Spurning

Seðlabanki Evrópu

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Seðlabanki Evrópu (e. European Central Bank, ECB) hóf formlega störf 1. janúar 1999 þegar þriðja stigi Efnahags- og myntbandalagsins (e. Economic and Monetary Union, EMU) var hrundið í framkvæmd og gengi gjaldmiðla tilvonandi evruríkja var endanlega fest.

Helsta hlutverk Seðlabanka Evrópu er að fara með stjórn sameiginlegrar peningamálastefnu evruríkjanna. Bankinn hefur aðsetur í Frankfurt í Þýskalandi og í honum starfa rúmlega 1500 manns frá öllum aðildarríkjum ESB. Núverandi forseti Seðlabanka Evrópu er Ítalinn Mario Draghi, sem tók við af Frakkanum Jean Claude Trichet í nóvember 2011.

Seðlabanki Evrópu er þungamiðja seðlabankakerfis Evrópu (e. European System of Central Banks, ESCB) sem er samstarf seðlabanka allra aðildarríkja ESB og Seðlabanka Evrópu. Meginmarkmið seðlabankakerfis Evrópu er að viðhalda stöðugu verðlagi innan Evrópusambandsins, en það þýðir að reynt er að koma í veg fyrir verðbólgu.

Til að halda verðbólgu í skefjum (eða innan við 2%) fylgist Seðlabanki Evrópu náið með efnahagsþróun í aðildarríkjunum og reynir að hafa áhrif á stöðu hagkerfisins innan sambandsins. Þrjár einingar innan bankans fylgjast með efnahagsþróuninni og taka ákvarðanir sem varða sameiginlega peningamálastefnu evruríkjanna:

Sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) og stofnsamþykkt seðlabankakerfis Evrópu og Seðlabanka Evrópu (Bókun 4 við SSE) kveða skýrt á um mikilvægi þess að sjálfstæði seðlabanka sé tryggt. Sjálfstæði Seðlabanka Evrópu og seðlabanka evruríkjanna á að auðvelda það að stöðugu verðlagi sé fylgt. Í 130. gr. Lissabon-sáttmálans er mælt fyrir um að fulltrúar Seðlabanka Evrópu og seðlabanka evruríkjanna leiti ekki eftir eða taki við „fyrirmælum frá stofnunum, aðilum, skrifstofum eða sérstofnunum sambandsins, stjórnvöldum aðildarríkis eða öðrum aðila.“

Seðlabankastjórar aðildarríkjanna eru skipaðir til fimm ára, í það minnsta, og forseti Seðlabanka Evrópu til átta ára í senn. Hugmyndin á bak við langan skipunartíma seðlabankastjóranna er sú að koma í veg fyrir að þeir tengist ríkisstjórnum með einhverjum hætti.

Heimildir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela