Hvaða mál um brot íslenskra stjórnvalda á ríkisaðstoðarreglum EES eru nú til skoðunar hjá eftirlitsstofnun EFTA?
Spyrjandi
Egill Almar Ágústsson
Svar
Ísland er hluti af innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn frá árinu 1994. Með innri markaði er átt við frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki. Íslandi ber að fylgja samkeppnisreglum ESB, nema í sjávarútvegi og landbúnaði. Þar á meðal er bann við ríkisstyrkjum sem geta haft áhrif á viðskipti með því að ívilna ákveðnum ríkjum eða svæðum, fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. Ríkisaðstoð er þó leyfð þegar hún er talin nauðsynleg til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Eftirlitsstofnun EFTA lítur eftir því að EFTA/EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein virði skuldbindingar sínar við EES. Þónokkur mál um hugsanleg brot íslenska ríkisins á ríkisaðstoðarreglum eru nú til umfjöllunar hjá stofnuninni. Óútkljáð mál eru rakin í svarinu og auk þess nokkur mál sem hafa fengið afgreiðslu með jákvæðum hætti fyrir Ísland.
Eftirlitsstofnun EFTA rannsakar einnig veitingu 11,6 milljarða króna ríkisstyrks við endurfjármögnun tryggingafélagsins Sjóvár. Það er frummat stofnunarinnar að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Þá hafi það verið gert án þess að tilkynna það til eftirlitsstofnunarinnar líkt og lög mæla fyrir um. Fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld haldið því fram að viðskiptin hafi verið gerð á markaðsforsendum og því hafi engrar tilkynningar verið þörf. Því er eftirlitsstofnun EFTA ekki sammála. Formleg rannsókn hófst 22. september 2010.
Þá rannsakar eftirlitsstofnun EFTA ríkisaðstoð í tengslum við viðskipti upp á rúma 83 milljarða króna í október 2008, sem snéru að kaupum á skuldabréfum í eigu fjárfestingarsjóða sem nefndust peningamarkaðssjóðir, en rekstur þeirra var í höndum sérstakra félaga sem tengdust stóru íslensku bönkunum þremur. Eftirlitsstofnun EFTA dregur í efa að viðskiptaleg sjónarmið hafi ráðið för þegar nýju bankarnir réðust í kaupin á sama tíma og íslenski fjármálamarkaðurinn var í uppnámi. Rannsóknin hófst 8. september 2010.
Eftirlitsstofnun EFTA telur þar að auki að fyrirkomulag og hlutverk Íbúðalánasjóðs brjóta í bága við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins. Að mati stofnunarinnar ber íslenskum stjórnvöldum að skilgreina betur hlutverk Íbúðalánasjóðs í almannaþjónustu og tryggja að þeirri ríkisaðstoð sem sjóðurinn nýtur sé einungis varið til starfsemi sem tengist almannaþjónustu, en ekki til starfsemi af viðskiptalegum toga. Eftirlitsstofnunin bendir í því sambandi á dóm EFTA dómstólsins frá árinu 2006. Stjórnvöldum var þann 18. júlí 2011 gefinn sex vikna frestur til að samþykkja tillögur stofnanarinnar um Íbúðalánasjóð og koma þeim í framkvæmd, ella verði tekin upp formlega rannsókn á grundvelli aðfinnslna hennar. Breytingum skal lokið 1. janúar 2012.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur einnig lagt til breytingar á fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins (RÚV) með það fyrir augum að stuðla að meira gagnsæi í opinberum fjárframlögum til RÚV og draga úr hættu á samkeppnisröskun á þeim markaði sem það starfar á. Eftirlitsstofnunin hefur meðal annars lagt til að útlistuð verði nánar málsmeðferð við breytingar á opinberu þjónustuhlutverki RÚV, að sett verði leiðbeinandi viðmið um ákvörðun gjaldskrár fyrir verkefni RÚV vegna opinberrar þjónustu og að tekinn verði af allur vafi um að starfsemi RÚV utan almannaþjónustu skuli rekin á markaðsforsendum. Frestur íslenskra stjórnvalda til þess að bregðast við tillögunum rann út í lok mars 2011. -- Samkvæmt fréttatilkynningu menntamálaráðuneytisins frá 30. mars 2011 óskuðu íslensk stjórnvöld eftir fresti til loka aprílmánaðar 2011 af því að fjölmiðlafrumvarp lægi enn fyrir Alþingi. Frumvarpið varð að lögum 15. apríl 2011 og gerði ráð fyrir stofnun fjölmiðlanefndar sem á meðal annars að hafa eftirlit með starfsemi RÚV og endurskoða lagaumhverfi þess. Nefndin var skipuð af menntamálaráðherra 3. júní 2011. Gert er ráð fyrir að hún taki tillögur eftirlitsstofnunar EFTA fyrir og vísi málinu í kjölfarið til ríkisstjórnarinnar.

- Ríkisútvarpið vefur: ESA rannsakar nýtt eignarhald Sjóvá.
- Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað í fjölmiðlanefnd.
- Menntamálaráðuneytið, fréttatilkynning. Málefni Ríkisútvarpsins hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
- Heimasíða utanríkisráðuneytisins: Eftirlitsstofnun EFTA.
- Fyrri mynd sótt 8. ágúst 2011 af heimasíðu eftirlitsstofnunar EFTA.
- Síðari mynd sótt 9. ágúst 2011 af heimasíðu Hestablaðsins.
- Heimasíða Eftirlitsstofnunar EFTA. Fréttatilkynningar: Ríkisaðstoð.
- ESA heimilar björgunaraðstoð til Íbúðalánasjóðs.
- Tímabundið samþykki veitt við ríkisaðstoð til endurfjármögnunar á Byr hf.
- Tax measures concerning the construction of an aluminium plant at Helguvík approved by the Authority.
- The Authority approves amendment to the Icelandic support scheme for film making.
- Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir ríkisaðstoð til björgunar smærri sparisjóða á Íslandi.
- Ríkisstyrkir: Lagt til að Ísland breyti fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins.
- Ríkisaðstoð: ESA samþykkir áætlun um ívilnanir til nýfjárfestinga.
- Ríkisaðstoð: Íslenskt ríkisaðstoðarkerfi til stuðnings nýsköpunarfyrirtækjum samþykkt.
- Ríkisaðstoð: Rannsókn á endurfjármögnun Sjóvár.
- Rannsókn á fyrirhuguðum ríkisstyrkjum til gagnavers Verne í umsagnarferli.
- Ríkisaðstoð: Rannsókn á peningamarkaðssjóðum.
- Auglýst eftir athugasemdum vegna rannsókna á endurreisn viðskiptabanka á Íslandi.
- Ríkisaðstoð: Rannsókn á endurreisn viðskiptabankanna.
- Ríkisaðstoð: ESA leggur til breytingar á Íbúðalánasjóði.
Hvetur ESB til framleiðslustyrkja til einkafyrirtækja þ.e. fyrir utan landbúnað? Bannar ESB opinbera styrki til einkafyrirtækja?
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 9.8.2011
Efnisorð
eftirlitsstofnun EFTA ESA ríkisstyrkir EES-samningur Íbúðalánasjóður Ríkisútvarpið Verne Holdings Kaupþing Landsbanki Glitnir Arion banki Íslandsbanki Sjóvá peningamarkaðssjóðir Byr hf. nýsköpunarfyrirtæki Century Aluminium sparisjóðir
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvaða mál um brot íslenskra stjórnvalda á ríkisaðstoðarreglum EES eru nú til skoðunar hjá eftirlitsstofnun EFTA?“. Evrópuvefurinn 9.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60409. (Skoðað 30.10.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef


