Spurning

Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?

Spyrjandi

Jóhannes Friðrik Tómason, Birgir Steinn Steinþórsson

Svar

Finnland er eina Norðurlandið sem hefur evru sem gjaldmiðil. Danmörk er undanþegin ákvæði Maastricht-sáttmálans um upptöku evru, þar sem ríkið samdi sérstaklega um það fyrir gildistöku hans. Svíþjóð hefur í raun tekið einhliða ákvörðun um að standa utan evrusvæðisins. Ísland og Noregur, sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu, hafa sína eigin gjaldmiðla, íslensku og norsku krónuna.

***


Fánar Norðurlandanna.
Finnland var eitt þeirra ellefu aðildarríkja ESB sem voru reiðubúin til að taka þátt í þriðja áfanga Efnahags- og myntbandalagsins (e. Economic and Monetary Union, EMU) í maí 1998. Samkvæmt honum skuldbundu þátttökuríkin sig til að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, evru, og fólu um leið Seðlabanka Evrópu stjórn sameiginlegrar peningamálastefnu. Dreifing evruseðla og -myntar í Finnlandi hófst 1. janúar 2002 en fresturinn til að skipta út finnskum mörkum fyrir evrur rann út 29. febrúar 2012. Evra er einnig notuð á Álandseyjum sem eru sjálfstjórnarsvæði innan Finnlands.

Hvorki DanmörkSvíþjóð taka þátt í lokaáfanga Efnahags- og myntbandalags Evrópu. Danska krónan er látin fylgja evrunni, á grundvelli tvíhliða samkomulags milli Seðlabanka Danmerkur og Seðlabanka Evrópu, en sænska krónan er sjálfstæður gjaldmiðill í höndum Seðlabanka Svíþjóðar. Ríkin halda enn í eigin gjaldmiðla en þó er hægt að greiða þar fyrir vörur og þjónustu með evrum ef söluaðilar samþykkja greiðslur í þeirri mynt.

Stjórnvöld í Danmörku hafa almennt verið hlynnt upptöku evru en danskur almenningur mótfallinn henni. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið haldnar um upptöku evru, árin 1992 og 2000, og var henni hafnað í þeim báðum. Í kjölfar fyrri atkvæðagreiðslunnar var Danmörku veittur samningsbundinn réttur til að ákveða sjálf (e. opt-out clause) hvort hún tæki upp evru. Eftir síðari atkvæðagreiðsluna fékk Danmörk leyfi frá ESB til að viðhalda tengingu dönsku krónunnar við evru í gegnum seinni útgáfu gengissamstarfs Evrópu (e. Exchange Rate Mechanism, ERM II) sem er ákveðið undirbúningsferli fyrir upptöku evru.

Gengi dönsku krónunnar er haldið föstu gagnvart gengi evru og hefur danski seðlabankinn það að markmiði að danska krónan sveiflist ekki meira en 2,25% frá gengi evru. Peningastefna Danmerkur er því ekki sjálfstæð heldur er fylgt ósamhverfri fastgengisstefnu við evrusvæðið. Danski seðlabankinn stýrir vöxtum í samræmi við Seðlabanka Evrópu og fylgir peningastefnu evrusvæðisins svo gengi dönsku krónunnar gagnvart evru haldist stöðugt .


Danska krónan er bundin við evruna.

Danir eru aðilar að Efnahags- og myntbandalaginu en þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir taki upp evru. Danska ríkið stenst öll Maastricht-skilyrðin, hefur verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM og ERM II) frá upphafi og gæti því tekið upp evru án vandkvæða að því gefnu að það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Færeyjar og Grænland, sjálfstjórnarsvæði innan Konungsríkis Danmerkur, nota einnig dönsku krónuna þar sem sjálfstjórn þeirra nær ekki til málefna eins og gjaldeyrisstefnu.

Svíþjóð samdi ekki um sérstaka undanþágu frá myntbandalaginu eins og Danmörk þegar ríkið gekk í Evrópusambandið í ársbyrjun 1995. Eins og önnur aðildarríki sambandsins eru Svíar því skuldbundnir til að taka upp evru um leið og þeir uppfylla Maastricht-skilyrðin en til þessa hafa þeir ekki óskað eftir þátttöku í ERM II gengissamstarfinu.

Gengisstefna Svíþjóðar byggir á flotgengisstefnu með verðbólgumarkmiði. Sænska krónan er því ekki bundin við evruna. Auk Maastricht-skilyrðanna er þess krafist að tilvonandi evruríki komi á ýmsum skipulagsbreytingum sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka, en Svíþjóð hefur ekki staðist þá kröfu né gert neinar breytingar hvað það varðar. Sú skoðun hefur verið ríkjandi í Svíþjóð, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi, að bíða eigi og sjá hvernig myntbandalaginu reiðir af. Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð árið 2003 þar sem upptöku evru var hafnað.

Sænsk stjórnvöld telja núverandi peningamálastefnu hagstæða fyrir ríkið og engin áform eru uppi um að tengja sænsku krónuna við evruna í nánustu framtíð. Strangt til tekið brýtur Svíþjóð því Maastricht-sáttmálann en ESB hefur ekki beitt neinum refsingum né þrýst sérstaklega á Svía að taka upp evru. Á tveggja ára fresti gerir framkvæmdastjórn ESB hins vegar mat á peningamálastefnu Svíþjóðar og athugar hvort skipulagsbreytingarnar, sem eru forsendur evruupptöku, hafi verið gerðar. Til þess að taka upp evru þyrfti Svíþjóð að uppfylla Maastricht-skilyrðin, tryggja sjálfstæði sænska Seðlabankans og hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu í að minnsta kosti tvö ár. Því er ljóst að lengri tíma tæki fyrir Svíþjóð að taka upp evru en fyrir Danmörku.

Ísland og Noregur, sem standa utan ESB, hafa ekki evru sem gjaldmiðil en aðild að sambandinu er ein forsenda þess að geta tekið þátt í Efnahags- og myntbandalaginu. Gengisstefna Íslands og Noregs hefur byggt á flotgengisstefnu með verðbólgumarkmiði síðasta áratuginn. Í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 og á meðan Ísland fylgdi efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) þurfti Seðlabanki Íslands þó að víkja tímabundið frá verðbólgumarkmiðum sínum og einbeita sér að því að skapa stöðugleika á gengi krónunnar. Eftir að samstarfinu við AGS lauk í ágúst 2011 er peningamálastefna seðlabankans formlega aftur á verðbólgumarkmiði.

Noregur og Ísland fylgjast náið með þróun gengissamstarfsins innan Efnahags- og myntbandalagsins og Noregur leggur jafnframt áherslu á að halda gengi norsku krónunnar sem stöðugustu gagnvart evru. Í 46. grein EES-samningsins er fjallað um samvinnu um stefnu í efnahags- og peningamálum. Fulltrúar aðildarríkja ESB og EFTA/EES-ríkjanna halda því reglulega samráðsfundi þar sem samningsaðilar skiptast á skoðunum um efnahags- og gjaldeyrismál. Fjármálaráðherrar EES-ríkjanna hittast jafnframt einu sinni á ári og fara yfir þróun efnahags- og peningamála. Þessi skipti á skoðunum og upplýsingum fara fram án nokkurra skuldbindinga.

Heimildir:

Upprunalegar spurningar:
Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?

Hvað þýðir að danska krónan sé bundin við evruna?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur17.2.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?“. Evrópuvefurinn 17.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61847. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela