Spurning

Hversu margir embættismenn vinna fyrir ESB og hve margir fyrir aðildarríkin sjálf?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Í umræðum um Evrópusambandið er algengt að nota fjölda starfsmanna ESB sem mælikvarða á skrifræði í sambandinu. Þetta gera bæði andstæðingar og stuðningsmenn ESB í aðildarríkjunum og vilja þar með ýmist færa rök fyrir því að stjórnsýsla sambandsins sé afkastalítil eða skilvirk, væntanlega í samanburði við aðildarríkin sjálf.

Slíkur samanburður er þó erfiðari viðureignar en hann virðist í fyrstu vegna þess hve verkefni ESB og aðildarríkjanna eru ólík. Það liggur fyrir að starfsmenn ESB eru um 50.000 talsins eða um einn af hverjum 10.000 íbúum aðildarríkjanna. Opinberir starfsmenn aðildarríkjanna eru hins vegar um 60 milljónir. Tölurnar sýna glöggt að nauðsynlegt er að átta sig fyrst á sambærilegum störfum sem er þó ekki auðvelt þegar að er gáð.

***

Í fjárlögum Evrópusambandsins er að finna upplýsingar um fjölda embættismanna, fastráðinna og tímabundinna, fyrir sérhverja stofnun sambandsins, samanber töfluna hér á eftir. Fyrir árið 2011 eru þetta tæp 50.000 manns, eða um það bil 1 á hverja 10.000 íbúa ESB. Miðað við íbúafjölda samsvarar þetta hlutfall um það bil 35 Íslendingum, 200 Slóvenum, 1100 Grikkjum eða 8200 Þjóðverjum.

Fjöldi starfsmanna ESB eftir stofnunum (2011):
Evrópuþingið 6.521
Leiðtogaráðið og ráðið 3.584
Framkvæmdastjórnin: 32.703
Stjórnsýsla
20.370
Rannsókna- og tækniþróun 3.827
Skrifstofur (m.a. Olaf, Epso) 1.978
Sjálfstæðar stofnanir (m.a. Europol, Eurojust) 5.742
Evrópsk samstarfsverkefni 385
Framkvæmdastofnanir 401
Evrópudómstóllinn 1.972
Endurskoðunarrétturinn 887
Efnahags- og félagsmálanefndin 739
Svæðanefndin 543
Umboðsmaður Evrópusambandsins 64
Evrópska persónuverndarstofnunin 41
47.054

Á heimasíðu Efnahags- og samvinnustofnunarinnar (OECD) má finna upplýsingar um fjölda opinberra starfsmanna í aðildarríkum stofnunarinnar. Í ríkjum Evrópusambandsins eru samkvæmt þessum tölum um 215 milljónir manna í vinnu (af um 500 milljón íbúum). Opinberir starfsmenn eru um 28% af þessum 215 milljónum (OECD, 2005, bls. 32-33) eða um 60 milljónir. Sú tala er ekki sambærileg við starfsmannafjölda ESB enda nær hún til allra opinberra starfsmanna, þar á meðal hjá heilbrigðis- og menntastofnunum og öðrum undirstofnunum. Evrópusambandið er ekki ríki og sinnir aðeins að litlu leyti sömu verkefnum og aðildarríkin, rekur til að mynda hvorki sjúkrahús né grunnskóla.

Til frekari samanburðar er hægt að reyna að skilgreina og afmarka sambærilega starfsmannahópa, annars vegar hjá þjóðríkjum og hins vegar hjá ESB. Við tökum Ísland sem dæmi af því að það er nærtækast. Hér á landi starfa samtals í kringum 20.000 manns hjá hinu opinbera (samanber töluna 60 milljónir hjá aðildarríkjum ESB). Þar af starfa um 500 starfsmenn á aðalskrifstofum ráðuneyta þar sem þeir vinna að stefnumörkun og eftirfylgni. Sambærilegum störfum innan ESB sinna um 20.000 embættismenn í stjórnsýslu framkvæmdastjórnarinnar, eða um 40 sinnum fleiri en hér. Talan hjá okkur gerir tæplega 1600 starfsmenn á milljón íbúa en talan hjá ESB um 40 starfsmenn á milljón íbúa.

Verkefni ESB á hvern íbúa eru hins vegar miklu minni en verkefni íslenska ríkisins á íbúa. Það endurspeglast í veltunni því að ESB veltir aðeins um 1% af vergri landsframleiðslu aðildarríkjanna í heild (sjá til dæmis Wikipediu og European Commission, 2008, bls. 241) en íslenska ríkið veltir rúmlega 40% af vergri landsframleiðslu sem er auk þess nokkru meiri en meðaltal í ESB. Að öllu samanlögðu virðist því fjöldi starfsmanna í stjórnsýslu miðað við veltu vera svipaður hjá ESB og íslenska ríkinu samkvæmt þessum útreikningum, eða um 150-200 starfsmenn á hvern milljarð evra sem stjórnsýslan veltir. Samanburðurinn er þó háður ýmiss konar óvissu, einkum í mati á því hvað teljist sambærileg verkefni og hve stór hópur sinni þeim. Verkefni ESB eru að mörgu leyti býsna ólík verkefnum þjóðríkja sem hafa með höndum ýmiss konar þjónustu umfram verkefni sambandsins, eins og áður var sagt. Meðal svipaðra verkefna má hins vegar nefna stefnumörkun, setningu laga og reglna og eftirlit með framkvæmd þeirra, veitingu styrkja af ýmsu tagi og svo framvegis.

Samanborið við hefðbundna stjórnsýslu og stjórnskipun er framkvæmdastjórn ESB einna nýstárlegust af valdastofnunum sambandsins, enda er hún oft talin holdgervingur yfirþjóðlega valdsins í sambandinu. Henni er oft líkt við einhvers konar ríkisstjórn eða framkvæmdavald en sú samlíking er ófullkomin. Eitt af því sem greinir framkvæmdastjórnina frá „ríkisstjórnum“ er einmitt það að áhrif hennar í grasrót samfélagsins eru allt öðru vísi og óbeinni en ríkisstjórnir hafa; framkvæmdastjórnin er að mestu leyti háð stjórnvöldum aðildarríkjanna þegar kemur að því að innleiða regluverk, framkvæma ákvarðanir og sjá um eftirlit. Þannig er þetta enn eitt dæmið um ástæður þess að verkefnin í stjórnsýslu ESB eru harla ólík verkefnum aðildarríkjanna.

Eins og fram kemur hér á undan er samanburður á starfsemi og starfsmannafjölda í stjórnsýslu aðildarríkjanna og ESB ýmsum erfiðleikum bundinn. Niðurstöður eru mjög háðar aðferðum sem menn velja og samanburðurinn er því ekki sérlega heppilegur efniviður í málefnalegar deilur.

Heimildir og mynd:
  • European Commission, 2008. European Union Public Finance. Fjórða útgáfa. Luxemborg: Office for Official Publications of the European Communities.
  • OECD, 2005. OECD in Figures. 2005 edition. Statistics on the Member Countries. OECD Observer. París: OECD Publications. [Vísað er með tengli í tilteknar síður í sérstöku skjali á vef OECD.]
  • Mynd sótt á toonpool.com, 1.9.11.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.9.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Þórhildur Hagalín. „Hversu margir embættismenn vinna fyrir ESB og hve margir fyrir aðildarríkin sjálf?“. Evrópuvefurinn 6.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60268. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela