Spurning

Hvað tekur okkur langan tíma að fá evru ef aðild að ESB væri samþykkt?

Spyrjandi

Sigurður Jónsson

Svar

Evran var innleidd í 12 aðildarríkjum ESB á árunum 1999-2002 eftir 10-15 ára undirbúning. Hjá þeim aðildarríkjum sem hafa bæst við síðan hefur aðlögunarferlið styst tekið rúm tvö ár en sum önnur ríki uppfylla enn ekki skilyrðin, sjö árum eftir inngöngu í sambandið. Ísland fullnægir ekki þátttökuskilyrðum Myntbandalagsins eins og er og má gera ráð fyrir að ferlið tæki nokkur ár eftir að viðeigandi efnahagsskilyrðum er fullnægt.

***

ESB hefur lagst gegn því að utangarðsríki taki upp evru. Ísland hefur enga heimild til að gefa út evrur, hvorki prenta seðla né gefa út rafrænar evrur. Ef Ísland notaði gjaldeyrisforða sinn til einhliða upptöku evru hefði landið ekki aðgang að traustum seðlabanka sem gæti komið viðskiptabönkum til hjálpar ef kæmi til lausafjárþurrðar. Innlent bankakerfi væri þannig berskjaldað gegn bankaáhlaupum, sem fela í sér að innistæðueigendur vilja taka út innistæður sínar vegna gruns um að banki sé að komast í þrot. Við slíkar aðstæður þyrftu stjórnvöld að setja reglur um hámarksúttekt af reikningum í íslenskum bönkum.

Eina raunhæfa leiðin til að taka upp evru sem mynt er að ganga fyrst í ESB. Sambandið ætlast til að ný aðildarríki gangi í Efnahags- og myntbandalagið (Economic and Monetary Union, EMU) og taki upp evruna, en þó ekki fyrr en svonefndum Maastricht-skilyrðum er fullnægt:

  1. Verðlag þarf að hafa verið stöðugt. Verðbólga árið fyrir upptöku evru má ekki hafa verið meira en 1,5% hærri en í þeim þremur ríkjum bandalagsins sem lægstu verðbólguna höfðu.
  2. Ríkisfjármálin þurfa að vera í lagi þannig að skuldir ríkissjóðs séu innan við 60% af þjóðartekjum eða nálgist það mark að minnsta kosti. Enn fremur má halli ríkissjóðs (eyðsla umfram tekjur) ekki vera meira en 3% af þjóðartekjum, nema um smávægileg og tímabundin frávik sé að ræða.
  3. Ríkið þarf að hafa tekið þátt í gengissamstarfi Myntbandalagsins (European Exchange Rate Mechanism II, ERM II) síðustu tvö árin fyrir upptöku evru, en í samstarfinu er áskilið að gengissveiflur megi ekki hafa verið meiri en 15% upp eða niður. Enn fremur má ríkisstjórnin ekki hafa fellt gengið af sjálfsdáðum á tímabilinu.
  4. Langtímavextir á lánum mega ekki vera meira en 2% hærri en í þeim þremur ríkjum bandalagsins sem lægstu verðbólguna höfðu.

Gangi Ísland í ESB er því ljóst að við þurfum að koma betra lagi á bæði ríkisfjármálin og íslenska hagkerfið að öðru leyti áður en hægt er að taka upp evru (þetta er skrifað sumarið 2011). Það er undir Íslendingum komið hve langan tíma það tekur. Eftir að íslenska hagkerfið er komið á „réttan kjöl“ og gengið hefur verið í ESB má reikna með að minnsta kosti tveimur árum áður en hægt er að ganga í Myntbandalag Evrópu og taka upp evru.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.7.2011

Tilvísun

Magnús Bjarnason. „Hvað tekur okkur langan tíma að fá evru ef aðild að ESB væri samþykkt?“. Evrópuvefurinn 18.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60156. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Magnús Bjarnasondoktor í stjórnmálahagfræði

Við þetta svar er engin athugasemd Fela