Spurning

Hvaða áhrif myndi aðild að ESB hafa á heimildir til skotveiða á Íslandi?

Spyrjandi

Arne Sólmundsson

Svar

Um vernd villtra fugla er fjallað í svokallaðri fuglatilskipun Evrópusambandsins nr. 2009/147. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja vernd allra fuglategunda sem eiga náttúruleg heimkynni á yfirráðasvæði aðildarríkja ESB.

Hvert aðildarríki skal tryggja að stofnstærðir tegunda séu ásættanlegar og grípa til ráðstafana ef svo er ekki. Hvert aðildarríki skal tryggja varðveislu, viðhald og endurheimt búsvæða og vistgerða fyrir allar fuglategundir, meðal annars með neti verndaðra svæða. Sérstaka áherslu skal leggja á tegundir sem taldar eru þurfa sérstakar verndarráðstafanir og skráðar eru í viðauka við tilskipunina.



Álftir eru alfriðaðar á Íslandi og í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Samkvæmt tilskipuninni er meginreglan að allar fuglategundir eru friðaðar. Almennt veiðibann nær til eggja og veiða á lifandi fuglum og vörslu þeirra og jafnframt gildir almennt sölubann um alla fugla, lifandi sem dauða, hluta þeirra og afurðir. Undanþágur eru þó veittar til veiða og sölu á tilteknum tegundum, sem taldar eru upp í viðauka, ýmist á öllu umráðasvæði aðildarríkja Evrópusambandsins eða innan lögsögu tiltekinna ríkja sambandsins.

Meginregla íslenskra laga er sú sama og regla tilskipunarinnar, að allar villtar fuglategundir eru friðaðar. Þær tegundir sem heimilt er að veiða eru sérstaklega tilgreindar sem og veiðitímabil og -aðferðir.

Ekki liggur fyrir með hvaða hætti framangreind tilskipun verður innleidd í íslenska löggjöf ef til aðildar kemur og mun það ráðast af niðurstöðu samninga milli Íslands og ESB. Í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar eru línurnar lagðar. Þar segir:

Meiri hlutinn leggur áherslu á að við mótun samningsmarkmiða á þessu sviði verði sérstaklega metið hvernig halda megi opnum möguleikum að halda veiðum áfram, með vísan til aldalangrar hefðar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að samningamenn gæti sérstaklega að þessum þáttum og stefnt verði að því að forræði þessara mála verði sem mest í höndum íslenskra stjórnvalda.

Mynd sótt 8.9. 2011 á de.wikipedia.org.

Upphafleg spurning:

Með hvaða hætti munu núverandi lög og tilskipanir ESB hafa bein áhrif á heimildir til skotveiða á Íslandi, eru t.d. ákveðnar dýrategundir friðaðar sérstaklega sem heimilt er að veiða hér við/á land(i)?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela