Spurning
Evrópuþingið
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Evrópuþingið (e. European Parliament, EP) fer með löggjafarvald í Evrópusambandinu ásamt ráðinu. Vægi þingsins í ákvarðanatöku hefur aukist stig af stigi, nú síðast með Lissabon-sáttmálanum. Samþykki þingsins þarf fyrir fjárlögum Evrópusambandsins og hefur Evrópuþingið nýtt sér völd sín á þessu sviði til að hafa áhrif á þá málaflokka sem hafa útgjöld í för með sér. Þingið gegnir einnig eftirlitshlutverki gagnvart öðrum stofnunum sambandsins og sinnir samskiptum við þjóðþing aðildarríkjanna. Þá hefur Evrópuþingið látið til sín taka á vettvangi mannréttinda og lýðræðisumbóta. Núverandi forseti þingsins er Martin Schulz en hann tók við embætti í byrjun janúar 2012. Þingið hefur aðsetur í Brussel en aðalfundir þess eru haldnir einu sinni í mánuði í Strassborg í Frakklandi. Þingmenn Evrópuþingsins eru kosnir í beinni kosningu í aðildarríkjunum til fimm ára í senn. Fyrstu beinu þingkosningarnar fóru fram árið 1979 en fram að því tóku fulltrúar af þjóðþingum aðildarríkjanna sæti á Evrópuþinginu. Dregið hefur jafnt og þétt úr þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins síðan þær hófust eins og lesa má um í svari við spurningunni Hver hefur þróun kjörsóknar í kosningum til Evrópuþings verið frá upphafi? Á Evrópuþinginu sitja nú alls 765 þingmenn frá 28 aðildarríkjum sambandsins. Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis veltur á íbúafjölda þess en þó ekki í beinu hlutfall við hann. Þannig hefur Þýskaland flest þingsæti á þinginu en miðað við höfðatölu hefur Malta flesta þingmenn. Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi þingmanna verði 751 þingmenn og að ekkert ríki hafi fleiri en 96 eða færri en 6 þingmenn. Þessar breytingar eiga að taka gildi fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils (2009 til 2014). Þingmenn Evrópuþingsins skiptast í fylkingar eftir stjórnmálastefnum en ekki ríkjum eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hversu margir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins? Aðkoma Evrópuþingsins að setningu Evrópulaga er ýmist í samræmi við svokallaða almenna lagasetningarmeðferð eða sérstaka lagasetningarmeðferð eftir því hvaða málaflokkar eru til umræðu. Núorðið eru flestar gerðir settar með almennri lagasetningarmeðferð en samkvæmt henni hefur Evrópuþingið jöfn tækifæri á við ráð ESB til að móta nýja löggjöf og getur hafnað tillögum þess. Framkvæmdastjórnin hefur í þeim tilvikum frumkvæðisrétt að nýrri lagasetningu sem felur í sér að hún ber ábyrgð á að móta og leggja tillögur að nýjum lögum fyrir Evrópuþingið og ráðið.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 2.3.2012
Flokkun:
Efnisorð
Evrópuþingið ráðið forseti Evrópuþingsins löggjafarvald Evrópuþingmenn framkvæmdastjórnin almenn lagasetningarmeðferð sérstök lagasetningarmeðferð frumkvæðisréttur
Tilvísun
Evrópuvefur. „Evrópuþingið“. Evrópuvefurinn 2.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60048. (Skoðað 6.10.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela