Hvenær var Evrópusambandið stofnað og hvaða lönd eru í því núna?
Spyrjandi
Oddný Heimisdóttir
Svar
Fyrsta bandalagið sem yfirleitt er talið til fyrirrennara ESB var Kola- og stálbandalag Evrópu (KSB; European Coal and Steel Community, ECSC) frá 1952. Í því voru sex ríki í Vestur-Evrópu: Frakkland, Vestur-Þýskaland, Ítalía, Belgía, Holland og Lúxemborg. Árið 1958 stofnuðu sömu ríki tvö bandalög til viðbótar: Efnahagsbandalag Evrópu (EBE; European Economic Community, EEC) og Kjarnorkubandalag Evrópu (European Atomic Energy Community, EURATOM). Árið 1967 færðust KSB, EBE og EURATOM undir eina stjórn og voru þá nefnd einu nafni Evrópubandalögin.Yfirlit yfir þróun sáttmála og skipulags ESB. Smellið til að stækka myndina
Árið 1993 var nafninu á sáttmálanum um Efnahagsbandalag Evrópu breytt í sáttmálann um Evrópubandalagið (EB; European Community, EC). Samtímis var undirritaður sáttmálinn um Evrópusambandið (ESB; European Union, EU) sem tók yfir öll starfsvið Evrópusamstarfsins og fól meðal annars í sér stoðaskipulag. Í fyrstu stoðinni voru KSB, EURATOM og EB (áður EBE). Önnur stoð rúmaði sameiginlegu stefnuna í utanríkis- og öryggismálum og í þriðju stoðinn var komið fyrir samvinnu í lögreglu- og dómsmálum. Í daglegu tali varð Evrópusambandið fljótlega samheiti yfir allt það sem fram fór í stoðunum þremur. Árið 2009 var stoðaskipulagið afnumið. Efni þriðju stoðar hafði þá að miklu leyti verið tekið inn í sáttmálann um Evrópubandalagið og árið 2002 rann 50 ára gildistími Kola- og stálbandalagsins út. Heitið Evrópubandalagið var með öllu lagt niður og sáttmálinn um Evrópubandalagið fékk heitið sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins. Í dag eru því samhliða í gildi sáttmálar um EURATOM og Evrópusambandið. ESB grundvallast á tveimur sáttmálum: sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, sem var upphaflega undirritaður í Róm 1957, og sáttmálanum um Evrópusambandið, sem var fyrst undirritaður í Maastricht 1992.
- Kort af Evrópu, sótt á www.youreuropemap.com (2008).
- Þórhildur Hagalín, 2011: Skýringarmynd af þróun og skipulagi Evrópusambandsins. Með hliðsjón af en.wikipedia.org - Template: EU evolution timeline.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur29.1.2009
Flokkun:
Efnisorð
ESB Evrópusambandið Evrópubandalagið Maastricht-sáttmálinn EB EBE EC EU Efnahagsbandalag Evrópu Kola- og stálbandalagið KSB Kjarnorkubandalag Evrópu EURATOM Rómarsáttmálar
Tilvísun
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvenær var Evrópusambandið stofnað og hvaða lönd eru í því núna?“. Evrópuvefurinn 29.1.2009. http://evropuvefur.is/svar.php?id=51346. (Skoðað 6.12.2024).
Höfundur
Jón Gunnar Þorsteinssonbókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins