Spurning
Leiðtogaráðið
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Leiðtogaráð Evrópusambandsins (e. European Council) ákveður almenn pólitísk stefnumið og forgangsatriði sambandsins og er ætlað að vera drifkraftur í þróun þess. Það skilgreinir markmið Evrópusambandsins til meðallangs og langs tíma og tekur á málefnum sem snúa að almennri þróun ESB, sáttmálum og stofnunum sambandsins, efnahags- og myntbandalaginu, stækkun ESB og utanríkismálum almennt. Þegar Lissabon-sáttmálinn tók gildi, 1. desember 2009, varð leiðtogaráðið fullgild stofnun ESB en hafði fram að því verið óformlegur en þó mikilvægur vettvangur stefnumótunar. Leiðtogaráðið kýs sér forseta, með auknum meirihluta, til tveggja og hálfs árs í senn og er heimilt að endurnýja kjörið einu sinni. Forsetinn má ekki sitja í embætti í heimalandi sínu á meðan hann gegnir stöðu forseta. Leiðtogaráðið kom sér saman um að Herman Van Rompuy, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, yrði fyrsti forseti leiðtogaráðsins. 1. mars 2012 hófst annað kjörtímabil hans í embætti forseta. Nánar er fjallað um hlutverk forseta leiðtogaráðsins í svari við spurningunni Hvert er hlutverk Herman Van Rompuy innan ESB? Í leiðtogaráðinu eiga sæti þjóðhöfðingjar eða leiðtogar ríkisstjórna í aðildarríkjum ESB, einn frá hverju ríki, ásamt forseta leiðtogaráðsins og forseta framkvæmdastjórnarinnar. Æðsti talsmaður stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum (e. High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy), sem nú er Catherine Ashton, tekur einnig þátt í starfi leiðtogaráðsins, en hún er jafnframt varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. Leiðtogaráðið fundar fjórum sinnum á ári, í Brussel, og sér forseti leiðtogaráðsins um að kalla það saman. Ef þörf krefur getur forsetinn einnig óskað eftir sérstökum fundi. Leiðtogaráðið tekur ákvarðanir um þau málefni sem ekki hefur tekist að ná samkomulagi um á fundum ráðherraráðsins. Ákvarðanir leiðtogaráðsins eru teknar með einróma samþykki, nema annað sé tekið fram í sáttmálum sambandsins. Forsetar framkvæmdastjórnarinnar og leiðtogaráðsins hafa ekki atkvæðisrétt á fundunum.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.5.2012
Flokkun:
Efnisorð
leiðtogaráðið þjóðhöfðingjar leiðtogar stefna ákvarðanir Lissabon-sáttmálinn forseti Herman Van Rompuy framkvæmdastjórnin ráðið atkvæðisréttur
Tilvísun
Evrópuvefur. „Leiðtogaráðið“. Evrópuvefurinn 25.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60033. (Skoðað 6.10.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela