Spurning

Verður leyfilegt að flytja inn hross frá öðrum löndum ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Helena Kristinsdóttir

Svar

Sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hefur Ísland fengið undanþágur frá öllum reglum sem gilda á svæðinu um frjálsa för lifandi dýra til landsins. Í yfirstandandi samningaviðræðum við ESB um aðild að sambandinu er sóst eftir því að þessum undanþágum verði viðhaldið. Rökin fyrir því eru sterk, eins og rakið er nánar í megintexta svarsins hér á eftir, en landfræðileg einangrun landsins hefur leitt af sér búfjárstofna sem eru viðkvæmir fyrir innfluttum smitsjúkdómum og því sérstakrar verndar þurfi.

***

Samkvæmt lögum um innflutning dýra (nr. 54/1990) er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra, þar með talin hross og hrossasæði. Á heimasíðu Matvælastofnunar Íslands kemur fram að þetta bann gegni lykilhlutverki í vörnum gegn smitsjúkdómum en íslenski hrossastofninn hefur til þessa verið laus við marga alvarlega smitsjúkdóma, svo sem hestainflúensu og kverkaeitlabólgu, sem allir eru landlægir í nágrannalöndum okkar.


Íslenski hesturinn hefur verið einangraður lengi en ekki er vitað til þess að hestar hafi verið fluttir hingað eftir landnám.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins er óheimilt að banna út- og innflutning á hrossum milli aðildarríkja sambandsins. Lifandi dýr og dýraafurðir teljast vörur í skilningi þeirra reglna sem gilda um innri markaðinn og því jafngildir bann við innflutningi á hrossum takmörkun á frelsi til vöruviðskipta. Við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið samþykktu öll EFTA-ríkin nema Ísland að taka upp í samninginn samræmdar reglur um heilbrigði dýra, með nokkrum undantekningum þó (Viðauki I við EES-samninginn). EES-samningurinn kom þannig ekki í veg fyrir að innflutningsbanni á lifandi dýrum og vissum búfjárafurðum yrði áfram beitt af íslenskum stjórnvöldum. Síðan þá hefur verið samið um undanþágur vegna flestra EES-lagagerða varðandi dýrasjúkdóma og allra lagagerða varðandi frjálsa för lifandi dýra, búfjárrækt og dýravelferð.

Mikilvægustu gerðirnar sem Ísland hefur fengið undanþágu frá eru tilskipun (nr. 90/425/EBE) um eftirlit með dýraheilbrigði og dýrarækt í viðskiptum innan bandalagsins með tiltekin dýr á fæti og afurðir og tilskipun (nr. 91/496/EBE) um þær kröfur sem liggja til grundvallar við eftirlit með dýraheilbrigði við innflutning dýra frá þriðju ríkjum. Kæmi til aðildar Íslands að ESB og innleiðingar þessara gerða að fullu yrði frjálst að flytja lifandi dýr til Íslands frá aðildarlöndum EES-svæðisins og þeim þriðju ríkjum sem ESB hefur samþykkt innflutning frá, án þess að þau færu í sóttkví hér á landi. Með innleiðingu slíkra reglna yrði ómögulegt að halda uppi nauðsynlegum smitsjúkdómavörnum fyrir íslenska bústofna og því augljóst um hvers konar hagsmunamál er að ræða fyrir Íslendinga. Hagur ESB af óheftum innflutningi lifandi dýra til Íslands vegur óumdeilanlega lítið til samanburðar.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknar að ESB segir að sóst skuli eftir því að undanþágu um viðskipti með lifandi dýr verði viðhaldið. Enn fremur kemur fram í greinagerð samningahóps til aðalsamninganefndar um aðild Íslands að ESB að mikilvægustu hagsmunir Íslands hvað varðar dýraheilbrigði séu að sótt verði um áframhaldandi undanþágur frá löggjöf ESB sem varðar frjálst flæði á lifandi dýrum og löggjöf um dýrasjúkdóma. Í greinagerðinni eru helstu rök Íslands talin upp:

  1. Langvarandi einangrun íslenskra búfjárstofna meðal annars vegna legu landsins og strangra innflutningsreglna sem hafa leitt til þess að hér á landi finnast tiltölulega fáir dýrasjúkdómar miðað við önnur lönd.
  2. Það er mikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar að koma í veg fyrir frjálsan innflutning á lifandi dýrum, þar sem slíkur innflutningur gæti haft áhrif á þá heilbrigðisstöðu sem íslensk búfjárrækt býr við í dag. Búfjársjúkdómar sem eru landlægir erlendis og falla ekki undir kvæði um skimun í gerðum um verslun með dýr gætu jafnframt borist til landsins.
  3. Hér á landi eru sérstök kyn nautgripa, hesta, sauðfjár og geita, sem æskilegt er að halda sem hreinum stofnum. Frjáls innflutningur lifandi dýra gæti raskað verulega stöðu einstakra dýrategunda hvað varðar hreinleika stofnanna. Það er skylda stjórnvalda í hverju ríki að gæta þess að viðhalda fjölbreyttum og hreinum dýrastofnum. Ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika og í gildi er reglugerð nr. 151/2005 um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Reglugerð þessi er sett með skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt ákvæðum samningsins skuldbinda þjóðir heimsins sig til að vernda og viðhalda erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Litið er á líffræðilega fjölbreytni sem sameiginlega auðlind alls mannkyns. Jafnframt er lögð áhersla á umráðarétt þjóða yfir eigin erfðaauðlindum og þar með ábyrgð á verndun þeirra.

Ekki verður annað séð en að þessi rök fyrir áframhaldandi banni við innflutningi lifandi dýra séu fullgild. Sérstaða íslenskra bústofna hefur ekki breyst á liðnum árum eða áratugum og því ættu sömu forsendur að eiga við í yfirstandandi samningaviðræðum um aðild að ESB og þær sem lögðu grunninn að undanþágum Íslands frá reglum EES-samningsins um innflutning lifandi dýra. Endanlegt svar við þessari spurningu verður þó ekki gefið fyrr en niðurstöður aðildarviðræðnanna liggja fyrir. Samningskaflinn um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði, sem innflutningur lifandi dýra heyrir undir, hefur enn ekki verið opnaður og formleg samningsafstaða Íslands ekki verið birt.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Mig langar að vita hvernig staðið verður að innflutningi hrossa ef við göngum í Evrópubandalagið, verður landið opnað fyrir innflutningi?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.11.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Verður leyfilegt að flytja inn hross frá öðrum löndum ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 25.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61241. (Skoðað 25.6.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela