Spurning

Mætti ekki lengur bjóða upp á sértilboð fyrir Íslendinga í Bláa lónið ef Ísland gengi í ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Það veltur á eignarhaldi íslenskra fyrirtækja eins og Bláa lónsins hvort þau séu bundin af banni EES-samningsins við mismunun á grundvelli ríkisfangs. Niðurstaðan um slíkt bann, af eða á, myndi gilda áfram eftir að Ísland yrði aðili að ESB. - Mismunun á grundvelli ríkisfangs innan ESB eða EES er bönnuð bæði samkvæmt Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland er aðili að nú þegar. Ákvæðin um þetta í samningunum eru bindandi fyrir ríkin sem eiga aðild að þeim svo og sveitarfélög og opinberar stofnanir, en yfirleitt ekki fyrir fyrirtæki í einkaeigu. Tilskipanir ESB um aðgang að vörum og þjónustu (svo sem sundferðum) banna ekki heldur mismunun á grundvelli ríkisfangs af hálfu einkaaðila.

***

Strangt tiltekið gilda engin sérstök verð í Bláa lónið aðeins fyrir Íslendinga. Í reynd er það þannig að allir sem hafa kennitölu, það er allir sem hafa íslenskt ríkisfang eða eru eða hafa verið búsettir á Íslandi, geta skráð sig í Vinaklúbb Bláa lónsins og býðst þá vetrarkort á tilboðsverði. Tilboðsverðið er það sama og stök ferð í Bláa lónið kostar en vetrarkortið gildir fyrir ótakmarkaðan fjölda heimsókna eins fullorðins og tveggja barna frá september fram í maí.


Það veltur á eignarhaldi Bláa lónsins hvort fyrirtækið sé bundið af banni EES-samningsins við mismunun á grundvelli ríkisfangs eða ekki. Hugsanleg innganga Íslands í ESB myndi engu breyta þar um.

Í Evrópurétti gilda margvísleg bönn við mismunun á grundvelli ríkisfangs (e. (legal) nationality eða citizenship).1 Svo framarlega sem þessi bönn eiga við lítur dómstóll Evrópusambandsins á það sem svokallaða óbeina mismunun (e. indirect discrimination), og þar með einnig að meginreglu bannað, þegar tiltekinn ávinningur er tengdur innlendu lögheimili.2 Dómstóll Evrópusambandsins gerir strangar kröfur til réttlætingar á mismunun á grundvelli ríkisfangs. Sýna þarf fram á að krafan um lögheimili eigi sér lögmætar skýringar, sem hafa ekkert með ríkisfangið að gera.3 Rétt er að benda á að ofangreindar reglur um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs gilda nú þegar á Íslandi vegna EES-samningsins.4 Um verðlagningu í Bláa lónið eiga við reglurnar um frelsi ríkisborgara aðildarríkjanna til að veita þjónustu innan EES og ESB (36. gr. EES-samningsins og 56. gr. SSE).

Í EES- og ESB-rétti eru umrædd bönn við mismunun fyrst og fremst bindandi fyrir aðildarríkin sjálf og gilda að meginreglu ekki um einkafyrirtæki. Dómstóll Evrópusambandsins hefur þó í undantekningartilvikum úrskurðað að einkaaðilar séu bundnir af reglunum um þjónustufrelsi og staðfesturétt (það er réttinn til að setjast að í öðru aðildarríki til þess að setja á fót atvinnurekstur). Slík binding á þó eingöngu við um valdamikil einkafélög (e. powerful private associations) sem eru í sérstakri valdastöðu gagnvart einstaklingum, eins og til dæmis verkalýðsfélög5 eða starfsgreinasamtök.6

Bæði í EES- og ESB-rétti hefur verið fallist á að aðildarríki geti ekki skorast undan lögskyldum sínum með því að nýta sér einkaréttarlegt lögform (e. no escape into private law), það er með því að stofna fyrirtæki.7 Þegar kemur að fyrirtækjum í blandaðri opinberri- og einkaeigu flækjast málin. Samkvæmt dómaframkvæmd ræður það úrslitum í slíkum tilfellum hvort ríkið geti raunverulega stýrt framkvæmdastjórn fyrirtækisins og haft úrslitaáhrif á ákvarðanir en ekki endilega hvort hlutur ríkisins sé stærri eða minni en 50%.8

Svarið við því hvort Bláa lónið hf. sé bundið af ákvæðum EES-samningsins um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs við veitingu þjónustu veltur þar af leiðandi á eignarhaldi fyrirtækisins. Ef hlutdeild ríkisins, sveitarfélaga eða ríkisfyrirtækja, í fyrirtækinu er með þeim hætti að íslenska ríkið geti haft raunveruleg áhrif á verðlagningu í Bláa lóninu þá er fyrirtækið bundið af reglunni um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs (36. gr. EES-samningsins og 56. gr. SSE) og því óheimilt að mismuna viðskiptavinum á grundvelli ríkisfangs. Hafi hið opinbera hins vegar ekki eignaréttarleg úrslitaáhrif á framkvæmdastjórn Bláa lónsins, í krafti eignarhlutar síns, er fyrirtækið ekki bundið af ofangreindu ákvæði. Hvað það snertir myndi verðlagningarstefna fyrirtækisins því standast bæði EES- og ESB-rétt.

Í ESB-rétti, og að hluta til einnig í EES-rétti, eru ennfremur fjölmargar tilskipanir sem innihalda sértæk bönn við mismunun sem einnig gilda í einkamálarétti.9 Þar af leiðir að einkafyrirtæki geta verið bundin af tilskipunum sem banna mismunun, óháð raunverulegum möguleikum ríkisins til áhrifa innan fyrirtækisins.

Vegna þeirrar tilteknu þjónustu Bláa lónsins sem hér er fjallað um (aðgangur að sundlaug) þarf þó aðeins að taka tillit til þeirra tilskipana sem gilda um vörur og þjónustu sem almenningi standa til boða. Það eru tilskipun 2000/43 og tilskipun 2004/113. Sú síðarnefnda hefur verið tekin upp í EES-samninginn en frumvörp til innleiðingar beggja tilskipananna í íslensk lög voru á þingmálaskrá 139. löggjafarþings (2010-2011), sem nú er nýlokið, en voru ekki afgreidd. Umræddar tilskipanir banna mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna (e. ethnic origin) og kyns en ekki ríkisfangs.10 Framkvæmdastjórnin hefur raunar lagt fram tillögu að tilskipun á þessu sviði (aðgangur að vörum og þjónustu) til útvíkkunar bannsins við mismunun og verður hún tekin til umfjöllunar í ráðinu í desember 2011. Ekki er þó lagt til bann við mismunun persóna á grundvelli ríkisfangs heldur einungis á grundvelli aldurs, fötlunar, trúarbragða, skoðana eða kynhneigðar, enda þótt 2. mgr. 18. gr. SSE heimili sambandinu að samþykkja reglur um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs.

Af þessu má álykta að svo framarlega sem íslenska ríkið geti ekki haft eignaréttarleg úrslitaáhrif á framkvæmdastjórn Bláa lónsins verði að telja það samræmast EES-rétti að bjóða Íslendingum í Bláa lónið á tilboðsverði. Hugsanleg innganga Íslands í ESB myndi engu breyta þar um.

Mynd:

Mynd sótt á de.wikipedia.org - Bláa lónið, 23.9.11.

1 Sjá 18., 45., 49. og 56. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB (SSE).

2 Mál C-224/97 (Ciola), nr. 13.

3 Mál C-224/97 (Ciola), nr. 16 og C-122/96 (Hiross), nr. 25.

4 Sjá 4., 28., 31. og 36. gr. EES-samningsins.

5 Mál C-341/05 (Lavall), nr. 96.

6 Mál C-51/96, C-191/97 (Deliège), nr. 47.

7 Mál C-249/81 (Buy Irish), nr. 23; C-302/88 (Hennen Olie), nr. 16; C-188/89 (British Gas plc), nr. 20; C-324/98 (Telaustria), nr. 60; C-325/00 (CMA), nr. 17 og C 543/08 (Commission/Portugal), nr. 48.

8 Mál C 91/08 (Wall), nr. 49.

9 Sérstaklega tilskipanir nr. 2000/43, 2000/78, 2002/73 (gildir í EES), 2004/113 (gildir í EES) og 2006/54 (gildir í EES).

10 Sjá 2. gr. tilskipunar 2000/43 og 2. gr. tilskipunar 2004/113.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.9.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Mætti ekki lengur bjóða upp á sértilboð fyrir Íslendinga í Bláa lónið ef Ísland gengi í ESB?“. Evrópuvefurinn 26.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60692. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela