Spurning

Hefðbundin endurskoðunarmeðferð

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Sáttmálum Evrópusambandsins er hægt að breyta eftir tveimur leiðum. Annars vegar í samræmi við hefðbundna endurskoðunarmeðferð og hins vegar með einfaldaðri endurskoðunarmeðferð (48. grein sáttmálans um Evrópusambandið, SESB).

Hefðbundinni endurskoðunarmeðferð má lýsa með eftirfarandi hætti:
  • Ríkisstjórn hvaða aðildarríkis sem er, Evrópuþingið eða framkvæmdastjórnin leggur tillögur að breytingum á sáttmálunum fyrir ráðið.
  • Ráðið leggur tillögurnar fyrir leiðtogaráðið og tilkynnir þær þjóðþingunum.
  • Leiðtogaráðið ákveður með einföldum meirihluta, að höfðu samráði við Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina, að taka breytingartillögurnar til umfjöllunar.
  • Forseti leiðtogaráðsins boðar til fundar með fulltrúum þjóðþinganna, þjóðhöfðingja eða leiðtoga ríkisstjórna aðildarríkjanna, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Einnig er haft samráð við Seðlabanka Evrópu um breytingar er varða stofnanir á sviði peningamála. Á fundinum eru breytingartillögurnar teknar til umfjöllunar og tilmæli til ráðstefnu með fulltrúum ríkisstjórna aðildarríkjanna samþykkt samhljóða.
  • Gefi umfang fyrirhugaðra breytinga ekki tilefni til þess getur leiðtogaráðið, með einföldum meirihluta og að fengnu samþykki Evrópuþingsins, ákveðið að boða ekki til ofannefnds samráðsfundar. Leiðtogaráðið skilgreinir þá það umboð sem ráðstefna fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkjanna hefur.
  • Forseti ráðsins boðar til ráðstefnu fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkjanna, svonefndrar ríkjaráðstefnu, þar sem ákveðið er með samhljóða samkomulagi þær breytingar sem gerðar skulu á sáttmálunum.
  • Breytingarnar öðlast ekki gildi fyrr en öll aðildarríkin hafa fullgilt þær í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar.
  • Ef fjórir fimmtu hlutar aðildarríkjanna hafa fullgilt sáttmála, sem breytir sáttmálunum, þegar tvö ár eru liðin frá undirritun hans, en eitt eða fleiri aðildarríki hafa átt í erfiðleikum með að ganga frá fullgildingu, skal vísa málinu til leiðtogaráðsins.

Allar meginbreytingar sem gerðar hafa verið á stofnsáttmálum Evrópusambandsins til þessa hafa verið gerðar í samræmi við hefðbundna endurskoðunarmeðferð. Eftir því sem aðildarríkjum sambandsins hefur fjölgað hefur ferlið hins vegar orðið erfiðara í framkvæmd.

Síðustu breytingar á sáttmálum sambandsins tóku gildi með Lissabon-sáttmálanum í desember 2009. Þá voru átta ár liðin frá því hafist var handa við að undirbúa breytingarnar. Í millitíðinni höfðu aðildarríkin undirritað sáttmála um stjórnarskrá fyrir Evrópu, árið 2004, sem var hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi og í kjölfarið dreginn til baka. Árið 2007 ákváðu aðildarríkin að ráðast á ný í endurskoðun sáttmála sambandsins, á grundvelli stjórnarskrárdraganna, sem lauk með undirritun Lissabon-sáttmálans í lok árs 2007. Tveimur árum síðar hafði sáttmálinn hlotið fullgildingu í öllum aðildarríkjunum en Írar samþykktu hann ekki fyrr en í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að hafa samið um sérstaka bókun um hagsmuni Írlands.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.9.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Hefðbundin endurskoðunarmeðferð“. Evrópuvefurinn 28.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63344. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela