Spurning

Hver er aðkoma Íslands að mótun vinnumarkaðslöggjöfar ESB og hvernig mundi hún breytast við aðild?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Aðild Íslands að ESB mundi veita íslenskum stjórnvöldum betri aðkomu að ákvarðanatökuferli sambandsins um málefni vinnumarkaðarins. EES-samningurinn tryggir fyrst og fremst samstarf á milli embættismanna EFTA/EES-ríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Með aðild að ESB fengju Íslendingar fulltrúa í ráðinu og á Evrópuþinginu og tækju þátt í nefndavinnu þessara stofnana. Ísland hefði ekki mörg atkvæði innan ráðsins eða marga þingmenn á þinginu en stjórnvöld gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri innan stofnananna og undirbúningsnefnda þeirra. Við núverandi aðstæður er íslenskum hagsmunasamtökum á vinnumarkaði formlega tryggð betri aðkoma að reglusetningu ESB á þessu sviði en íslenskum stjórnvöldum.

***

Regluverk Evrópusambandsins um málefni vinnumarkaðarins fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland er aðili að (sjá svar við spurningunni Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB?). Fyrirtæki og launafólk á Íslandi búa því nú þegar við sambærilegar reglur á vinnumarkaði og gilda í aðildarríkjum ESB. Það sem mundi breytast við aðild Íslands að ESB væri fyrst og fremst aðkoma íslenskra stjórnvalda að setningu laga og reglna um vinnumarkaðinn en ekki vinnumarkaðslöggjöfin sem slík - þetta gildir um flest svið innri markaðar ESB sem heyra undir EES-samninginn.

EES-samningurinn tryggir Íslandi aðgang að sérfræðinefndum sem aðstoða framkvæmdastjórnina við mótun nýrra tillagna að löggjöf. Þátttaka íslenskra sérfræðinga í nefndavinnu famkvæmdastjórnarinnar er mikilvægasti vettvangur íslenskra stjórnvalda til að hafa áhrif á mótun löggjafar (e. decision shaping) ESB. Sérfræðinefndirnar eru þó aðeins ráðgefandi og taka ekki bindandi ákvarðanir. Framkvæmdastjórnin ákveður ennfremur hverja hún biður um álit og hvaða ráðleggingum hún fer eftir.


Fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins á fundi.

Ólíkt aðildarríkjum ESB eiga íslensk stjórnvöld enga fulltrúa í ráðinu eða á Evrópuþinginu og hafa því enga aðkomu að endanlegri ákvarðanatöku (e. decision making) um tillögur framkvæmdastjórnarinnar. Eini möguleiki íslenskra stjórnvalda til áhrifa á þessu stigi máls er að fá framkvæmdastjórnina eða eitthvert aðildarríkjanna til að koma ákveðnum málum á dagskrá fyrir þeirra hönd - fá dæmi eru þó um að slíkt hafi tekist.

EES-samningurinn tryggir þannig fyrst og fremst samstarf á milli embættismanna EFTA/EES-ríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Með aðild að ESB fengju Íslendingar hins vegar fulltrúa í ráðinu og á Evrópuþinginu og tækju þar með einnig þátt í nefndavinnu þessara stofnana. Ísland hefði ekki mörg atkvæði innan ráðsins eða marga þingmenn á þinginu en stjórnvöld gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri innan stofnananna og undirbúningsnefnda þeirra.

Aðilar vinnumarkaðarins í ríkjum ESB hafa á síðastliðnum árum fengið aukin áhrif varðandi gerð tillagna á sviði vinnulöggjafar ESB. Framkvæmdastjórninni er þannig skylt að gefa hagsmunasamtökum vinnumarkaðarins tækifæri til að ná samkomulagi um vinnumarkaðsmálefni sín á milli áður en hún setur fram tillögur á viðkomandi sviði. Náist samkomulag á milli allra aðila leggur framkvæmdastjórnin samninga þeirra óbreytta fyrir ráðið.


Suðurhlið Alþingishússins.
EES-samningurinn tryggir aðilum vinnumarkaðarins á Íslandi nú þegar aðkomu að ákvarðanatökuferli ESB í gegnum ráðgjafanefndir EFTA- og EES-ríkjanna. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar að Evrópusamtökum atvinnulífsins (e. BUSINESSEUROPE) en Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eiga fulltrúa í Evrópusambandi verkalýðsfélaga (e. European Trade Union Confederation, ETUC).

Í nokkrum tilvikum hafa fulltrúar íslenskra hagsmunasamtaka atvinnurekenda og launafólks tekið þátt í samningaviðræðum Evrópusamtaka atvinnulífsins og Evrópusambands verkalýðsfélaga við ESB. Þessi aðkoma tryggir íslenskum hagsmunahópum aðgang að mikilvægum upplýsingum og gerir þeim kleift að fylgjast nokkuð vel með málefnum vinnumarkaðarins í Evrópu. Ef nauðsyn krefur geta þau vakið athygli íslenskra stjórnvalda á málum sem varða íslenska hagsmuni. Við núverandi aðstæður má því segja að íslenskum hagsmunasamtökum á vinnumarkaði sé tryggð betri aðkoma að setningu laga ESB um málefni vinnumarkaðarins en íslenskum stjórnvöldum.

Með aðild að ESB þyrfti íslenska ríkið að skila inn árlegum greinargerðum um stöðu, aðgerðir og árangur í atvinnumálum. Ólík ráðuneyti og stofnanir yrðu að starfa náið saman, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, til að bæta aðgerðir og auka þekkingu og færni á vinnumarkaðnum.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.3.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver er aðkoma Íslands að mótun vinnumarkaðslöggjöfar ESB og hvernig mundi hún breytast við aðild?“. Evrópuvefurinn 9.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62127. (Skoðað 21.5.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela