Spurning

Eru refa- og minkaveiðar ólöglegar samkvæmt reglum ESB?

Spyrjandi

Kári Gunnarsson, Haraldur Dean Nelson

Svar

Heimskautarefir (Vulpes lagopus, áður Alopex lagopus) eru friðaðir samkvæmt reglum Evrópusambandsins en í löndum sambandsins þar sem refir lifa, Svíþjóð og Finnlandi, eru þeir í útrýmingarhættu. Staða refsins í íslenskri náttúru er allt önnur því að ref hefur fjölgað á Íslandi undanfarna áratugi. Hvergi er hins vegar minnst á mink (Mustela vison) í reglum Evrópusambandsins.

***

Um vernd villtra spendýra í Evrópusambandinu gildir tilskipun (nr. 92/43/EEC) um verndun vistgerða og búsvæða, villtra dýra og plantna. Ekki er fjallað um vernd minks í tilskipuninni en með aðildarsamningi Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar að ESB var heimskautarefnum hins vegar bætt á lista hennar. Finnland, Noregur og Svíþjóð voru fyrstu löndin á útbreiðslusvæði heimskautarefsins sem sóttu um aðild að ESB en í þessum löndum er refurinn í útrýmingarhættu.Heimskautarefurinn (Vulpes lagopus) er eina landspendýrið sem barst til Íslands án aðstoðar manna. Hann er talinn hafa komið hingað á ísjökum í lok ísaldar fyrir um það bil 10.000 árum. Búsvæði hans er á eyjum og meginlöndum allt í kringum Norðurskautið.

Heimskautarefurinn rataði þar með bæði á lista tilskipunarinnar yfir tegundir sem aðildarríki ESB þurfa að tryggja friðlönd (viðauki II) og tegundir sem eru strangrar verndar þurfi (viðauki IV). Enn fremur var refurinn flokkaður sem svonefnd forgangstegund, en það eru tegundir í útrýmingarhættu sem aðildarríki Evrópusambandsins bera sérstaka ábyrgð á að vernda vegna þess hve mikill hluti náttúrulegra heimkynna þeirra er á yfirráðasvæði sambandsins (h-liður 1. greinar). Refaveiðar eru því bannaðar samkvæmt reglum ESB sem og truflun meðan á æxlun stendur og spjöll á búsvæðum.

Refir eru einnig friðaðir á Íslandi en minkar ekki samkvæmt meginreglu laga (nr. 64/1994) um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í lögunum er þó að finna víðtækar heimildir til að veita undanþágur frá meginreglunni (12. grein). Slík frávik geta ýmist komið til vegna þess að viðkoma stofnsins nægir til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða á tilteknum svæðum, eða til að koma í veg fyrir tjón af völdum refa, til dæmis í sauðfjárbúskap eða æðarrækt. Á slíkum svæðum hefur í tímans rás verið hvatt til refaveiða með fjárframlögum. Refaveiðar eru þó með öllu óheimilar á 26 friðlýstum svæðum víðsvegar um landið, svo sem á Hornströndum og í Þjórsárverum (sjá reglugerð nr. 437/1995).

Ekki liggur fyrir með hvaða hætti framangreind tilskipun verður innleidd í íslenska löggjöf ef til aðildar kemur. Staða refsins í íslenskri náttúru er nokkuð önnur en almennt gerist í Evrópu en ref hefur fjölgað á Íslandi undanfarna áratugi ólíkt því sem gerst hefur víða annars staðar á útbreiðslusvæði hans.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknar að ESB kemur fram að við mótun samningsmarkmiða á þessu sviði skuli sérstaklega metið hvernig halda megi opnum möguleikum á að halda veiðum áfram, með vísan til aldalangrar hefðar, og að stefnt skuli að því að forræði þessara mála verði sem mest í höndum íslenskra stjórnvalda. Samningskaflinn um umhverfismál, sem refaveiðar heyra undir, hefur hins vegar ekki verið opnaður og endanleg samningsafstaða Íslands ekki verið birt.

Í greinargerð samningahóps Íslands um umhverfismál kemur fram að aðildarríkjum sé heimilt að víkja frá meginreglum tilskipunarinnar í undantekningartilvikum, svo sem til verndar á fólki og búfé. Slíkt svigrúm gæti verið nægilegt til að veita tilteknum aðilum einstaka undanþágu til að veiða ref, að því tilskildu að sýnt væri fram á verulega hættu á tjóni af hans völdum. Undanþáguheimild tilskipunarinnar mundi þó ekki duga vilji stjórnvöld stjórna fjölda refa á tilteknu svæði.

Ef ekki tekst að semja um undanþágu frá alfriðun refsins, segir í greinargerðinni, þyrfti að endurskoða frávik frá friðun refsins í íslenskri löggjöf með tilliti til undanþáguheimildar tilskipunarinnar og að líklega þyrfti að endurskoða veitingu ríkisstyrkja vegna refaveiða.

Þess má að lokum geta að í sínum aðildarviðræðum við ESB sömdu Finnar um undanþágu frá friðun þriggja dýrategunda, meðal annars úlfa (Canis lupus) á svæðum hreindýraræktar, sem almennt eru taldar strangrar verndar þurfi samkvæmt reglum ESB.

Heimildir og mynd:

Upphaflegar spurningar:
Eru refa-og minkaveiðar við gotstað dýranna eins og þær eru stundaðar á Íslandi, ólöglegar samkvæmt reglum ESB?

Yrðu veiðar á ref og mink áfram leyfðar á Íslandi gengi Ísland í ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.12.2011

Tilvísun

Sigrún Ágústsdóttir og Þórhildur Hagalín. „Eru refa- og minkaveiðar ólöglegar samkvæmt reglum ESB?“. Evrópuvefurinn 14.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60084. (Skoðað 23.2.2024).

Höfundar

Sigrún Ágústsdóttirlögfræðingur hjá UmhverfisstofnunÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela