftir nýrri tilnefningu frá viðkomandi aðildarríki eða endurskipuleggja uppröðunina á tilnefndum aðilum í framkvæmdastjórnina. Þegar Evrópuþingið hefur samþykkt framkvæmdastjórnina er hún formlega skipuð af leiðtogaráðinu með auknum meirihluta atkvæða. Þegar framkvæmdastjórnin er fullskipuð ber hún formlega ábyrgð gagnvart Evrópuþinginu sem ein heild og getur þingið lýst vantrausti á framkvæmdastjórnina sem þarf þá að segja af sér í heild sinni.

Verkefnum framkvæmdastjórnarinnar er skipt niður á mismunandi stjórnarsvið (e. Directorates General, DG´s) og þjónustusvið (e. Services). Hvert stjórnarsvið ber ábyrgð á ákveðnum málaflokki og vinnur að framgangi hans í þágu framkvæmdastjórans sem fer með tiltekið málefnasvið. Öll undirbúningsvinna, tæknilegur frágangur og gerð lagafrumvarpa fer fram á vettvangi stjórnarsviðanna en áhersla er lögð á samvinnu milli stjórnarsviða og stjórnvalda og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum.

Hver framkvæmdastjóri hefur einnig sitt eigið fagráðuneyti (e. Cabinet) þar sem starfsfólk upplýsir hann um þróun þeirra mála sem hann hefur á sinni könnu. Lokaútfærslur lagafrumvarpa, sem unnin hafa verið af stjórnarsviðunum, eru gerðar í fagráðuneytunum áður en þau eru lögð fyrir framkvæmdastjórnina.

Framkvæmdastjórnin fundar minnst einu sinni í viku í Brussel nema þegar Evrópuþingið er við þingstörf í Strassborg þá kemur hún saman þar. Á slíkum fundum fer fram atkvæðagreiðsla um lagafrumvörp og eru þau samþykkt með einföldum meirihluta. Frumvörp eru þá send ráðinu og Evrópuþinginu til umfjöllunar og við tekur hefðbundið ákvarðanatökuferli.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.5.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Framkvæmdastjórn ESB“. Evrópuvefurinn 18.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60047. (Skoðað 13.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela