Er það rétt að Evrópusambandið banni börnum að leika sér með segulstál, leikfangavaraliti, partýflautur og blöðrur?
Spyrjandi
Elfar Óskarsson
Svar
Svarið við þessari spurningu er nei. Evrópusambandið hefur ekki sett neinar reglur sem banna börnum að leika sér með leikföng. Sambandið hefur hins vegar samræmt reglur aðildarríkjanna um öryggiskröfur sem leikföng í verslunum verða að uppfylla. Þessar reglur gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, þar með einnig á Íslandi. Reglurnar beinast að framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum leikfanga. Þessir aðilar eru ábyrgir fyrir því að vörur uppfylli samræmda evrópska öryggisstaðla og stofni hvorki öryggi né heilsu notenda eða annarra í voða. Settur hefur verið öryggisstaðall um hámarksstyrk segulstáls í leikföngum og blöðrur úr latexi þurfa að bera sérstaka aðvörun. Um leikfangavaraliti og partýflautur gilda hins vegar aðeins almennar reglur tilskipunarinnar.Í tilskipuninni um öryggi leikfanga koma orðin segulstál, blaðra og partýflauta ekki fyrir. Orðið varalitur kemur einu sinni fyrir í tengslum við skilgreiningu á snyrtivörusetti (e. cosmetic kit). Í leiðbeiningaskjali um beitingu tilskipunarinnar (Guidance document on the application of directive 2009/48/EC on the safety of toys) koma fram útskýringar á einstökum ákvæðum og ýmsar frekari upplýsingar sem hjálpa til við að svara þeim spurningum sem hér er rætt um. Segulstál eru nefnd í leiðbeiningaskjalinu sem dæmi um hættu af leikföngum, sem fellur ekki undir sértæk öryggisákvæði tilskipunarinnar, og reynt hefur verið að afstýra á grundvelli almenna öryggisákvæðisins (2. málsgrein 10. greinar).
Í kjölfar fjölda tilkynninga um alvarleg slys á börnum sem höfðu gleypt segulstál úr leikföngum, þar á meðal eitt dauðsfall, fól framkvæmdastjórn ESB Staðlasamtökum Evrópu (European Committee for Standardisation, CEN), árið 2007, að setja öryggisstaðal um segulstál í leikföngum. Nokkur ár á undan hafði notkun mjög sterkra segla í leikföngum aukist, enda voru þeir orðnir ódýrir í framleiðslu. Staðlasamtökin komust að þeirri niðurstöðu að rétt væri að skilgreina leyfilegt hámark á styrk lítilla segulstála. Ef börn gleypa fleiri en eitt segulstál, eða segulstál og járn, geta hlutirnir dregist saman í meltingarveginum, jafnvel þvert yfir þarmaveggi, og valdið stíflu. Í mörgum tilvikum sem tilkynnt voru þurfti uppskurð til að fjarlægja aðskotahlutina. Í tilskipuninni um öryggi leikfanga er ekkert að finna sem styður þá hugmynd að leikfangavaralitir hafi verið bannaðir. Ein mikilvægasta breytingin með nýju tilskipuninni er hins vegar sú að reglur um notkun hættulegra efna og efnablandna í leikföngum eru hertar. Þannig er innleitt almennt bann við notkun svokallaðra CMR-efna, það eru efni sem eru krabbameinsvaldandi, geta valdið stökkbreytingum og hafa eituráhrif á æxlun. Einnig eru sett mörk á magn ýmissa annarra efna sem geta verið skaðleg (viðhengi II, III). Þar að auki er lagt bann við notkun fjölmargra ofnæmisvaldandi ilmefna í leikföngum (viðhengi II, III., 11.). Svo lengi sem leikfangavaralitir uppfylla þessi og önnur skilyrði tilskipunarinnar um öryggi leikfanga má markaðssetja þá á Evrópska efnahagssvæðinu. Í leiðbeiningaskjali tilskipunarinnar