Spurning

Er ríkisaðstoð til landbúnaðar leyfileg innan ESB?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Regluverk Evrópusambandsins bannar að mestu ríkisstyrki, það er að segja styrki frá aðildarríkjunum sjálfum, sem geta haft áhrif á viðskipti milli ríkjanna með því að ívilna ákveðnum ríkjum eða svæðum, fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. Markmiðið er að stuðla að virkri samkeppni á innri markaði ESB. Ákveðnar undanþágur eru veittar ef inngrip ríkisins er talið nauðsynlegt til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Sjá nánar um almenn skilyrði fyrir undanþágum í svari við spurningunni Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja?

Undanþágur frá ríkisaðstoðarreglum ESB eru veittar vegna ákveðinna tegunda af ríkisstyrkjum til landbúnaðar sem ekki eru taldir bjaga samkeppni. Þar er um að ræða styrki til áhættu- og krísustjórnunar (e. aid for risk and crisis management), skógræktar og nokkrar aðrar tegundir styrkja. Sjá umfjöllun um ríkisstyrki til skógræktar í svari við spurningunni Er ríkisaðstoð til skógræktar leyfileg innan ESB?

Styrkir sem Evrópusambandið veitir til landbúnaðar innan sambandsins samkvæmt sameiginlegri landbúnaðarstefnu þess eru ekki skilgreindir sem ríkisstyrkir í skilningi sáttmála ESB, en ýmiss konar stuðningur við landbúnað og byggðamál hefur frá upphafi verið einn stærsti þátturinn í útgjöldum sambandsins.

***

Ríkisaðstoðarreglur ESB á sviði landbúnaðar byggjast á almennum samkeppnisreglum sambandsins, sameiginlegu landbúnaðarstefnunni og loks alþjóðlegum skuldbindingum, fyrst og fremst á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti í upphafi ársins 2007 nýjar leiðbeiningar um ríkisaðstoð til landbúnaðar sem gilda til ársins 2013. Leiðbeiningarnar eru sagðar taka til greina þróun landbúnaðarstefnu sambandsins, þörfina fyrir að auka gæði landbúnaðarvara og vernda bæði umhverfið og hefðbundna arfleifð landsbyggðarinnar. Í þeim er meðal annars tekið fyrir hvers konar ríkisaðstoð sem truflar sameiginlegt skipulag á markaði fyrir landbúnaðarvörur. Þá verður ríkisaðstoð að fela í sér raunverulegt framlag til þróunar ákveðinnar efnahagslegrar starfsemi eða ákveðinna svæða, - aðstoðin má ekki einungis bæta hag styrkþega.

Ríkisaðstoð til áhættu- og krísustjórnunar beinist að frumgeiranum í landbúnaðarframleiðslu (e. primary agricultural production) á erfiðleikatímum. Í þeim tilfellum ber að forðast truflun á jafnri samkeppni. Þess er krafist að framleiðendur leggi fram ákveðinn hluta af kostnaði eða taki á sig hluta af tapinu, til að þeir lágmarki áhættu fyrirfram. Eftirfarandi ríkisaðstoð er heimiluð til áhættu- og krísustjórnunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sjá heimasíðu Evrópusambandsins:

  • Til að bæta fyrir skaða sem landbúnaðarframleiðsla verður fyrir vegna náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða, óhagstæðra veðurskilyrða eða útbreiðslu dýra- eða plöntusjúkdóma, og til trygginga gegn þess konar áhættu.
  • Við stöðvun framleiðslu, vinnslu og markaðssetningar á landbúnaðarvörum.
  • Til björgunar og enduruppbyggingar á fyrirtækjum í erfiðleikum.
  • Til greiðslu iðgjalda.
  • Í tengslum við smitandi heilahrörnunarsjúkdóma í búfénaði (til dæmis kúariðu)
  • Til harðbýlla svæða.

Sjá nánar í reglugerð framkvæmdastjórninnar frá árinu 2006.

Eftirfarandi ríkisaðstoð til landbúnaðar er einnig heimiluð með ákveðnum skilyrðum:

  • Til atvinnuuppbyggingar.
  • Til að auglýsa landbúnaðarvörur.
  • Til rannsókna og þróunar.
  • Til þjálfunar.
  • Vegna fjárfestinga.
  • Í formi trygginga eða endurgjalds vegna opinberrar þjónustu.
  • Í formi undanþágu frá skatti eða niðurfellingar. Á við um orku eða rafmagnsafurðir sem eru notaðar við frumgeira landbúnaðarframleiðslu og aðrar vörur sem halda framleiðslunni gangandi.
Sjá nánar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2003.

Svokölluð lágmarksaðstoð, de minimis aid, til landbúnaðar er einnig undanþegin ríkisaðstoðarreglum ESB. Þannig er aðildarríkjum heimilt að styðja við bændur með allt að 7.500 evrum yfir þriggja ára tímabil (rúmar 1,2 milljónir króna á genginu um miðjan ágúst 2011), án þess að þurfa að tilkynna framkvæmdastjórninni um aðstoðina - meðan heildarupphæðin fer ekki yfir 0,75% af framleiðsluverðmæti landbúnaðar í viðkomandi ríki. Sjá nánar í reglugerð framkvæmdastjórnar ESB frá árinu 2007.

Innan framkvæmdastjórnarinnar er það stjórnarsvið fyrir landbúnað (e. Directorate-General for Agriculture, DG Agriculture) sem sinnir málum er varða ríkisaðstoð til landbúnaðar.

Í skýrslu utanríkisráðuneytisins um ESB og landbúnað er áætlað að íslensk stjórnvöld gætu haft svigrúm til að veita töluverðan viðbótarstuðning til landbúnaðar ef Ísland gengi í ESB, sé tekið mið af niðurstöðum aðildarviðræðna Norðurlandanna við Evrópusambandið um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Sú ríkisaðstoð megi hins vegar ekki verða til þess að samanlögð aðstoð sé umfram það sem raunin var fyrir aðild. Aðstoðin geti verið að minnsta kosti tvenns konar: Annars vegar viðvarandi stuðningur til búgreina sem að öðrum kosti hefðu farið verulega halloka við aðild – fyrst og fremst á þeim svæðum sem falla undir skilgreininguna um „norðlægan stuðning“ (sjá svar við spurningunni Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?), og hins vegar tímabundinn stuðningur til aðlögunar með lækkandi greiðslum yfir 5 ára tímabil eftir aðild.

Heimildir og myndir:

Upphafleg spurning:
Hvetur ESB til framleiðslustyrkja til einkafyrirtækja þ.e. fyrir utan landbúnað? Bannar ESB opinbera styrki til einkafyrirtækja?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.8.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Er ríkisaðstoð til landbúnaðar leyfileg innan ESB?“. Evrópuvefurinn 18.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60423. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela