Spurning

Er atvinnuleysi á Spáni Evrópusambandinu að kenna og hverju breytir evran fyrir ástandið?

Spyrjandi

Auðunn Þór Björgvinsson

Svar

Aðild Spánar að Evrópusambandinu er ekki talin helsta orsök mikils atvinnuleysis í landinu, enda hefur lengi verið við djúpstæðan kerfisvanda að etja á spænskum vinnumarkaði. Þótt hagfræðingar séu almennt sammála um að atvinnuleysið væri eitthvað minna ef Spánn hefði yfir að ráða eigin gjaldmiðli er erfitt að segja að hvaða marki það dygði til að komast fyrir rætur vandans.

***

Þjóðir Suður-Evrópu glíma nú við efnahagsvanda af margvíslegu tagi. Á Spáni eru það ekki aðeins ríkisskuldirnar sem sliga þjóðfélagið heldur einnig ógnvænlegt atvinnuleysi sem veldur eymd og vonleysi meðal landsmanna. Næstum fimm milljónir manna eru nú atvinnulausar eða 21% vinnufærra manna og er atvinnuleysi hvergi eins mikið í löndum Evrópusambandsins (ESB). Síðan efnahagskreppan reið yfir haustið 2008 hefur atvinnuleysi í ESB aukist úr 7% í 10% og er meðaltalið því helmingi lægra en á Spáni. Ástandið er þó ólíkt eftir löndum og sums staðar hefur beinlínis dregið úr atvinnuleysi að undanförnu, til dæmis í Þýskalandi þar sem það er nú aðeins 6%.Síðustu mánuði hefur verið haldin röð mótmælafunda gegn atvinnuleysi, niðurskurði til velferðarmála, spænskum stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Þessi mynd var tekin á Puerta del Sol torginu í Madrid 20. maí 2011.

Af hverju er atvinnuleysi svona útbreitt á Spáni? Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að Spánverjar hafa lengi búið við mikið atvinnuleysi og jafnvel meira en flestir nágrannar þeirra. Síðan Spánn gekk í Evrópusambandið árið 1986 hefur atvinnuleysi verið að meðaltali 14% samanborið við tæp 10% í Frakklandi og 7% í Bretlandi. Athyglisvert er að áður en Spánn gekk í Evrópusambandið var atvinnuleysi enn hærra en þetta eða svipað og það er nú. Skortur á atvinnu er því ekki ekki nýr af nálinni á Spáni og ekki hægt að líta á hann sem beina afleiðingu af aðild að Evrópusambandinu.

Spánn hefur um langa hríð búið við kerfislægan vanda á vinnumarkaði sem kemur meðal annars fram í gífurlegu atvinnuleysi meðal ófaglærðra og hjá ungu fólki. Hagtölur sýna að atvinnuleysi hjá fólki undir 25 ára aldri er hvorki meira né minna en 46%. Vinnumarkaðurinn er tvískiptur þar sem á aðra röndina eru þeir sem búa við fasta atvinnu og sterka samningavernd og á hina lausráðið fólk með litla sem enga vernd. Skammtímasamningar skapa ekki aðeins mikið efnahagslegt óöryggi launafólks heldur draga þeir líka úr hreyfanleika vinnuaflsins og letja fólk til að mennta sig.

Það eru hinir skammtímaráðnu, ekki síst ungt fólk og ófaglært, sem atvinnuleysið hefur bitnað mest á hingað til vegna þess að atvinnurekendur, sem þurfa að hagræða í rekstri sínum, eiga auðveldast með að segja þeim upp. Þá er umfangsmikið neðanjarðarhagkerfi á Spáni sem veldur því að opinberar tölur gefa ef til vill ekki fyllilega rétta mynd af ástandinu.

Vissulega tengist atvinnuleysið þó einnig efnahagsþróuninni á undanförnum árum, þenslu hagkerfisins sem kom gleggst fram í ævintýralegum vexti byggingaiðnaðarins – og síðan efnahagskreppunni 2008 með miklum samdrætti í atvinnnu. Þetta skýrir að miklu leyti af hverju skammtímaatvinnuleysi er meira á Spáni en í nágrannlöndunum. Byggingaiðnaðurinn óx um tæp 40% frá 1999 til 2006 en síðan hefur hann dregist saman um 55% þannig að umsvif hans eru nú aðeins um 60% af því sem þau voru fyrir 1999. Þessi samdráttur er enn alvarlegri þegar haft er í huga að umfang byggingaframkvæmda breytast yfirleitt hægt, til dæmis hefur samdrátturinn í Evrópusambandinu að meðaltali numið „aðeins“ 17% frá því sem mest var árið 2007.

