Hvernig breytist aðgangur að vinnumarkaði og skólum ef Ísland gengur í Evrópusambandið?
Spyrjandi
Auður Steinberg
Svar
Afar litlar breytingar yrðu á aðgangi Íslendinga að vinnumarkaði ríkja Evrópusambandsins ef Ísland gengi í sambandið. Ísland hefur fullgilt EES-samninginn og er því aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Reglur um vinnumarkað falla að miklu leyti undir EES-samninginn og Ísland hefur því tekið nánast allt regluverk sambandsins um vinnumarkaðsmálefni í sína löggjöf. Mestu skiptir þó að samkvæmt EES-samningnum njóta allir borgarar EES réttinda samkvæmt fjórfrelsisákvæðum Evrópusambandsins en í því felst meðal annars sú grundvallarregla að hömlur megi ekki setja á rétt fólks til að leita að og sækja sér vinnu í aðildarríkjum sambandsins. Út frá lögum og reglum á að vera jafneinfalt fyrir Íslending að ráða sig í vinnu á Grikklandi og fyrir Grikkja að ráða sig hér á landi. Engar breytingar yrðu á þessu ef Ísland gengur í Evrópusambandið. Menntamál og málefni skóla heyra ekki með beinum hætti undir Evrópusambandið. Stjórnvöld í hverju landi fara því með forræði í menntamálum. Það þýðir að sambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á þessu sviði, andstætt því sem á við um marga aðra málaflokka, til dæmis sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Evrópusambandið stendur hins vegar fyrir ýmsum samstarfsverkefnum á sviði menntamála, meðal annars verkefni sem heitir Menntaáætlun ESB, þar sem aðildarríkin eru hvött til að auka samstarf sitt á sviði menntamála. Sú hvatning er meðal annars í formi styrkja, til dæmis Erasmus-styrkja á háskólastigi. Ísland er nú þegar þátttakandi í áætluninni og aðild að ESB breytir því engu þar um. Þá skrifuðu 29 ríki, þar á meðal Ísland, undir svonefnda Bologna-yfirlýsingu árið 1999 um aukið samstarf á sviði menntamála og hefur sú aðgerð þegar haft ýmiss konar áhrif á menntamál hér á landi. Aðild Íslands að ESB hefði aftur á móti áhrif á greiðslu skólagjalda í háskólum í Bretlandi. Varðandi þessi gjöld er greint á milli tveggja hópa; heimamanna (e. home fees) og þeirra sem búa erlendis (e. overseas fees) og eru þau allajafna talsvert hærri. Íbúar Evrópusambandsins teljast heimamenn en Ísland hefur verið sett í hinn flokkinn þrátt fyrir aðild að EES og íslenskir námsmenn greiða því hærri skólagjöld í Bretlandi en námsmenn frá aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þó er hægt að fá undanþágur frá þessu í vissum tilvikum, til dæmis ef viðkomandi hefur unnið í Bretlandi áður en námið hófst, eins og nánar er lýst hjá Upplýsingastofu um nám erlendis. Skólagjöld eru annars almennt ekki innheimt í háskólum aðildarríkja í Evrópusambandinu. Þar sem það er gert er ekki gerður sami greinarmunur og í Bretlandi á milli þeirra sem búa heima og erlendis. Heimildir og mynd:- Skýrsla Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. 13. mars 2007.
- Mynd sótt 1.9.2009 á Conor Reidy: Musings of a Munsterman.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 1.9.2009
Efnisorð
ESB Evrópusambandið vinnumarkaður vinna störf skólar nám menntun kennsla Evrópusamstarf milliríkjasamningar EES Evrópska efnahagssvæðið fjórfrelsi menntamál Menntaáætlun Bologna-yfirlýsing skólagjöld háskólar
Tilvísun
Árni Helgason. „Hvernig breytist aðgangur að vinnumarkaði og skólum ef Ísland gengur í Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 1.9.2009. http://evropuvefur.is/svar.php?id=23406. (Skoðað 12.10.2024).
Höfundur
Árni Helgasonlögfræðingur