Spurning

Er hægt að sjá gróflega hversu miklar fjárhæðir myndu sparast fyrir íslenskt hagkerfi með upptöku evru?

Spyrjandi

Ómar Ármannsson

Svar

Stutta svarið við spurningunni er JÁ, það er hægt að leggja skynsamlegt og rökstutt mat á ávinninginn af evruaðild Íslands. Óvissa í þess konar svörum er þó veruleg en hitt kemur á móti að unnt er að gera sér grein fyrir helstu rótum hennar. Í grófum dráttum má ætla að tveimur áratugum eftir inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru verði þjóðarframleiðsla, í kaupmætti mæld, nálægt 5% hærri en ef Ísland væri utan Myntbandalagsins.

***

Margar kannanir eru til um áhrif sameiginlegrar myntar. Langflestum ber saman um að til langs tíma litið sé sameiginleg mynt jákvæð fyrir viðskipti. Aukin milliríkjaviðskipti stuðla að því að lönd framleiði sjálf þá vöru og þjónustu sem þau gera best, en flytji inn frá öðrum löndum þá vöru eða þjónustu sem ódýrara er að kaupa en framleiða heima fyrir. Til að sameiginleg mynt leiði til sem fæstra árekstra, er nauðsynlegt að lönd í myntbandalagi eigi í talsverðum viðskiptum og hafi pólitískan vilja til að vinna saman, þau hafi opin og fjölhæf hagkerfi, ekki bundin við eina framleiðslu, og að takmörkuð þörf sé fyrir að nota gengissveiflur í hagstjórn.

Flestir telja að Ísland sé Evrópuríki að því er varðar stjórnarfar, menningu og viðskiptalíf. Nærri því 3/4 utanríkisviðskipta Íslands eru við Evrópska efnahagssvæðið, þar af um helmingur við núverandi evrusvæði. Ef krónunni er skipt út á annað borð er því varla skynsamlegt fyrir Ísland að taka upp aðra gjaldmiðla en evru. Hins vegar eru ekki allir hagfræðingar sammála um hversu miklu máli sameiginleg mynt skipti.

Í fyrstu eru nokkrir ókostir við að skipta um mynt:

  1. Prenta þarf nýja seðla.
  2. Verðmerkja þarf vörur upp á nýtt.
  3. Fólk þarf að venjast nýja verðinu og átta sig á að 10 evrur er meira fé en 1000 krónur.
  4. Sumir sölumenn laumast til að hækka verð um leið og það færist úr krónum í evrur.
  5. Ekki er lengur hægt að breyta gengi eigin gjaldmiðils til að laga kostnaðarstig að breyttum aðstæðum. Fræðimenn greinir að vísu á um skilvirkni gengisbreytinga til að leiðrétta kostnaðarstig, og alltént eru ekki allar hreyfingar á gengi til góðs - það sem kemur útflutningsatvinnuvegum vel felur til dæmis í sér kostnað fyrir innflytjendur og neytendur.

Langtímakostir sameiginlegrar myntar eru hins vegar þessir:

  1. Íslenska ríkið getur ekki lengur prentað peninga án samráðs við hin evrulöndin. Peningaprentun, umfram framleiðni í þjóðfélaginu, skapar ekki verðmæti heldur veldur hún verðbólgu og lækkandi gengi. Peningaprentun eigin gjaldmiðils var og er auðveld leið fyrir óprúttnar ríkisstjórnir til að greiða skuldir í eigin mynt.
  2. Gengisáhætta inn- og útflytjenda er úr sögunni í viðskiptum við evrusvæðið.
  3. Þóknanir og gengiskostnaður bankanna hverfur í viðskiptum við evrulöndin.
  4. Auðvelt er fyrir fólk að bera saman verð milli landa, sem hvetur innflytjendur til að hafa sama verð og í öðrum evrulöndum (athugið að innan ESB er frjálst flæði vöru og engir tollar, þannig að ESB-neytendur geta pantað vörur í pósti innan ESB án nokkurra formsatriða).
  5. Milliríkjaviðskipti aukast til langs tíma litið, og það er líklega langtum viðamesti kosturinn.

Leiða má líkur að því að tveimur áratugum eftir upptöku evru hafi aukin milliríkjaviðskipti leitt til þess að þjóðarframleiðsla Íslands verði, í kaupmætti mæld, nálægt 5% hærri en hún væri ef Ísland tæki ekki þátt í myntbandalagi ESB (sjá Magnús Bjarnason, 2010). Nokkur munur er á milli kannana, eða með öðrum orðum óvissa, talan gæti verið 4% (sjá Breedon og Petursson, 2004), en gæti líka allt eins verið 6-8% (sjá Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson, 2008).

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.7.2011

Tilvísun

Magnús Bjarnason. „Er hægt að sjá gróflega hversu miklar fjárhæðir myndu sparast fyrir íslenskt hagkerfi með upptöku evru?“. Evrópuvefurinn 18.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60188. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundur

Magnús Bjarnasondoktor í stjórnmálahagfræði

Við þetta svar er engin athugasemd Fela