Af ofansögðu má draga þá ályktun að aðildin að Evrópusambandinu sé ekki frumorsök atvinnuleysisins á Spáni. Aðild að myntsamstarfi Evrópuþjóða, evrusvæðinu, er flóknara mál. Þó eru hagfræðingar almennt sammála um að hefði Spánn yfir að ráða eigin gjaldmiðli væri atvinnuleysið eitthvað minna.

Aðild að myntbandalagi hefur bæði kosti og galla. Meðal kosta eru hagstæðari skilyrði til viðskipta við önnur lönd og minni óvissa um viðskiptakjör. Einn helsti galli myntbandalags er hins vegar sá að ríkið afsalar sér sjálfstæðri peningastefnu. Samkvæmt kenningunni frægu um ómögulegu þrenninguna við stjórn peningamála (e. the impossible trinity) er útilokað fyrir ríki að framfylgja í senn gengisfestu (eins og í myntbandalagi), óheftum fjármagnsflutningum og sjálfstæðri peningamálastefnu (ákvörðun á grunnvöxtum og fleiru þess háttar).


"Hugsið til Íslands" manar þessi ungi maður spænska landa sína en búsáhaldabyltingin hefur orðið Spánverjum hvatning til að halda mótmælum sínum til streitu.
Þetta þýðir til dæmis að Spánn getur ekki haft annað grunnvaxtastig en Þýskaland ef löndin notast við sömu mynt og leyfa frjálsa fjármagnsflutninga. Við slíkar aðstæður myndi fjármagn streyma til þess lands sem býr við hærri vexti (eins og Íslendingar urðu áþreifanlega varir við fyrir hrunið 2008). Þegar lönd hafa mismunandi mynt eru slíkar aðstæður ekki til staðar samkvæmt kenningunni því hlutfallslegt verð gjaldmiðlanna breytist þar til ávöxtunarkrafan er orðin sú sama í báðum löndum þegar á heildina er litið. Þannig mun verð gjaldmiðilsins endurspegla fjárfestingatækifærin sem viðkomandi land hefur upp á að bjóða.

Leiðin sem Spánn og önnur Evrópulönd hafa farið er að halda gengi föstu og leyfa óhefta fjármagnsflutninga en gefa sjálfstæða peningamálastefnu upp á bátinn. Peningastefnan er ákveðin sameiginlega fyrir öll aðildarlönd evrusvæðisins og tekur mið af gjaldmiðilssvæðinu í heild. Spánn þarf því að sætta sig við aðhaldsstig sem miðast við evrusvæðið allt en ekki bara eigin stöðu í hagsveiflunni. Því má spyrja hvort hagur Spánar breyttist ef landið hefði eigin gjaldmiðil og þar af leiðandi sjálfstæða peningastefnu.

Við núverandi fyrirkomulag ákveður Seðlabanki Evrópu (ECB) hversu sveigjanleg peningastefna evrulandanna á að vera. Þetta er erfitt verkefni vegna þess að í sumum löndum evrusvæðisins er uppsveifla, sem kallar á hlutfallslega hærri vexti en í löndum þar sem stöðnun eða samdráttur ríkir. Staðan nú er sú að ECB hefur byrjað að hækka vexti eftir að vextir hafa verið óvenju lágir undanfarin ár. Stýrivextir eru þó enn lágir eða 1,75%. Því er erfitt að staðhæfa að vaxtastig evrusvæðisins hamli hagvexti í þeim ríkjum þar sem atvinna hefur dregist mest saman eins og á Spáni.

En hvað með stöðu gjaldmiðilsins sjálfs, væri Spánn betur settur með eigin gjaldmiðil? Gjaldmiðill lands getur virkað sem sjálfvirkur sveiflujafnari sem veikist á tímum samdráttar og styrkir þar með samkeppnisstöðu hagkerfisins; og öfugt í uppsveiflu. Líklegt er að sjálfstæður gjaldmiðill Spánar myndi veikjast meira en evran hefur nú gert en erfitt er að segja til um hversu mikið. Útflutningsgreinar myndu styrkjast við veikari mynt en á móti kæmi að verðlag á innflutningi myndi hækka svo og skuldir í erlendri mynt.

Þá má færa rök fyrir því að sá efnahagslegi ávinningur sem fengist hefur með sameiginlegum gjaldmiðli og nánari samþættingu við evrópskt efnahagslíf tapist að einhverju leyti með sjálfstæðum gjaldmiðli. Erfitt er að meta hve sterk gjaldmiðilsáhrifin yrðu á atvinnu og efnahagslíf Spánar og að hvaða marki þau næðu að yfirvinna þau kerfisvandamál sem nefnd eru að ofan. Kerfislæg vandamál lagast alla jafna ekki með tímabundinni veikingu gjaldmiðils.

Atvinnuleysi og önnur vandamál á vinnumarkaði eiga því aðeins að hluta til rætur sínar að rekja til efnahagskreppunnar sem nú er við að etja í Evrópu, og má segja að kreppan snúi fyrst og fremst að skuldavandanum. Þó að farsæl lausn á skuldavandanum myndi bæta atvinnuástandið í Evrópusambandinu, mun hún ekki vinna bug á djúpstæðari kerfisvanda í efnahagslífi einstakra aðildarlanda.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Er atvinnuleysi á Spáni Evrópusambandinu að kenna? Væri ástandið í atvinnumálum þar verra/betra ef ekki væri fyrir evruna?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.9.2011

Tilvísun

Guðmundur Jónsson og Tryggvi Guðmundsson. „Er atvinnuleysi á Spáni Evrópusambandinu að kenna og hverju breytir evran fyrir ástandið?“. Evrópuvefurinn 23.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60501. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundar

Guðmundur Jónssonprófessor í sagnfræði, Hugvísindasviði HÍTryggvi GuðmundssonM.Sc. í hagfræði

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Hrafn Arnarson 27.9.2011

Það er kerfisvandi sem skýrir mikið atvinnuleysi á Spáni fyrir ESB aðild. Hver er þessi kerfisvandi?

Neðanjarðarhagkerfið er umfangsmikið. Er hægt að áætla hversu umfangsmikið?

Byggingariðnaðurinn óx með ævintýralegum hætti til ársins 2008. Hvernig var hann fjármagnaður?

Guðmundur Jónsson og Tryggvi Guðmundsson 6.10.2011

Þau kerfislægu vandamál sem menn nefna helst eru lítil framleiðni, langvarandi halli á ríkisbúskapnum og umfram allt rótgróinn vandi spænska vinnumarkaðarins, eins og við greindum frá í svari okkar. Löggjöfin dregur úr sveigjanleika vinnumarkaðarins þar sem dýrt og erfitt er að reka fastráðið fólk. Æ stærri hluti vinnuaflsins er því dæmdur til að vinna í tímabundnum störfum við lítið öryggi eða þá að vinna svarta vinnu.

Svört vinna, neðanjarðarhagkerfið, er orðið að miklu þjóðfélagsmeini á Spáni enda eitt hið umfangsmesta í allri Evrópu, litlu minna en á Grikklandi og Ítalíu. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að áætla stærð þess og hafa verið nefndar tölur á bilinu 17–23% af landsframleiðslu, en eðli málsins samkvæmt eru slíkir útreikningar vandkvæðum bundnir. Ríkisstjórn Spánar tilkynnti fyrr á þessu ári um áætlun til að þrengja að neðanjarðarhagkerfinu með auknu eftirliti, ekki síst til að auka skatttekjur. Samkvæmt áætlun Gestha, samtaka skattaeftirlitsmanna á Spáni, nema óframtaldar tekjur 82 milljörðum evra á ári. Þá hefur komið í ljós að óvenjustórt hlutfall 500-evru seðla er í umferð á Spáni, en slíkir seðlar eru mjög vinsælir í ýmiss konar svartri starfsemi! Það gefur auga leið að opinberar tölur um atvinnuleysi eru of háar í ljósi þess hve neðanjarðarhagkerfið er gífurlega stórt.

Byggingaiðnaðurinn óx ört á síðasta áratug og virðist hafa verið á ferðinni dæmigerð fasteignabóla. Aukin eftirspurn eftir húsnæði ýtti húsnæðisverði upp og dró þar með athafnamenn og lánsfé að byggingageiranum. Greiður aðgangur að lánsfé gerði svo verktökum auðvelt að fjármagna framkvæmdir og almenningi að greiða æ hærra verð fyrir húsnæði. Það gat auðvitað ekki gengið til lengdar.