Spurning

Hver er réttarstaða innflytjanda í ESB sem er giftur Íslendingi?

Spyrjandi

María Elínardóttir

Svar

Innflytjandi frá þriðja ríki sem er giftur ríkisborgara aðildarríkis ESB eða EES hefur samsvarandi rétt til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu og maki, en réttur hans er þó háður rétti makans. Viðkomandi þarf alla jafna ekki að sækja um dvalarleyfi í aðildarríkjunum en til að dvelja lengur en þrjá mánuði í sama landi þarf makinn þó að uppfylla viss skilyrði. Ennfremur þurfa innflytjendur ekki vegabréfsáritun til að ferðast á Schengen-svæðinu ef þeir eru handhafar dvalarskírteinis.

***

Réttarstaða innflytjenda sem eru aðstandendur ríkisborgara aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) eða Evrópska efnahagssvæðisins (EES) er meðal annars ákveðin í tilskipun 2004/38/EB um rétt ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins og fjölskyldna þeirra til frjálsrar farar og dvalar innan svæðisins. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn árið 2007 og síðan þá geta Íslendingar og makar þeirra nýtt sér þann rétt sem tilskipunin veitir innan aðildarríkja ESB og EES. Alltaf er skilyrði fyrir beitingu reglnanna að Íslendingurinn hafi nýtt sér rétt sinni til frjálsrar farar.1


Réttur maka samsvarar rétti ríkisborgara ESB og EES ríkja og er háður þeim rétti. Erlendur maki (til dæmis frá Georgíu) sem býr í Tékklandi með íslenskum maka sínum hefur því réttarstöðu þar samkvæmt tilskipuninni, þar með talinn búseturétt og afleidd réttindi. Makinn getur einnig farið til annarra aðildarríkja ESB/EES og búið þar með íslenskum maka sínum. Almennur búseturéttur í öðrum aðildarríkjum, er veittur í 3 mánuði án skilyrða. Réttur til lengri dvalar er veittur ef skilyrðum 7. gr. tilskipunarinnar er fullnægt, það er ef íslenski makinn er launþegi, sjálfstætt starfandi eða á annan hátt fjárhagslega sjálfstæður. Eftir fimm ára samfellda löglega dvöl í gistiríki hefur alla jafna áunnist réttur til ótímabundinnar dvalar í viðkomandi ríki (16. grein).

Tilskipunin gerir ráð fyrir því í 10. grein að búseturíki gefi út sérstakt dvalarskírteini fyrir maka sem er innflytjandi. Dvalarskírteinið skal gilda í fimm ár eða út búsetutímann ef hann er skemmri. Þetta skírteini á að vera nægilegt til að tryggja rétt makans til inngöngu í annað aðildarríki við landamæri (2. málsgrein 5. greinar). Ef sú er ekki raunin eiga aðildarríkin að aðstoða makann við að afla sér skilríkja og á hann rétt á að fá vegabréfsáritun ef hjúskaparvottorði er framvísað.

Þar sem innflytjendalöggjöf aðildarríkjanna er mismunandi og hvert þeirra um sig innleiðir reglur tilskipunar 2004/38/EB í rétt sinn getur verið munur á réttarstöðu milli landa. Árið 2009 gaf framkvæmdastjórn ESB út leiðbeiningar um túlkun tilskipunarinnar þar sem ágallar voru á innleiðingu og framkvæmd í aðildarríkjunum.

Schengen-reglurnar eru sérreglur sem varða meðal annars landamæraeftirlit og gilda til fyllingar reglum tilskipunar 2004/38/EB. Þær gilda ekki á öllu yfirráðasvæði ESB/EES. Þar sem landamæraeftirlit er fellt niður á innri landamærum Schengen-ríkja og bæði Ísland og Tékkland eru aðilar að Schengen ættu ekki að koma upp vandkvæði við ferð innan Schengen-svæðisins. Á ferðalögum innan þess svæðis þarf innflytjandi því ekki vegabréfsáritun ef hann/hún hefur gilt dvalarskírteini frá Schengen-ríki.

1 Hafa verður í huga að réttarstaða þeirra sem ekki stunda launaða eða sjálfstæða starfsemi, eða falla á annan hátt undir sérstakar reglur, getur verið ólík í EES annars vegar og ESB hins vegar, þar sem þegnar EES eru ekki ríkisborgarar í ESB. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með fyrirvara um áhrif ríkisborgararéttar í ESB á þróun EES-samningsins í framtíðinni.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Hver er réttarstaða innflytjanda frá Georgíu sem er giftur Íslendingi og býr í Tékklandi? Nýtur hann sömu réttindi og ríkisborgarar á Schengen-svæðinu eða þarf hann að sækja um landvistarleyfi í hvert skipti sem þau flytja innan ESB eða á milli Schengen-landa?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.11.2011

Tilvísun

Dóra Guðmundsdóttir. „Hver er réttarstaða innflytjanda í ESB sem er giftur Íslendingi?“. Evrópuvefurinn 16.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60733. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Dóra Guðmundsdóttiraðjúnkt við lagadeild HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela