Spurning

Gilda sömu reglur um viðurkenningu á menntun í öllum aðildarríkjum ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í stuttu máli er svarið nei. Evrópusambandið fer ekki með valdheimildir til að setja reglur í menntamálum en það hefur heimildir til að stuðla að samvinnu aðildarríkjanna í þeim málaflokki. Viðurkenning menntunar innan Evrópusambandsins byggir á því að aðildarríki tekur sem gilda menntun sem nemandi hefur öðlast í öðru aðildarríki ESB.

***


Samstarf Evrópuríkja í menntamálum gerir námsmönnum kleift að mennta sig um alla Evrópu.
Evrópusambandsríkin hafa unnið að því að auðvelda viðurkenningu menntunar innan sambandsins og jafnframt á alþjóðavísu til að gera nemendum kleift að stunda nám sitt erlendis; auka frjálsa för ungra einstaklinga milli ríkja og stuðla þannig að sameinaðri Evrópu. Aðildarríki ESB hafa flestöll vilja til að auka samvinnu á sviði menntamála en sum þeirra skortir stundum getu til að taka upp og framkvæma á landsvísu sameiginleg markmið Evrópusambandsins.

Ísland, sem aðili að EES-samningnum, hefur síðastliðin ár unnið að þróun menntastefnu sinnar að evrópskri fyrirmynd. Það skýrist af því að tilmæli ESB varðandi menntamál eru yfirleitt felld undir EES-samninginn þar sem mikill vilji er fyrir alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Mikilvægt skref var tekið árið 2004 þegar aðildarríki ESB og aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að innleiða heildstæða og fjölþætta stefnu um nám alla ævi. Nám alla ævi vísar til náms á öllum aldri; frá leikskólaaldri fram á efri ár og í ólíku samhengi, þar með talið formlegt, óformlegt og formlaust nám. Unnið var að stefnumótuninni innan framkvæmdastjórnar ESB og voru tilmæli um setningu evrópsks viðmiðaramma fyrir ævinám (e. European Qualifications Framework, EQF) formlega samþykkt í apríl 2008. Tilmælin voru felld undir EES-samninginn ári síðar. Í dag eru 32 ríki aðilar að viðmiðarammanum. Þau eru aðildarríki ESB, EFTA-ríkin innan EES og umsóknarríki ESB.

Viðmiðaramminn byggir á átta stigum sem lýsa því hvað nemandi skilur, veit og er fær um að gera út frá námsmarkmiðum sem sett eru hverju sinni. Slíkt mat auðveldar samanburð á námshæfi milli aðildarríkja og kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi að endurtaka nám sitt, að hluta til eða í heild, ef þeir kjósa að halda námi sínu áfram eða hefja störf í öðru aðildarríki.


Nám af öllu tagi er metið á skala sem skiptist í átta stig.

Markmið viðmiðarammans er því að auka gagnsæi milli þátttökuríkjanna, gera námsfólki og fólki á vinnumarkaði auðveldara að flytja sig á milli landa og um leið að auka aðgang einstaklinga að námi alla ævi. Viðmiðaramminn kemur þó ekki í stað hæfismatskerfa innan aðildarríkjanna sjálfra. Hann er ætlaður sem viðbót til að auðvelda samvinnu milli ríkja á sviði menntamála og greiða fyrir skiptinámi og flutningi evrópskra ríkisborgara milli menntastofnana í mismunandi löndum. Hefur ESB stefnt að því að frá og með árinu 2012 muni öll námsskírteini, sem gefin eru út innan ESB, vísa til eins af átta stigum viðmiðarammans. Hafa aðildarríkin unnið að formlegri innleiðingu þessa kerfis síðan árið 2010.

Fleiri viðmið hafa verið sett fram í því skyni að geta borið saman menntun einstaklinga milli menntastofnana en þá yfirleitt á ákveðnum stigum innan menntakerfisins. Má í því sambandi nefna Bologna-yfirlýsinguna frá árinu 1999 sem hefur leitt til stöðlunar námskrafna og námsgráða á háskólastigi innan Evrópu. Með henni voru til að mynda teknar í notkun stöðluðu námseiningarnar (e. European Credit Transfer System, ECTS) sem veita Erasmus-nemendum tækifæri til að halda áfram að mennta sig í öðru samstarfsríki án hindrana. Einingarnar eru viðurkenndar á alþjóðavísu.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 3.2.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Gilda sömu reglur um viðurkenningu á menntun í öllum aðildarríkjum ESB?“. Evrópuvefurinn 3.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61860. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela