Spurning

Hvert er hlutverk Herman Van Rompuy innan ESB?

Spyrjandi

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Svar

Herman Van Rompuy hefur verið forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 1. janúar 2010. Hlutverk forseta er að undirbúa fundi leiðtogaráðsins, stjórna þeim og tryggja samfellu og samheldni í starfi ráðsins. Forsetinn hefur hvorki framkvæmda- né ákvörðunarvald og dagleg starfsemi ESB er áfram í höndum framkvæmdastjórnarinnar og forseta hennar sem nú er José Manuel Barroso.

***

Leiðtogaráð Evrópusambandsins (European Council) ákveður almenn pólitísk stefnumið og forgangsatriði sambandsins og er ætlað að vera drifkraftur í þróun þess. Í leiðtogaráðinu eiga sæti þjóðhöfðingjar eða leiðtogar ríkisstjórna í aðildarríkjum ESB, einn frá hverju ríki, ásamt forseta leiðtogaráðsins og forseta framkvæmdastjórnarinnar. Æðsti talsmaður stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum (High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy), sem nú er Catherine Ashton, tekur einnig þátt í starfi leiðtogaráðsins, en hún er jafnframt varaforseti framkvæmdastjórnarinnar.



Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

Embætti forseta leiðtogaráðs ESB og æðsta talsmanns stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum voru stofnuð með Lissabon-sáttmálanum sem gekk í gildi 1. desember 2009. Fyrir þann tíma gegndi einn af leiðtogunum sem áttu sæti í ráðinu formennsku í hálft ár í senn. Formennskan var því veigaminni en forsetastarfið er nú. Utanríkis- og öryggismálum sinnti talsmaður sameiginlegrar stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum (High Representative for the Common Foreign and Security Policy) frá árinu 1999 þegar til embættisins var stofnað með Amsterdam-sáttmálanum. Embætti talsmannsins, sem lengst af var Javier Solana, hafði minna vægi en æðsti talsmaður stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum hefur í dag.

Gæta þótti skorts á samhæfingu meðal tímabundinna forseta frá aðildarríkjunum og var fyrirkomulagið talið hafa neikvæð áhrif á langtímamarkmið sambandsins. Stofnun embætta forseta leiðtogaráðsins og æðsta talsmanns stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum var tilraun til að taka á þeim vanda og eins til að einfalda ákvarðanaferli ESB. Nú sitja aðildarríkin einungis í forsæti ráðs ESB (Council of the European Union, áður kallað ráðherraráðið eða Council of Ministers), til skiptis í 6 mánuði í senn, en þar koma fagráðherrar aðildarríkjanna saman í hverjum málaflokki fyrir sig.

Leiðtogaráðið kýs sér utanaðkomandi forseta, með auknum meirihluta, til tveggja og hálfs árs í senn og er heimilt að endurnýja kjörið einu sinni. Í nóvember 2009 kom leiðtogaráðið sér saman um að Herman Van Rompuy, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, yrði fyrsti forseti leiðtogaráðsins.

Samkvæmt 15. grein sáttmálans um ESB eru hlutverk forseta leiðtogaráðsins eftirfarandi:

  • Að sitja í forsæti og leiða starf þess.
  • Að tryggja góðan undirbúning og samfellu í starfi leiðtogaráðsins í samstarfi við forseta framkvæmdastjórnarinnar og á grundvelli starfs almenna ráðsins.
  • Að leitast við að stuðla að samheldni og samhljómi innan leiðtogaráðsins.
  • Að gefa Evrópuþinginu skýrslu eftir hvern fund leiðtogaráðsins.
Þá skal forseti leiðtogaráðsins, á sínum vettvangi og í krafti stöðu sinnar, tryggja fyrirsvar Evrópusambandsins gagnvart ríkjum utan þess í málum er varða sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum, að teknu tilliti til valdsviðs æðsta talsmanns stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum.


Herman Van Rompuy með Catherine Ashton, æðsta talsmanni stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum.
Ennþá er óljóst hvaða áhrif nýja embættið mun hafa á starfsemi ESB og hvernig vægi þess mun þróast, en oft er talið að frammistaða fyrstu forsetana muni hafa mikið um það að segja. Gagnrýnt hefur verið að hlutverk nýju embættanna tveggja séu óljós og eins verkaskiptingin milli þeirra og forseta framkvæmdastjórnarinnar. Að margra mati einfaldar það ekki ákvarðanatökuferli ESB að hafa þrjá forseta eða leiðtoga. Einnig hefur verið gagnrýnt að embætti forseta leiðtogaráðsins dragi úr möguleikum einstakra aðildarríkja til að hafa áhrif á stefnu sambandsins, þar sem þau sitji nú aðeins í forsæti í ráðinu (ráðherraráðinu).

Lýðræðislegt umboð forseta leiðtogaráðsins hefur verið dregið í efa – undir gamla kerfinu höfðu þjóðarleiðtogar eða leiðtogar ríkisstjórna aðildarríkja beint umboð frá kjósendum í sínu heimaríki en forseti leiðtogaráðsins hefur einungis óbeint umboð í gegnum aukinn meirihluta leiðtogaráðs, og þarf til að mynda ekki samþykki lýðræðislega kjörinna fulltrúa Evrópuþingsins, líkt og tíðkast við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Ákveðinnar togstreitu gætir almennt milli leiðtogaráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Leiðtogar aðildarríkjanna hafa hagsmuni sinna ríkja að leiðarljósi en framkvæmdastjórninni er ætlað að horfa á málin út frá sjónarmiði sambandsins í heild. Tilkoma embættis forseta leiðtogaráðsins er yfirleitt túlkuð sem skref í þá átt að styrkja leiðtogaráðið gagnvart framkvæmdastjórninni.

Margir telja að val leiðtogaráðsins á Herman Van Rompuy hafi endurspeglað þann vilja aðildarríkjanna að hafa embættið ekki of áhrifamikið. Þekktari persóna frá stærra aðildarríki hefði þannig að mati margra getað gert embættið of valdamikið, á kostnað aðildarríkjanna. Þá vildu smáríki innan ESB að forsetinn yrði frá smærra aðildarríki frekar en stærra.

Þeir sem hefðu viljað fá þekktan áhrifamikinn einstakling í starfið telja að það myndi veita ESB meiri trúverðugleika, bæði heima fyrir og um allan heim. Þá benda þeir á að það þurfi hæfileikaríkan stjórnmálamann til að fá 28 aðildarríki til að komast að samkomulagi. Loks gæti valdamikill forseti leiðtogaráðsins leitt til þess að til yrði embætti forseta Evrópu, sem væri jákvæð þróun að mati þessa hóps.

Andstæðingar þess að fá áhrifamann í starf forseta benda hins vegar á að stjórnmálamenn frá minni ESB ríkjum eigi færri andstæðinga og hafi færri persónuleg gæluverkefni. Þá sé starfið mun takmarkaðra en látið er í veðri vaka. Loks gæti valdamikill forseti leiðtogaráðsins vakið upp ótta um þróun Bandaríkja Evrópu (United States of Europe).

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela