Spurning

Gengissamstarf Evrópu

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Fyrra gengissamstarf Evrópu (e. European Exchange Rate Mechanism, ERM) var stofnað á grundvelli peningakerfis Evrópu (e. European Monetary System, EMS) árið 1979 í þeim tilgangi að auka samvinnu aðildarríkja Evrópubandalagsins í peningamálum. Samvinnunni var komið á fót í tengslum við tillögur um stofnun Efnahags- og myntbandalags (e. Economic and Monetary Union, EMU) en þeirri hugmynd var þó ekki hrint í framkvæmd fyrr en tveimur áratugum síðar.

ERM var ætlað að koma í veg fyrir að verðgildi gjaldmiðla aðildarríkjanna breyttist gagnvart hverjum öðrum nema að litlu leyti. Samstarfið byggði á kerfi sem ákvarðaði vægi evrópsku gjaldmiðlanna á bak við evrópsku gjaldmiðilseininguna eku (ecu), sem var eins konar fyrirrennari evru (€). Öll Evrópubandalagsríkin voru aðilar að gengissamstarfinu. Meginmarkmið þess var að draga úr gengissveiflum innan bandalagsins og samhæfa peningamálastefnur aðildarríkjanna. Kerfið var lagt niður í lok árs 1998 og endurskoðað gengissamstarf tók við af hinu fyrra.

Seinna gengissamstarf Evrópu (e. European Exchange Rate Mechanism, ERM II) hófst með tilkomu evru í upphafi árs 1999 og byggir á sömu meginreglum og fyrra gengissamstarfið. Ríki sem vilja taka upp evru þurfa að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði og er þátttaka í ERM II í að minnsta kosti tvö ár, án gengisfellingar, eitt þeirra. Núverandi aðildarríki að ERM II eru Danmörk, Lettland og Litháen.

Gengissamstarfið (ERM II) á að tryggja gengisstöðugleika evrópskra gjaldmiðla gagnvart evru með ákveðnum vikmörkum (+/- 15%). Þannig skal komið í veg fyrir miklar sveiflur á gengi, sem stuðlar að stöðugleika á gengismörkuðum og eflir innri markað ESB. Þátttökuríkin mega þó ákveða þrengri vikmörk ef samleitni (e. convergence) við evrusvæðið er mikil. Danmörk hefur til að mynda ákvarðað þrengri vikmörk (+/- 2,25%) þar sem ríkið uppfyllir Maastricht-skilyrðin en hefur jafnframt áratuga langa reynslu af fastgengisstefnu. Stefna Danmerkur í peningamálum er því að viðhalda sem stöðugustu gengi dönsku krónunnar gagnvart evru.

Seðlabanki Evrópu hefur eftirlit með ERM II-samstarfinu. Hann aðstoðar við að halda gengi gjaldmiðla þátttökuríkjanna stöðugu innan settra vikmarka og getur veitt skammtímalán til að draga úr gengissveiflum. Seðlabankar þátttökuríkjanna bera þó ábyrgð á stöðugleika gjaldmiðils síns og þurfa að leita í eigin varasjóði áður en leitað er aðstoðar Seðlabanka Evrópu.

Þátttaka aðildarríkja í gengissamstarfinu er valfrjáls og getur hafist hvenær sem er eftir að aðild hefst. Þó er ætlast til þess af aðildarríkjum sem ekki hafa samið um formlega undanþágu að þau taki þátt í gengissamstarfinu á einhverjum tímapunkti. Af þeim níu núverandi aðildarríkjum sem ekki hafa tekið upp evruna og ekki hafa varanlega undanþágu taka aðeins Lettland og Litháen þátt í gengissamstarfinu. Sjö ríki, Búlgaría, Króatía, Pólland, Rúmenía, Svíþjóð, Tékkland og Ungverjaland eru hins vegar ekki aðilar að samstarfinu. Af ríkjunum tveimur með varanlega undanþágu frá upptöku evru tekur Danmörk þátt í gengissamstarfinu en Bretland ekki.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.2.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Gengissamstarf Evrópu “. Evrópuvefurinn 24.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62018. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela