Spurning

Fjórfrelsið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Fjórfrelsið eða hið fjórþætta frelsi (e. the four freedoms) er hugtak sem vísar til frjáls flæðis vöru, fólks, þjónustu og fjármagns og er grundvöllur innri markaðar ESB og Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Fjórfrelsið felur í sér:

  • Frjálsa vöruflutninga, það er frjáls viðskipti með vörur á innri markaðinum. Reglan byggist annars vegar á banni við lagningu tolla og annarra gjalda, sem hafa samsvarandi áhrif, á inn- og útflutning milli aðildarríkjanna (30. gr. sáttmálans um starfshætti ESB (SSE) og 10. gr. EES-samningsins). Hins vegar byggist hún á banni við magntakmörkunum á inn- og útflutning, og öllum ráðstöfunum sem hafa samsvarandi áhrif, milli aðildarríkjanna (34. og 35. gr. SSE og 11. og 12. gr. EES-samningsins). Ríkin sem eiga aðild að innri markaðinum hafa þar að auki samræmt margvíslegar reglur sínar með innleiðingu afleiddra gerða til að auðvelda frjáls vöruviðskipti. Þessar gerðir lúta meðal annars að afnámi tæknilegra viðskiptahindrana, það er samræmingu reglna sem snúa að framleiðslu og sölu vöru (svo sem um innihald, þyngd, verð, umbúðir, merkingar og orkunotkun) og samræmingu staðla til að tryggja að einungis séu settar á markað öruggar vörur.
  • Frjálsa för launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þetta frelsi felur í sér afnám allrar mismununar milli launafólks í aðildarríkjunum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum (45. gr. SSE og 28. gr. EES-samningsins). Rétturinn til frjálsrar farar hefur verið undirbyggður með samræmingu reglna aðildarríkjanna meðal annars um almannatryggingar og lífeyrisréttindi og réttindi fjölskyldna til að flytjast með launþegum og námsmönnum á milli landa (2004/38/EC). Ríkisborgarar aðildarríkja innri markaðarins hafa þannig rétt til að stunda nám eða starfa í öðru EES-ríki með flestum þeim réttindum sem ríkisborgarar viðkomandi ríkis njóta.
  • Þjónustufrelsi. Frelsið byggist á staðfesturéttinum, það er réttinum til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og fyrirtækjarekstur í öðru EES-ríki samkvæmt sömu lögum og reglum og viðkomandi ríki setur eigin ríkisborgurum (49. gr. SSE og 31. gr. EES-samningsins). Af staðfesturéttinum leiðir að ríkisborgurum EES-ríkja er veitt frelsi til að stunda þjónustustarfsemi sína tímabundið í öðru aðildarríki EES, með sömu skilyrðum og ríkisborgarar viðkomandi ríkis. Þeim er einnig frjálst að veita borgurum EES-ríkis þjónustu sína þó þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EES, til að mynda í gegnum umboðsskrifstofur, útibú eða dótturfyrirtæki (56. og 57. gr. SSE og 36. og 37. gr. EES-samningsins).
  • Frjálsa fjármagnsflutninga. Þeir fela í sér að engin höft skulu vera milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EES, né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar fé er notað til fjárfestingar (63. gr. SSE og 40. gr. EES-samningsins).
Við þetta svar er engin athugasemd Fela