Hvað tekur okkur langan tíma að fá evru ef aðild að ESB væri samþykkt?
Spyrjandi
Sigurður Jónsson
Svar
Evran var innleidd í 12 aðildarríkjum ESB á árunum 1999-2002 eftir 10-15 ára undirbúning. Hjá þeim aðildarríkjum sem hafa bæst við síðan hefur aðlögunarferlið styst tekið rúm tvö ár en sum önnur ríki uppfylla enn ekki skilyrðin, sjö árum eftir inngöngu í sambandið. Ísland fullnægir ekki þátttökuskilyrðum Myntbandalagsins eins og er og má gera ráð fyrir að ferlið tæki nokkur ár eftir að viðeigandi efnahagsskilyrðum er fullnægt.
Eina raunhæfa leiðin til að taka upp evru sem mynt er að ganga fyrst í ESB. Sambandið ætlast til að ný aðildarríki gangi í Efnahags- og myntbandalagið (Economic and Monetary Union, EMU) og taki upp evruna, en þó ekki fyrr en svonefndum Maastricht-skilyrðum er fullnægt:- Verðlag þarf að hafa verið stöðugt. Verðbólga árið fyrir upptöku evru má ekki hafa verið meira en 1,5% hærri en í þeim þremur ríkjum bandalagsins sem lægstu verðbólguna höfðu.
- Ríkisfjármálin þurfa að vera í lagi þannig að skuldir ríkissjóðs séu innan við 60% af þjóðartekjum eða nálgist það mark að minnsta kosti. Enn fremur má halli ríkissjóðs (eyðsla umfram tekjur) ekki vera meira en 3% af þjóðartekjum, nema um smávægileg og tímabundin frávik sé að ræða.
- Ríkið þarf að hafa tekið þátt í gengissamstarfi Myntbandalagsins (European Exchange Rate Mechanism II, ERM II) síðustu tvö árin fyrir upptöku evru, en í samstarfinu er áskilið að gengissveiflur megi ekki hafa verið meiri en 15% upp eða niður. Enn fremur má ríkisstjórnin ekki hafa fellt gengið af sjálfsdáðum á tímabilinu.
- Langtímavextir á lánum mega ekki vera meira en 2% hærri en í þeim þremur ríkjum bandalagsins sem lægstu verðbólguna höfðu.
- de.wikipedia.org - Banknoten. Sótt 18. júlí 2011.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur18.7.2011
Efnisorð
ESB evra Efnahags- og myntbandalagið EMU Maastricht-skilyrði ERM II gjaldeyrisforði Seðlabankinn verðbólga ríkisfjármál gengissamstarf gengissveiflur vextir
Tilvísun
Magnús Bjarnason. „Hvað tekur okkur langan tíma að fá evru ef aðild að ESB væri samþykkt?“. Evrópuvefurinn 18.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60156. (Skoðað 30.10.2025).
Höfundur
Magnús Bjarnasondoktor í stjórnmálahagfræði


