Spurning

Er viturlegt að fjárfesta í evrum?

Spyrjandi

Brynjólfur Magnússon, f. 1988

Svar

Spurningu eins og þessari verður að sjálfsögðu ekki svarað með já-i eða nei-i. Svarið fer meðal annars eftir markmiðum fjárfestisins, aðstæðum hans og kunnáttu. Þegar fjárfestingin er veruleg er fólki eindregið ráðlagt að fylgjast vel með gangi mála kringum þann miðil sem valinn er.

***

Sá sem ætlar að leggja fé til hliðar stendur oftast frammi fyrir mörgum kostum. Hægt er að leggja inn á ýmsa reikninga í bönkum og kaupa hlutabréf og skuldabréf svo að helstu kostir séu nefndir. Þá er hægt að velja milli innlendra eigna og erlendra. Hvaða kostur telst bestur fer eftir ýmsu. Ekki er hægt að gefa neitt einhlítt svar við spurningu um það hvort ein tiltekin eign telst góður kostur eða ekki; það fer meðal annars eftir aðstæðum hjá þeim sem hyggst kaupa. Meðal annars skiptir máli hvort hann hyggst binda féð lengur eða skemur, hve fús hann er til að taka áhættu og til hvers hann hyggst nota féð þegar þar að kemur.

Að fjárfesta í evrum hefur sína kosti og galla.

Eignir í evrum, hvort heldur bankainnstæður, skuldabréf eða hlutabréf eða aðrar eignir, kunna að vera skynsamlegur kostur fyrir suma en ekki aðra. Sá sem ætlar að nota féð síðar meir til að kaupa eign sem sveiflast í verði með evrunni, til dæmis fasteign í einu landanna sem nota evruna, gæti talið það góðan kost að kaupa skuldabréf í evrum á meðan hann safnar fyrir fasteigninni. Þetta gæti átt við um Íslending sem hyggst eyða elliárunum á Spáni. Ef hann ætlaði að eyða elliárunum á Flórída væri sennilega betra að kaupa Bandaríkjadali. Sá sem ætlar að nota féð síðar til að kaupa íslenska eign tekur hins vegar nokkra áhættu ef hann kaupir skuldabréf í evrum. Ef evran lækkar í verði gagnvart krónunni tapar hann en hagnast ef evran hækkar.

Sá sem telur að evran muni styrkjast í framtíðinni, það er að gengi hennar muni hækka gagnvart öðrum gjaldmiðlum eins og krónunni, gæti talið að góð kaup væru í evrum. Slík kaup eru stundum kölluð spákaupmennska. Þá er átt við að keypt er eign vegna þess að kaupandinn spáir því að verð hennar muni hækka meira en aðrir kostir á einhverju tilteknu tímabili. Afar erfitt er að hagnast á slíkum viðskiptum, meðal annars vegna þess að ef vel á að vera þarf sá sem í þeim stendur að geta spáð betur um framtíðina en aðrir sem eiga viðskipti á sama markaði. Einnig þurfa menn að vaka stöðugt yfir markaðnum ef þeir ætla að hagnast á slíkum viðskiptum.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.3.2001

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Er viturlegt að fjárfesta í evrum?“. Evrópuvefurinn 21.3.2001. http://evropuvefur.is/svar.php?id=1395. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Gylfi Magnússonprófessor í hagfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela