Spurning

Er ríkisaðstoð til sjávarútvegs leyfileg innan ESB?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Regluverk Evrópusambandsins bannar að mestu ríkisstyrki sem geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkja þess með því að ívilna ákveðnum ríkjum eða svæðum, fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. Markmiðið er að stuðla að virkri samkeppni innan innri markaðar ESB. Ákveðnar undanþágur eru veittar ef inngrip ríkisins er talið nauðsynlegt til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Sjá nánar um almenn skilyrði fyrir undanþágum í svari við spurningunni Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja?

Undanþágur frá ríkisaðstoðarreglum ESB eru veittar vegna ákveðinna tegunda af ríkisstyrkjum til sjávarútvegs sem ekki eru taldir bjaga samkeppni. Annars vegar eru ríkisstyrkir til smárra og miðlungsstórra fyrirtækja og hins vegar svokölluð lágmarksaðstoð (de minimis aid). Undanþágurnar falla undir reglugerð um hópundanþágur, sjá nánar á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.

***

Ríkisstyrkir til smárra og miðlungsstórra fyrirtækja í sjávarútvegi verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að veitt sé undanþága frá ríkisaðstoðarreglum ESB:
  • Upphæð þeirra má ekki fara yfir 1 milljón evra árlega til hvers styrkþega eða 165 milljónir króna á genginu í ágúst 2011.
  • Heildarupphæð til hvers verkefnis má ekki fara yfir 2 milljónir evra eða 330 milljónir króna.
  • Einungis má veita smáum eða miðlungsstórum fyrirtækjum styrki.
  • Styrkveiting verður að lúta reglum Evrópska fiskveiðisjóðsins (European Fisheries Fund, EFF).
  • Ekki má veita styrki til aðila sem hefur verið gert að endurgreiða ólöglegan styrk fyrr en því máli er formlega lokið.

Sjá nánar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2008.

Svokölluð lágmarksaðstoð felst í svo lágum styrkjum að ólíklegt þykir að þeir hafi marktæk áhrif á samkeppni í greininni. Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um lágmarksaðstoð segir að aðildarríkjum sé heimilt að veita 30.000 evrur til sjávarútvegsfyrirtækja yfir þriggja ára tímabil eða tæpar fimm milljónir króna. Aðstoðin er ekki tilkynningarskyld ef upphæð hennar er innan við 2,5% af framleiðsluverðmæti sjávarafurða í viðkomandi ríki. Aðildarríkjum er þó skylt að skrá aðstoðina í ársskýrslu sína um ríkisstyrki, en öllum aðildarríkjum ESB er gert að skila inn þess háttar skýrslu til framkvæmdastjórnarinnar árlega.

Um lágmarksaðstoð gilda eftirfarandi reglur:
  • Óheimilt er að fara í kringum ákvæði um leyfilega hámarksupphæð aðstoðar með því að skipta henni upp í nokkrar greiðslur.
  • Óheimilt er að veita aðstoð til fyrirtækja í kröggum.
  • Skylt er að hafa umsjón með aðstoðinni á gagnsæjan hátt.
  • Óheimilt er að nota aðstoðina til að smíða eða kaupa fiskiskip.
  • Óheimilt er að nota aðstoðina á þann hátt að hún trufli almennt skipulag markaðar fyrir sjávarafurðir.

Aðildarríkjum er skylt að setja upp eftirlitskerfi sem tryggir að ofangreindum reglum sé fylgt.Maria Damanaki, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

Ef áætluð styrkveiting til sjávarútvegs fellur ekki undir ofangreindar undanþágur er aðildarríkjum skylt að tilkynna hana framkvæmdastjórn ESB fyrirfram og bíða staðfestingar á að aðstoðin sé lögleg samkvæmt reglum ESB um ríkisaðstoð. Ef aðildarríki veitir ríkisaðstoð án þess að bíða samþykkis framkvæmdastjórnarinnar er aðstoðin metin ólögleg. Ef framkvæmdastjórnin metur síðan að viðkomandi aðstoð samrýmist ekki reglum innri markaðarins er styrkþega skylt að endurgreiða styrkinn. Sjá nánar í leiðbeiningum framkvæmdastjórnarinnar um ríkisstuðning varðandi sjávarútveg og fiskirækt frá árinu 2008.

Styrkir sem Evrópusambandið sjálft veitir til sjávarútvegs innan sambandsins og styrkir frá þróunarsjóðum þess eiga ekki að trufla samkeppni innan sambandsins og eru ekki ríkisstyrkir í skilningi sáttmála ESB. Samdráttur í fiskveiðum hefur leitt til þess að styrkir beinast nú í ríkum mæli að því að draga úr afkastagetu og bæta fyrir tjón sem slíkt veldur sjómönnum, útgerðarmönnum og þeim svæðum þar sem sjávarútvegur er undirstaða atvinnustarfsemi. Hvorki þarf að tilkynna um slík framlög til framkvæmdastjórnarinnar né fylgja leiðbeiningarreglum um ríkisstyrki. Sama á við um styrki sem aðildarríki veita til verkefna í samstarfi við Evrópska sjávarútvegssjóðinn, svo lengi sem framlag viðkomandi ríkis fer ekki fram úr heimildum reglugerðar um sjóðinn. Þá er almennt ekki litið á tímabundnar aðgerðir til stuðnings við endurreisn fiskveiðiflota ESB í kjölfar efnahagskreppunnar sem ríkisaðstoð. Aðgerðirnar voru samþykktar árið 2008 vegna hækkandi olíuverðs.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:
Hvetur ESB til framleiðslustyrkja til einkafyrirtækja þ.e. fyrir utan landbúnað? Bannar ESB opinbera styrki til einkafyrirtækja?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela