Spurning

Er rétt að vegna ESB-reglna megi ég aðeins fara með tvö börn á aldrinum 5 til 7 ára í sund?

Spyrjandi

Sigrún Guðna Gunnlaugsdóttir

Svar

Stutta svarið er nei: Þetta er ekki rétt. – Evrópusambandið hefur hvorki sett lög né reglur um hversu mörg börn mega vera í fylgd eins fullorðins einstaklings í sundferð. Setning slíkra reglna er alfarið á ábyrgð aðildarríkjanna. Í nýrri íslenskri reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum segir hins vegar að börnum yngri en 10 ára sé óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Ennfremur segir að viðkomandi sé ekki leyfilegt að hafa fleiri en tvö börn með sér, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna. Í eldri reglugerð var miðað við 8 ára börn. Nýja reglugerðin tók gildi í upphafi árs 2011.

***

Í íslensku reglugerðinni eru ýmis ný og breytt ákvæði sem eiga að stuðla að öryggi barna í sundlaugum. Fyrir tilkomu hennar voru í gildi reglur sem bönnuðu börnum undir 8 ára aldri aðgang að sundstað nema í fylgd með syndum einstaklingi 14 ára eða eldri og mátti viðkomandi ekki hafa fleiri en tvö börn með sér nema um foreldri eða forráðamann væri að ræða. Auk þess sem þessi regla er hert með því að hækka aldurstakmörk er í nýju reglugerðinni ákvæði um að þegar hópar barna yngri en 10 ára fari í sund megi ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers leiðbeinanda, sem sé ábyrgur fyrir hópnum, og gæslumanna lauga. Forráðamenn hópa skulu þá kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk við gæslu barnanna. Til að auðvelda leiðbeinanda eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt, sem hóparnir útvega sjálfir. Þá skal tryggja að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði og hafi eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugar og sinni ekki öðru starfi samhliða.Samkvæmt nýrri íslenskri reglugerð er fullorðnum einstaklingi ekki leyfilegt að hafa fleiri en tvö börn með sér í sund, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann viðkomandi barna.

Þó að þessar reglur eigi ekki uppruna sinn á meginlandi Evrópu sinna bæði aðildarríki ESB og frjáls félagasamtök innan þeirra öryggi barna með ýmsum hætti. Auk þess ber að nefna Evrópusamtökin um öryggi barna (European Child Safety Alliance) sem eru vettvangur samstarfs rúmlega 30 Evrópuríkja um öryggi barna. Lýðheilsustöð hefur tekið þátt í samstarfinu fyrir hönd Íslands en samtökin hafa meðal annars tengsl við fyrirtæki sem prófar leikföng og fleiri vörur, við heilsuvörufyrirtækið Johnson og Johnson, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Hlutverk samtakanna er meðal annars að gefa út fræðsluefni og veita ráðleggingar um öryggi barna hvarvetna, meðal annars á sundstöðum. Eingöngu er þó um ráðleggingar að ræða, löggjöf á þessu sviði er á forræði hvers ríkis og er það skýrt tekið fram í gögnum frá samtökunum.

Árið 2008 gaf stofnunin út bækling með öryggisráðleggingum til þjónustuaðila á sviði vatnaíþrótta (e. Protecting Children and Youths in Water Recreation: Safety Guidelines for Service Providers). Þar er meðal annars fjallað um öryggi við sundlaugar, til að mynda um merkingar um dýpt laugar, dýfingar og notkun kúta. Þá hefur stofnunin einnig gefið út ráðleggingar um hvernig beri að koma í veg fyrir að börn drukkni við iðkun vatnaíþrótta. - Eins og fyrr segir er ekkert að finna í þessum ráðleggingum um aðgang barna að sundlaugum í fylgd með fullorðnum.

Þegar upp koma spurningar af þessu tagi um reglur ESB á tilteknum, afmörkuðum sviðum er gott að hafa í huga þá grundvallarreglu sáttmálans um Evrópusambandið sem nefnist reglan um veittar valdheimildir (e. principle of conferral) (5. grein ESB sáttmálans), sem einnig er oft kölluð lögmætisreglan. Hún felur í sér að Evrópusambandið og stofnanir þess mega ekki grípa til hvaða ráðstafana sem er til að ná markmiðum sínum, heldur þurfa ráðstafanirnar (til dæmis setning tilskipana eða reglugerða) að eiga sér lagastoð í sáttmálum um sambandið.

Til þess að ESB gæti sett reglur um hversu mörg börn fullorðnir megi taka með sér í sund þyrftu aðildarríkin að hafa falið sambandinu valdheimild (e. competence) á því sviði í sáttmálum sambandsins, til dæmis með vísun í börn, öryggi barna, sundlaugar, öryggi á sundstöðum eða annað sem nota mætti sem rökstuðning fyrir setningu slíkra reglna. Þar sem sambandinu hefur ekki verið falin slík heimild er setning reglna um öryggi barna í sundi alfarið á ábyrgð aðildarríkjanna.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:
Ég á 8 barnabörn, öll flugsynd nema tvö undir 2 ára aldri. Mér er sagt að vegna ESB megi ég ekki lengur taka þrjú 5 og 7 ára með mér í sund, aðeins tvö, og skilja svo eitt eftir heima!!! Öll árin höfum við farið saman, þess vegna eru þau flugsynd... right! Er þetta rétt? Er að vona að svar ykkar sé 'rangt', og að ég sé að misskilja þetta. Skríðum ekki um borð á sökkvandi skip með barnabörnin okkar, stoppum aðildarumræður.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.9.2011

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Þórhildur Hagalín. „Er rétt að vegna ESB-reglna megi ég aðeins fara með tvö börn á aldrinum 5 til 7 ára í sund?“. Evrópuvefurinn 23.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60613. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundar

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á EvrópuvefÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela