Spurning

Í hvaða málaflokkum skerti Lissabon-sáttmálinn neitunarvald aðildarríkja ESB?

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingvarsson

Svar

Milli 1958 og 1965 þurfti einróma samþykki allra aðildarríkja EBE, sex að tölu, við nær allar ákvarðanir. Mikil stækkun sambandsins síðan hefur ýtt undir kröfur um aukna skilvirkni í ákvarðanatöku stofnana. Tillögur um atkvæðagreiðslur með auknum meirihluta í stað neitunarvalds hafa þó iðulega verið umdeildar og náð fram að ganga með tregðu, enda snertir málið viðkvæm atriði eins og fullveldi og áhrif smáríkja. Með hverjum nýjum aðildarsamningi og sérhverjum nýjum sáttmála hefur hins vegar fjölgað ákvæðum í þessa átt. Helsta breytingin með Lissabon-sáttmálanum var sú að atkvæðagreiðsla með auknum meirihluta er nú meginreglan í ráðinu.

***

Eitt af yfirlýstum meginmarkmiðum Lissabon-sáttmálans var að auka skilvirkni í ákvarðanatöku innan stofnana sambandsins, sem 27 ríki eiga aðild að þegar þetta er skrifaði í júlí 2011. Í þessum tilgangi var reglan um aukinn meirihluta (e. qualified majority voting) gerð að meginreglu við ákvarðanatöku í ráðinu og þar með dregið úr möguleikum aðildarríkjanna til að beita neitunarvaldi til að stöðva framgang mála. Þannig er tekið fram í sáttmálanum að ráðið skuli taka ákvarðanir með auknum meirihluta nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Þar gegnir þó öðru máli um leiðtogaráðið, sem skal taka ákvarðanir samhljóða nema sáttmálarnir segi fyrir um annað.



Frá fundi leiðtogaráðsins í Brussel 23. og 24. júní 2011.

Ákvæðum um meirihlutaákvarðanir fjölgaði um 48 við gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 og eru þau nú samtals 113. Af ákvæðunum 48 fjölluðu 26 um ný atriði í samningunum um Evrópusambandið en um hin 22 atriðin gilti áður reglan um einróma samþykki allra aðildarríkja. Sem dæmi um nýmæli í regluverki sambandsins, sem reglan um aukinn meirihluta nær til, má nefna að leiðtogaráðið skal kjósa sér forseta og skipa æðsta talsmann stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum með auknum meirihluta, en hvort tveggja eru ný embætti sem innleidd voru með Lissabon-sáttmálanum. Þá ber ráðinu að gera samning um úrsögn aðildarríkis fyrir hönd ESB og taka um hann ákvörðun með auknum meirihluta, svo og um skilyrði borgaralegs frumkvæðis (e. citizens' initiative) sem svo er kallað en það snýst um að hópur almennra borgara geti krafist þess að stofnanir sambandsins taki tiltekin mál til meðferðar og eru þá meðal annars gerðar kröfur um lágmarksfjölda aðildarríkja sem borgarar skulu koma frá.

Varðandi þau 22 ákvæði sem reglan um samhljóða samþykki og neitunarvald gildir ekki lengur um er veigamesti málaflokkurinn dóms- og innanríkismál (Justice and Home Affairs). Þar eru til að mynda ákvæði um lögreglusamvinnu og dómsmálasamstarf, hælis- og innflytjendamál, eftirlit á ytri landamærum sambandsins, stjórnsýslusamvinnu við myndun svæðis frelsis, öryggis og réttlætis (e. area of freedom, justice and security), forvarnir á sviði glæpa sem og um skipulagningu Evrópsku réttaraðstoðarinnar (Eurojust) og Evrópulögreglunnar (Europol). Að auki má nefna afnám neitunarvalds um einstök ákvæði eins og til dæmis millilandaflutninga, samvinnu á sviði menningarmála, um notkun evrunnar, skipun framkvæmdastjórnar Seðlabanka Evrópu og stofnun sérdómstóls til að starfa í tengslum við dómstól Evrópusambandsins.

Með Lissabon-sáttmálanum var auk þess innleitt nýtt ákvæði, sem gerir breytingar á samningunum um ESB mögulegar án þess að kalla til ríkjaráðstefnu, svonefnd einfölduð endurskoðunarmeðferð (48. grein sáttmálans um starfshætti ESB). Þá er einnig kveðið á um að með samhljóða samþykki geti leiðtogaráðið, að fengnu samþykki Evrópuþingsins og ef þjóðþing aðildarríkjanna andmæla ekki, heimilað ráðinu að taka framvegis ákvörðun með auknum meirihluta þar sem samningarnir kveða ella á um einróma samþykki. Undanskildar eru þó ákvarðanir sem tengjast hernaðarstarfi eða eru á sviði varnarmála.

Upphafleg spurning var sem hér segir:

Í hvaða málaflokkum fellur eða skerðist neitunarvald í einstaka málaflokkum frá því sem það er í dag og eins og það liti út eftir breytingarnar árið 2015?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.7.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Í hvaða málaflokkum skerti Lissabon-sáttmálinn neitunarvald aðildarríkja ESB?“. Evrópuvefurinn 6.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60202. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela