Spurning

Einfölduð endurskoðunarmeðferð

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Stofnsáttmálum Evrópusambandsins er hægt að breyta eftir tveimur leiðum. Annars vegar í samræmi við hefðbundna endurskoðunarmeðferð og hins vegar með einfaldaðri endurskoðunarmeðferð (48. grein sáttmálans um Evrópusambandið, SESB).

Ákvæðið um einfaldaða endurskoðunarmeðferð (e. simplified revision procedure) var innleitt í stofnsáttmála ESB með Lissabon-sáttmálanum árið 2009. Meðferðinni er hægt að beita í tvennum tilgangi.

Annars vegar til að gera efnislegar breytingar á ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem varða innri stefnur sambandsins og aðgerðir á vettvangi þess (samtals um það bil 170 ákvæði). Það er gert með eftirfarandi hætti (6. mgr. 48. gr. SESB):

  • Ríkisstjórn hvaða aðildarríkis sem er, Evrópuþingið og framkvæmdastjórnin geta lagt fyrir leiðtogaráðið tillögur að endurskoðun á sumum eða öllum ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
  • Leiðtogaráðið getur samþykkt ákvörðun um að breyta öllum eða sumum ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
  • Leiðtogaráðið skal taka ákvörðun einróma, það er með samþykki leiðtoga allra aðildarríkjanna, að höfðu samráði við Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina svo og Seðlabanka Evrópu, ef um er að ræða breytingar er varða stofnanir sem starfa á sviði peningamála.
  • Ákvörðunin má ekki auka við þær valdheimildir sem sambandinu eru veittar í sáttmálunum.
  • Ákvörðunin öðlast ekki gildi fyrr en aðildarríkin hafa samþykkt hana í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar, það er ýmist með samþykki þjóðþinga, með einum eða öðrum hætti, eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Munurinn á endurskoðun stofnsáttmálanna eftir þessum reglum og reglum hefðbundinnar endurskoðunarmeðferðar liggur fyrst og fremst í ólíkum kröfum um samráð við mótun ákvörðunar um breytingar. Ekki er á hinn bóginn raunverulegur munur á kröfum um staðfestingu og fullgildingu ákvörðunarinnar. Það má því efast um það hversu einföld einfölduð endurskoðunarmeðferð er í raun og veru.

Einfaldaðri endurskoðunarmeðferð er hins vegar hægt að beita til að breyta formkröfum við ákvarðanatökur (7. mgr. 48. gr. SESB). Þetta ákvæði er stundum nefnt brúarákvæðið (f. passerelles eða e. bridge clause) og má nota við eftirfarandi aðstæður:

  • Kveði sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins eða V. bálkur sáttmálans um Evrópusambandið (um aðgerðir sambandsins gagnvart ríkjum utan þess og sértæk ákvæði um sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum), á um að ráðið skuli taka einróma ákvörðun á tilteknu sviði eða í ákveðnu tilviki getur leiðtogaráðið samþykkt ákvörðun um að heimila ráðinu að taka ákvörðun með auknum meirihluta á því sviði eða í því tilviki. Þetta ákvæði gildir ekki um ákvarðanir sem tengjast hernaðarstarfi eða eru á sviði varnarmála sem þýðir að ekki er hægt að afnema neitunarvald aðildarríkjanna á þessum sviðum með einfaldaðri endurskoðunarmeðferð.
  • Kveði sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins á um að ráðið skuli samþykkja lagagerðir í samræmi við sérstaka lagasetningarmeðferð getur leiðtogaráðið samþykkt ákvörðun um að heimila að slíkar lagagerðir séu samþykktar í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð.

Hvers konar frumkvæði af hálfu leiðtogaráðsins varðandi breytingar á formkröfum um ákvarðanatökur þarf að tilkynna þjóðþingum aðildarríkjanna. Ef þjóðþing hreyfir andmælum innan sex mánaða frá tilkynningunni skal ekki samþykkja slíka breytingu. Ef ekkert þjóðþing hreyfir andmælum er leiðtogaráðinu hins vegar heimilt að samþykkja ákvörðun um breytingar á formkröfum. Leiðtogaráðið skal taka slíka ákvörðun einróma, það er með samþykki leiðtoga allra aðildarríkjanna, og að fengnu samþykki meirihluta allra þingmanna Evrópuþingsins. Neitunarvald aðildarríkja á tilteknum sviðum er því aðeins hægt að afnema með samþykki fulltrúa allra aðildarríkjanna og ekki gegn vilja þjóðþinganna.

Upprunaleg tillaga um einfaldaða endurskoðunarmeðferð var lögð var fram á ríkjaráðstefnu sem haldin var árið 2003 í aðdraganda samþykktar stjórnarskrársáttmálans. Í henni stóð að ákvörðun leiðtogaráðsins um breytingu á formkröfum við ákvarðanatöku skyldi hægt að stöðva ef „X“ mörg þjóðþing hreyfðu andmælum (þar sem X átti að standa fyrir einhverja tölu stærri en 1). Síðar sama ár var tillögunni breytt, fyrst og fremst að kröfu Breta, á þann veg að andmæli eins þjóðþings skyldu nægja til að koma í veg fyrir breytingu á formkröfum og tók tillagan ekki frekari breytingum eftir það.

Með ákvörðun leiðtogaráðsins frá 25. mars 2011 (nr. 2011/199/EU), um breytingar á 136. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, var í fyrsta sinn farið af stað með að breyta stofnsáttmálum Evrópusambandsins í samræmi við einfaldaða endurskoðunarmeðferð (6. mgr. 48. gr. SESB). Breytingin felst í því að bæta inn í sáttmálann ákvæði (3. mgr. 136. gr. SSE) sem þjónar sem nauðsynleg lagastoð til stofnunar Stöðugleikakerfis Evrópu (e. European Stability Mechanism, ESM).
Við þetta svar er engin athugasemd Fela