um öryggi leikfanga kemur fram að blöðrum úr latexi skuli fylgja aðvörun um að börn yngri en 8 ára skuli vera undir eftirliti við notkun þeirra og að henda skuli sprungnum blöðrum. Blöðrur úr sterkari efnum en latexi þurfa ekki að bera aðvörun. Umrædd aðvörunarskylda var innleidd sem öryggistaðall þegar árið 1988 og byggir því á ákvæðum eldri tilskipunarinnar um að leikföng megi ekki valda hættu á köfnun og að þeim verði að fylgja viðeigandi, skýr og auðlæsileg varnaðarorð til að draga úr hættum sem felast í notkun þeirra. Sömu ákvæði er einnig að finna í nýju tilskipuninni (11. grein og viðhengi II, I., 4.b)). Sömu hugsun um köfnunarhættu er að vinna í viðvörunum sem margir kannast við á plastpokum og ýmsum öðrum umbúðum. Gera má ráð fyrir að partýflautur falli undir ákvæði tilskipunarinnar sem kveður á um að leikföng sem sett eru í munninn skuli vera nægilega stór til að þau geti ekki farið í meltingar- eða öndunarveg (viðhengi II, I., 4.d)). Í leiðbeiningum með tilskipuninni eru leikfangahljóðfæri nefnd sem dæmi um slík leikföng og því rökrétt að ætla að það sama gildi um partýflautur. Til að setja megi þess háttar leikföng á markað í EES mega þau, eða hlutar þeirra, ekki komast gegnum svokallaðan kokhólk sem notaður er til að mæla stærð smáhluta sem geta valdið köfnun. Samandregið má því segja að:
- Segulstál mega vera í leikföngum á evrópskum markaði ef þau eru ekki svo sterk og smá að þau geti valdið hættu við gleypingu.
- Leikfangavaralitir eru leyfðir á markaði ef þeir fullnægja almennum skilyrðum um efnasamsetningu.
- Börnum í ESB er leyfilegt að blása í blöðrur. Framleiðendur skulu þó vara við því að börn undir 8 ára noti latex-blöðrur eftirlitslaus, vegna köfnunarhættu.
- Partýflautur mega vera á markaði í Evrópu ef þær eru nógu stórar til að þær geti ekki farið í meltingar- eða öndunarveg.
- Guidance document on the application of directive 2009/48/EC on the safety of toys.
- Fyrsta mynd sótt á is.wikipedia.org - blaðra, 20.10.2011.
- Önnur mynd sótt á heimasíðu US Consumer Product Safety Commission, 20.10.2011.
- Þriðja mynd sótt á uptrax.com, 20.10.2011.
Verða engin segulstál í barnaleikföngum ef við göngum í Evrópusambandið? Verður leikfangavaralitur bannaður og fá krakkar yngri en 14 ára virkilega ekki að nota partýflautur? Er rétt að ESB banni börnum undir átta ára aldri að blása upp blöðrur án eftirlits?
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.10.2011
Flokkun:
Efnisorð
ESB leikföng öryggi segulstál leikfangavaralitur partýflautur blöðrur samræmdir evrópskir öryggisstaðlar Staðlasamtök Evrópu (CEN) CMR-efni ilmefni latex
Tilvísun
Þórhildur Hagalín. „Er það rétt að Evrópusambandið banni börnum að leika sér með segulstál, leikfangavaraliti, partýflautur og blöðrur?“. Evrópuvefurinn 25.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60892. (Skoðað 9.9.2024).
Höfundur
Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Af hverju setur Evrópusambandið sérstakar reglur um öryggi leikfanga?
- Mætti ekki lengur bjóða upp á sértilboð fyrir Íslendinga í Bláa lónið ef Ísland gengi í ESB?
- Hvers vegna er Cheerios bannað í sumum löndum?
- Er rétt að vegna ESB-reglna megi ég aðeins fara með tvö börn á aldrinum 5 til 7 ára í sund?