Spurning

Hversu sjálfstæð þjóð eru Íslendingar ef litið er til sjálfstæðisbaráttu, inngöngu í EES og hugsanlegrar inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Sigurður Agnarsson

Svar

Jón Sigurðsson og aðrir forystumenn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á nítjándu öld vildu að þjóðin fengi að ráða málum sínum sjálf – yrði fullvalda ‒ þegar hún yrði fær um það. Smám saman unnust áfangasigrar, oftar en ekki í tengslum við þróun mála annars staðar í heiminum. Þannig hlaut Ísland fullveldi árið 1918 um leið og ýmis önnur lönd í Evrópu. Ísland og Danmörk voru þó áfram í konungssambandi og dönsk stjórnvöld sáu um framkvæmd utanríkismála fyrir bæði löndin, svo það helsta sé nefnt. Þetta var ástæðan fyrir því að á þessu skeiði var alltaf talað um fullveldi en ekki sjálfstæði. Þegar nasistar hernámu Danmörku í apríl 1940 ákvað Alþingi að taka konungsvald og utanríkismál í sínar hendur. Um mánuði síðar hófst hernám Breta hér á landi en segja má að íslenska ríkið hafi aldrei verið eins sjálfstætt og þessa fáu vordaga árið 1940.Þjóðfundurinn 1851. Hluti af málverki Brynjólfs Þórðarsonar frá 1932.

Ísland rauf tengslin við Danmörku og varð sjálfstætt lýðveldi árið 1944. Tveimur árum síðar gengu Íslendingar í Sameinuðu þjóðirnar. Fól aðild í sér afsal á fullveldi? Lengi vel töldu Svisslendingar fyrir sína parta að svo væri, þeir urðu ekki aðilar að samtökunum fyrr en árið 2002. Slík afstaða heyrði þó til undantekninga og frekar mætti spyrja hvort sjálfstæði Íslands hafi minnkað þegar samið var við Bandaríkin um varnir landsins og hersetu árið 1951. Því hefur verið haldið fram að ríki sem ekki getur séð um eigin varnir, í það minnsta að talsverðu leyti, geti vart talist sjálfstætt.

Sjálfstæði eða fullveldi hlýtur einnig að snúast um að ráða eigin efnahag. Með það í huga voru þorskastríðin og útfærsla fiskveiðilögsögunnar á seinni hluta síðustu aldar gjarnan sögð vera framhald sjálfstæðisbaráttunnar. Að sama skapi töldu þeir sem voru á móti aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 að þá glataðist ekki aðeins formlegt fullveldi að hluta heldur einnig efnahagslegt sjálfstæði. Stuðningsmennirnir sögðu hins vegar að sjálfstæði landsins ykist við það að taka með þessum hætti aukinn þátt í efnahagslegri samvinnu í álfunni. Inn í þessar deilur fléttaðist einnig að EES-samningurinn skuldbatt Ísland og önnur aðildarríki til að taka í lög regluverk ESB á ákveðnum sviðum þó að ríkin ættu enga aðild að samningu reglnanna.

Hugtökin sjálfstæði og fullveldi má því túlka á ýmsa vegu. Innan Sameinuðu þjóðanna eru núna 193 ríki. Meðal þeirra eru 28 ríki sem tilheyra jafnframt Evrópusambandinu. Þau eru að því leyti til eins sjálfstæð og Ísland yrði ef það gengi í sambandið. Enginn dregur þó í efa að aðild að sambandinu fylgir framsal á fullveldi. Formlegt sjálfstæði minnkar. Er það þess virði? Eykst velmegun í staðinn? Eykst kannski raunverulegt sjálfstæði? Um þetta og margt annað er auðvitað deilt en sjálfstæði er teygjanlegt hugtak og háð aðstæðum á hverjum tíma, hvað sem hver segir.

Svar þetta var uppfært 5. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.6.2011

Tilvísun

Guðni Th. Jóhannesson. „Hversu sjálfstæð þjóð eru Íslendingar ef litið er til sjálfstæðisbaráttu, inngöngu í EES og hugsanlegrar inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 24.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=26491. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Guðni Th. Jóhannessonforseti Íslands og prófessor í sagnfræði

Við þetta svar er engin athugasemd Fela