Spurning

Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkja innan Evrópuþings og framkvæmdastjórnar?

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingvarsson, Halldór Carlsson

Svar

Með Lissabon-sáttmálanum eykst vægi Evrópuþingsins í ákvarðanatöku Evrópusambandsins með því að ráðið (Council of the European Union, áður kallað ráðherraráð) og Evrópuþingið taka sameiginlega ákvarðanir á enn fleiri sviðum en áður. Þá felur sáttmálinn einnig í sér breytingar á fjölda og hlutföllum þingmanna á Evrópuþinginu. Gert er ráð fyrir að hámarksfjöldi þingmanna skuli framvegis vera 750 til viðbótar við forseta Evrópuþingsins, en fjöldi þingmanna er nú 736. Hámarksfjöldi þingmanna fyrir hvert ríki skal vera 96 og lágmark sex.

Þessar breytingar hafa það í för með sér að þingmenn frá Þýskalandi verða þremur færri en nú, þingmenn frá Frakklandi tveimur fleiri, þingmenn frá Ítalíu og Bretlandi einum fleiri og þingmenn frá Spáni fjórum fleiri. Hvað varðar smærri ríki sambandsins þá verða þingmenn frá Möltu einum fleiri, þingmenn frá Lúxemborg, Kýpur og Eistlandi jafnmargir og í dag, og þingmenn frá Slóveníu og Lettlandi einum fleiri. Aðlögun að þessum breytingum á að ljúka fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils, sem er frá 2009 til 2014.

Af þessu má sjá að breytingar á hlutföllum á Evrópuþinginu milli smáríkja og stærri ríkja með Lissabon-samningnum eru óverulegar. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið fengi það sex þingmenn ef fyrrnefnd breyting verður komin á, annars fimm þingmenn. Talan 6 þingmenn af 750 samsvarar 0,8% en 5 af 740-750 eru 0,7%. Þar sem talan 6 er fyrirhugaður lágmarksfjöldi þingmanna frá hverju landi og talan 750 er hámarksfjöldi þingmanna í heild, getur hlutfall hverrar þjóðar ekki orðið lægra en 0,8% samkvæmt ákvæðum Lissabon-sáttmálans.

Fjöldi Evrópuþingmanna fyrir hvert aðildarríki ESB, fyrir og eftir breytingu Lissabon-sáttmálans

Austurríki 17 19 Litháen 12 12
Belgía 22 22 Lúxemborg 6 6
Bretland 72 73 Malta 5 6
Búlgaría 17 18 Portúgal 22 22
Danmörk 13 13 Pólland 50 51
Eistland 6 6 Rúmenía 33 33
Finnland 13 13 Slóvakía 13 13
Frakkland 72 74 Slóvenía 7 8
Grikkland 22 22 Spánn 50 54
Holland 25 26 Svíþjóð 18 20
Írland 12 12 Tékkland 22 22
Ítalía 72 73 Ungverjaland 22 22
Kýpur 6 6 Þýskaland 99 96
Lettland 8 9

Atkvæðavægi aðildarríkja innan bæði Evrópuþingsins og ráðherraráðsins hefur frá upphafi byggst að einhverju leyti á íbúafjölda hvers ríkis. Innan framkvæmdastjórnarinnar hafa aðildarríki hins vegar frá árinu 2004 öll haft jafnmarga fulltrúa (framkvæmdastjóra), einn á hvert aðildarríki. Lissabon-sáttmálinn gerði ráð fyrir breytingum á því fyrirkomulagi frá 1. nóvember 2014. Þar segir að fjöldi framkvæmdastjóra, að meðtöldum forseta framkvæmdastjórnarinnar og æðsta talsmanni stefnu Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum, skulii samsvara tveimur þriðju hlutum af fjölda aðildarríkjanna nema leiðtogaráðið ákveði einróma að breyta þeirri tölu. Framkvæmdastjórar verða þannig valdir samkvæmt skiptikerfi sem komið er á með einróma ákvörðun leiðtogaráðsins á grundvelli eftirfarandi meginreglna:

  1. Algjörs jafnræðis skal gætt milli aðildarríkjanna um það í hvaða röð og hve lengi ríkisborgarar þeirra sitja sem framkvæmdastjórar; munurinn á heildarfjölda skipunartímabila ríkisborgara hvaða tveggja aðildarríkja sem er má því aldrei vera meiri en einn.
  2. Með fyrirvara um a-lið skal hver ný framkvæmdastjórn skipuð með þeim hætti að hún endurspegli með fullnægjandi hætti lýðfræðilega og landfræðilega stöðu allra aðildarríkjanna.

Í kjölfar þess að Írar felldu Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2008 lýsti leiðtogaráðið því yfir að ákveðið yrði, samkvæmt fyrrnefndu undanþáguákvæði, að áfram yrði einn fulltrúi frá hverju aðildarríki í framkvæmdastjórninni ef tækist að staðfesta sáttmálann í öllum löndum sambandsins fyrir lok ársins 2009. Þar með var komið til móts við eina helstu kröfu Íra og ljóst að ekkert verður úr áformunum um að minnka framkvæmdastjórnina á næstunni. Verði Íslendingar aðilar að Evrópusambandinu mega þeir því reikna með að eiga einn fulltrúa í framkvæmdastjórninni, til jafns við hin aðildarríkin. Hér er einnig vert að hafa í huga að framkvæmdastjórum er ætlað að horfa á málin frá sjónarmiði sambandsins sem heildar, en ekki út frá sínu heimaríki.

Hvað varðar breytingar á fjölda fulltrúa í ráðinu í kjölfar Lissabon-sáttmálans sjá svar við spurningunni Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?

Í upphaflegum texta svarsins var á einum stað orðalag sem mátti misskilja. Lesendum eru þakkaðar ábendingar um þetta, en það var leiðrétt 11.07.11.

Heimildir og mynd:

(Upphaflegar spurningar: Ef Ísland gengi í ESB í dag, hversu marga þingmenn fengi það á þing ESB og hversu margir væru þeir hlutfallslega miðað við fjölda þingmanna á þinginu? Í öðru lagi, miðað við Lissabon sáttmálann, hvernig liti þetta sama hlutfall og fulltrúafjöldi út árið 2015? 2) Hversu mikil áhrif, þ.e. fulltrúa fengjum við í framkvæmdastjórn ESB og hvernig liti það út hlutfallslega miðað við fjölda fulltrúa þar eins og þetta er í dag og svo í öðru lagi hvernig liti þetta út árið 2015? 3) Yrði breyting í öðrum stofnunum ESB um fulltrúafjölda eða áhrif okkar frá í dag og til 2015? og -- Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ESB á næstu árum?)

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 5.7.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkja innan Evrópuþings og framkvæmdastjórnar?“. Evrópuvefurinn 5.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60200. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Gunnlaugur Ingvarsson 8.7.2011

Takk fyrir svarið.

Þið alla vegana reynduð, "so far so good".

En því miður þá finnst mér svarið vera hálfþunnt í roðinu og ófullnægjandi og svona mjög embættislega og skrifræðislega staðlað eins og ég reyndar því miður bjóst við!

Takk samt, við meiru var ekki að búast!