Spurning

Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Þorgrímur Sófus Þorgrímsson

Svar

Regluverk Evrópusambandsins sem snýr að réttindum á vinnumarkaði byggist á grundvallarreglunni um frjálsa för launþega og samvinnu aðildarríkjanna í félags- og atvinnumálum. Þær reglur sem gilda um frjálsa för launafólks hafa þegar verið innleiddar í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins. Jafnframt hefur meginþorri tilskipana sambandsins á sviði félags- og atvinnumála verið lögfestur hér á landi. Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi því hafa óverulegar breytingar í för með sér varðandi réttindi launþega á vinnumarkaði.

***

Regluverk Evrópusambandsins um málefni vinnumarkaðarins er viðamikið. Það byggist annars vegar á grundvallarreglunni um frjálsa för launþega milli aðildarríkja (45. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, SSE), sem er hluti af svokölluðu fjórfrelsi, og hins vegar á samvinnu aðildarríkjanna í félags- og atvinnumálum (IX. og X. bálkur SSE). Frjáls för launþega felur í sér afnám allrar mismununar milli launafólks í aðildarríkjunum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Félagsmálastefna sambandsins snýr á hinn bóginn að því að styðja og auka við aðgerðir aðildarríkjanna meðal annars í tengslum við umbætur á vinnuumhverfi til að vernda heilsu og öryggi starfsmanna, vinnuskilyrði, félagslegt öryggi og félagslega vernd launafólks og jafnrétti karla og kvenna með tilliti til tækifæra á vinnumarkaði og meðferðar á vinnustað (153. gr. SSE).


Reglur Evrópusambandsins um réttindi á vinnumarkaði hefur að langmestu leyti verið innleitt á Íslandi nú þegar á grundvelli EES-samningsins.

Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafa reglurnar sem gilda um frjálsa för launafólks þegar verið innleiddar í íslenskan rétt (28. gr. EES-samningsins). Ríkisborgarar ESB- og EFTA/EES-ríkjanna þurfa með öðrum orðum ekki að sækja um dvalar- eða atvinnuleyfi til íslenskra stjórnvalda til að mega starfa hér á landi. Hið sama gildir fyrir Íslendinga sem hyggjast starfa í öðru EES-ríki. Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði þar af leiðandi ekki áhrif á rétt launafólks til frjálsrar farar á EES-svæðinu. Það er til marks um þetta að viðræður um samningskaflann um frjálsa för vinnuafls og almannatryggingar, í aðildarviðræðum Íslands við ESB, voru opnaðar og þeim lokað aftur samdægurs þar sem það var niðurstaða samninganefnda að löggjöf í þessum málaflokki væri samsvarandi á Íslandi og í ríkjum Evrópusambandsins.

Aðild Íslands að EES-samningnum hefur einnig haft í för með sér að fjölmargar tilskipanir Evrópusambandsins á sviði félags- og atvinnumála hafa verið lögfestar hér á landi, ýmist með lögum og/eða kjarasamningum. Þessum tilskipunum, sem allar varða réttindi launþega, má skipta í þrjá meginflokka:

 1. Vinnuréttindi
  • Réttindi varðandi hópuppsagnir og aðilaskipti að fyrirtækjum.
  • Ábyrgð á launum við gjaldþrot.
  • Réttur starfsmanna til að fá ráðningar- og starfskjör sín staðfest skriflega.
  • Réttindi starfsmanna sem vinna tímabundið í öðrum aðildarríkjum.
  • Reglur á sviði upplýsinga og samráðs.
  • Réttindi starfsmanna í hlutastörfum og í tímabundnum ráðningum.
 2. Vinnuvernd
  • Vinnutímatilskipunin, sem kveður meðal annars á um hámarksvinnutíma launafólks og daglega og vikulega lágmarkshvíld.
  • Réttur þungaðra kvenna, kvenna sem nýlega hafa alið börn og sem eru með börn á brjósti. Vinnuvernd barna og unglinga.
  • Rammatilskipun um vinnuvernd, sem setur ramma um aðbúnað og vinnuverndarstarf á vinnustöðum.
  • Reglur um húsnæði vinnustaða, öryggismerkingar á vinnustöðum, persónuhlífar og fleira.
 3. Jafnréttismál
  • Jafnrétti til launa og starfa.
  • Sönnunarbyrði í jafnréttismálum.
  • Foreldraorlof ásamt reglum um réttarstöðu þungaðra kvenna.
  • Jafnrétti til almannatrygginga.

Tenglarnir í yfirskriftunum hér að ofan vísa á heimasíðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) en þar er að finna nokkuð ítarlega umfjöllun um tilskipanir sem innleiddar hafa verið hér á landi á grundvelli EES-samningsins og varða félags- og vinnumál.

Viðræður Íslands og Evrópusambandsins um samningskaflann um félags- og vinnumál hafa ekki hafist. Í greinargerð um kaflann kemur hins vegar fram að meginþorri þeirra reglugerða og tilskipana sem heyra undir hann hafi þegar verið innleiddar í íslenska löggjöf á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. „Því mun ekki þurfa að koma til mikilla breytinga á íslensku lagaumhverfi vegna þeirra auk þess sem Ísland verður að teljast mjög vel í stakk búið til þess að mæta þeim kröfum sem kaflinn felur í sér.“

Þrátt fyrir mikið umfang regluverks ESB um félags- og vinnumál hafa lög og reglur aðildarríkjanna á þessum sviðum ekki verið algjörlega samræmdar. Það er eðli tilskipana að þær eru aðeins bindandi að því er markmið þeirra varðar en aðildarríkjum er í sjálfsvald sett með hvaða leiðum þeim markmiðum er náð. Í því felst iðulega að settar eru fram tilteknar lágmarkskröfur, svo sem um vikulegan hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, sem aðildarríkjunum ber að uppfylla hið minnsta. Því getur verið töluverður munur á gildandi reglum í aðildarríkjunum jafnvel á sviðum þar sem teknar hafa verið upp ESB-tilskipanir.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með því að reglum EES-samningsins sé fylgt á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein. Henni er ætlað að tryggja að EFTA/EES-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum, meðal annars varðandi innleiðingu gerða og framkvæmd þeirra. Stofnunin getur rannsakað meint brot, annaðhvort að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvartana. Ef ríki lætur hjá líða að innleiða EES-reglur í landslög, eða beita þeim rétt, hefur stofnunin afskipti af því. Eftirlitsstofnunin getur síðan hafið formlega málsmeðferð og á lokastigi málsmeðferðar vísað málinu til EFTA-dómstólsins. Hlutverk eftirlitsstofnunar EFTA er þar af leiðandi sambærilegt við hlutverk framkvæmdastjórnarinnar sem verndari sáttmála ESB. Það er því ekki tilefni til að ætla að aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði í för með sér aukið eftirlit með ákvæðum er varða réttindi launþega á vinnumarkaði.

Mynd:

Upprunaleg spurning;

Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB? Verður meira eftirlit með vinnu, þar á ég við ákvæði um hvíldartíma og einnig fyrirvara um boðun til vinnu til dæmis helgarvinnu og almenn réttindi launþega?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.3.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 2.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61184. (Skoðað 15.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela