Spurning

Er hægt að nota allar evrur í öllum ríkjum Evrópusambandsins? Líka smápeningana?

Spyrjandi

Guðný Kemp

Svar

Í þeim löndum sem tekið hafa upp evruna (€) eru allir evrupeningar gjaldgengir, bæði seðlar og mynt. Myntirnar eru mismunandi eftir því í hvaða landi þeim er dreift í upphafi, en þær gilda engu að síður í öllum evrulöndum.

***

Evruseðlarnir eru allir eins og eru til seðlar með verðgildi frá 5 evrum upp í 500 evrur. Austuríkismaðurinn Robert Kalina teiknaði þá alla.

Myntirnar eru hins vegar mismunandi, eftir því í hvaða landi þeim er dreift upprunalega. Önnur hliðin er þó eins á myntum sömu upphæðar í öllum löndunum en hin hliðin er breytileg og teiknuð af listamönnum í útgáfulandinu. Evrumyntir eru slegnar með verðgildi frá einu evrusenti (0,01 €) til tveggja evra.

Efst má sjá þá hlið á 2 evru mynt sem er sameiginleg en fyrir neðan má sjá hina hliðina sem er breytileg. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri.

Þegar þetta er skrifað, í júní 2011, hafa 17 af 27 ríkjum Evrópusambandsins tekið upp evrur en Danir og Svíar halda enn í krónurnar sínar og Bretar í pundin. Löndin sem gefa út evrur eru því Finnland, Írland, Holland, Belgía, Lúxemborg, Frakkland, Þýskaland, Austurríki, Spánn, Portúgal, Ítalía, Grikkland, Slóvenía, Kýpur, Malta, Slóvakía, og Eistland. Auk þess nota ýmis smáríki evrur, svo sem San Marínó, Mónakó, Andorra og Vatíkanið.

Í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi er hægt að greiða fyrir vöru og þjónustu í evrum ef söluaðili er því samþykkur. Danski seðlabankinn lætur einnig gengi dönsku krónunnar fylgja gengi evrunnar náið eftir. Mörg fyrirtæki í þessum löndum, sérstaklega tengd ferðaiðnaði, taka við evrum til að standa sig í samkeppninni um ferðamenn. Verðmerkingar bæði í heimagjaldmiðlum og evru auðvelda einnig verðútreikning fyrir ferðamenn frá evrusvæðinu.

Mynd:

Sótt 29.4.2011 á Wikipedia - Euro.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.6.2003

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Er hægt að nota allar evrur í öllum ríkjum Evrópusambandsins? Líka smápeningana?“. Evrópuvefurinn 24.6.2003. http://evropuvefur.is/svar.php?id=3524. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Gylfi Magnússonprófessor í hagfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela